Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:11:47 (7652)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnarinnar um reglugerðina er alveg rétt að það fékk mjög mikla umræðu að fara þessa leið sem var reyndar gerð með EES-samninginn sjálfan og líka með frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks. Reglugerðin hefur lagagildi hér. Það hefði verið hægt að fara þá leið að taka sérhverja grein og gera hana að sjálfstæðri grein í lagatexta sem hefði verið mjög umfangsmikið mál. Á sínum tíma var ákveðið að gera þetta frekar á þennan hátt. Það var farið svona að í ýmsum nágrannalöndum sem við vorum að bera okkur saman við og þó að við þurfum að sjálfsögðu ekki að fara eftir því hefði ekki verið hægt að taka þessar greinar t.d. eins og þær standa í reglugerðinni og gera þær að lagagreinum. Þeim hefði verið breytt umtalsvert í uppsetningu og öðru.
    Ekki er hægt að breyta reglugerðinni öðruvísi en breyta henni eins og lagafrv. vegna þess að hún verður prentuð í lög og stendur þar sem slík. Vegna þessa lögðum við í nefndinni mjög mikla áherslu á það að aðlaga reglugerðina þannig að það stæði ekki aðildarríki Evrópubandalags o.s.frv. heldur að fara út í það sem hér hefur þegar komið fram í breytingum á reglugerðinni að aðlaga hana og losa okkur þar með við tilvísanir og viðbætur sem áður voru í málinu þegar það var lagt fram.