Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:08:07 (7651)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Hér er til umræðu frv. um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópsks efnahagssvæðis. Ég sé að nefndin hefur gert allverulegar brtt. við þetta frv. sem ég ætla ekki að ræða sérstaklega heldur ætla ég aðeins að ræða það sem mér finnst mjög sérkennilegt við þessa lagasetningu. Það er reyndar ekki eingöngu í þessu frv. en það er að birta raunverulega aðalbreytingarnar sem fylgiskjal við frv. eða eins og segir í 1. gr. að reglugerðin eins og hún verður lögð fyrir er prentuð sem fskj. með lögum þessum. Þá velti ég fyrir mér af hverju textinn standi ekki í lögunum sjálfum. Hvaða stöðu hefur slík reglugerð? Er hægt að breyta reglugerðinni án þess að það fari fyrir Alþingi, þ.e. verður þetta eingöngu gert þannig að ef Evrópubandalagið kýs að breyta reglugerðinni eftir eigin höfði --- eins og t.d. kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Vestf., þá er þegar búið að gera ákveðnar breytingar á þessari reglugerð. Þess vegna vil ég varpa því hér fram hvaða stöðu slíkt fylgiskjal hefur. Mér er það alls ekki ljóst hvort þetta fylgiskjal er ígildi laga ef frv. verður að lögum og hvernig fer með breytingar á þessu. Þetta finnst mér nauðsynlegt að fá fram vegna þess að það hlýtur að skipta máli um afstöðu til þessa frv. og þessara brtt. hvort 1. gr., þ.e. að ákvæði reglugerðar um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins og svo er tilgreint ákveðið númer, hvort þessi reglugerð getur tekið breytingum án þess að við á Alþingi getum nokkuð sagt til um það hvaða afstöðu við höfum til þess. Þetta finnst mér nauðsynlegt að fá fram og ég trúi ekki öðru en hv. formaður félmn. geti upplýst það því að nefndin hlýtur að hafa tekið á

þessu. E.t.v. er þetta eitthvað sem er augljóst þar sem þetta er ekki í fyrsta skiptið sem svona hefur verið gert þó að þetta sé frekar óvanalegt, sérstaklega þar sem hér er um að ræða verulega mikinn og stóran bálk sem þessi reglugerð er, en eins og menn sjá, þá er hún hér í 48 liðum prentuð sem fskj. með brtt. á þskj. 343.