Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:14:14 (7653)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja nokkuð sérkennilegur dagur í dag í þessari stofnun því að haldið er áfram 2. umr. um mál sem voru í fyrri hluta umræðu löngu fyrir hátíðar. Mér sýnist að það mál sem er til umræðu núna hafi síðast verið til umræðu 2. des. sl. Þar áður var það til umræðu 25. nóv. Það var fyrsti hluti 2. umr. og upphaflega var talað fyrir málinu 6. okt. Auðvitað er dálítið erfitt að halda einhverju eðlilegu samhengi í umræðum við aðstæður af þessu tagi.
    Þegar hæstv. menntmrh. mælti fyrir þessu frv. sem þá var kallað frv. til laga um gagnkvæma viðurkenningu á menntun urðu nokkrar umræður um málið strax við 1. umr. og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gerði þá athugasemdir við það að frv. og heiti þess væri í raun og veru villandi og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir, 10. þm. Reykv., gerði athugasemdir við það að hún taldi að mörg atriði væru óljós í frv., ekki síst varðandi það til hvaða starfsstétta eða prófskírteina frv. tæki. Hv. þm. lagði þá nokkrar fyrirspurnir fyrir hæstv. menntmrh. sem út af fyrir sig vísaði svörunum til hv. menntmn. Það sem kom fram merkast í umræðunni var það að sú fyrirspurn var lögð fram fyrir hæstv. menntmrh. eins og það var orðað í ræðu eins þingmannsins: ,,En eitt langaði mig til þess að fá fram hjá hæstv. ráðherra, nokkuð ótvírætt, hans skilning á hvort kröfu um tungumálakunnáttu væri hægt að beita þannig að menn litu svo á að þar væru menn að mismuna eftir þjóðerni eða hvort krafan um tungumálakunnáttu sé einungis hæfniskrafa.`` Og hæstv. menntmrh. sagði, með leyfi forseta:
    ,,Mér sýnist svarið við þessu vera það að hér hlýtur að vera gerð einföld hæfniskrafa en það sé ekki verið að mismuna eftir þjóðerni. En ég tek það enn og aftur fram að það er auðvitað sá sem ræður í stöðuna sem velur úr hópi umsækjenda og þeir kunna að vera af mörgu þjóðerni. En ég tel ekki felast í þessu að mismunað yrði fyrir fram eftir þjóðerni heldur verði gerðar hæfniskröfur.``
    Ég tel að þetta hafi verið mjög mikilvægt innlegg í málið og á grundvelli þess og 1. umr. og fylgifrv. sjálfs og greinargerðar þess hófst síðar meðferð málsins í hv. menntmn. Má segja að þó að niðurstaðan hafi orðið sú að nefndin skilaði tveimur álitum, meiri hlutinn skilaði séráliti og minni hlutinn séráliti, hafi verið allgóð samstaða um nauðsyn breytinga á frv. og á grundvelli þess voru umræður þeirra sem fóru fram í nefndinni. Það var vönduð umræða og yfirferð. Þar voru gerðar fjórar meginbreytingar á frv. frá því sem þar var lagt fram við 1. umr.
    Í fyrsta lagi breytt ákvæðum í 1. mgr. 1. gr. þar sem það var lagt til að orðin ,,vegna menntunar er veiti starfsréttindi`` féllu niður og í þeirra stað kæmu orðin ,,vegna starfsmenntunar.`` Með þessari breytingu var ætlun nefndarinnar að orða gildissvið frv. skýrar þannig að það næði einungis til viðurkenningar á þeirri menntun og þeim prófskírteinum sem aðili hefur hlotið.
    Þá var gerð mjög mikilvæg breyting að því er varðar 4. gr. frv. og snertir það til hvaða tilskipana Evrópubandalagsins frv. tekur. Þar var tekið af skarið um það að frv. tekur í raun og veru bara til einnar tiltekinnar tilskipunar, þ.e. tilskipunar 8948 sem tengist samningnum um Evrópskt efnahagssvæði en ekki

annarra tilskipana sem hugsanlega yrðu gefnar út og samþykktar og næðu inn á þetta svið. Ef þær tilskipanir verða gefnar út eða samþykktar þá verða þær að koma til sérstakrar meðferðar á Alþingi. Þetta töldum við sem gerðum athugasemdir við málið í minni hluta menntmn. mikilvæga niðurstöðu. Síðan var lagt til að fella niður ákvæði í 5. gr. sem lúta í að framkvæmd laganna vegna þess að nefndin taldi að þau ákvæði ættu betur heima í reglugerð en í frv. sjálfu. Loks var heiti frv. breytt til að fyrirbyggja mistúlkun á gildissviði þess í samræmi við þær athugasemdir sem komu fram við 1. umr.
    Ég og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir skiluðum minnihlutaáliti en ég hygg að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi skrifað undir álit meiri hlutans með fyrirvara og líklega hefur hv. 2. þm. Vestf. verið fjarverandi á þeim fundi nefndarinnar sem afgreiddi málið því að hann skrifar ekki undir álitið.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gerði síðan á fundi Alþingis 25. nóv. sl. grein fyrir okkar viðhorfum og í nál. minni hlutans rekjum við málið ítarlega og segjum svo í lok nál. sem birtist á þskj. 327:
    ,,Minni hluti nefndarinnar er andvígur þeirri úreltu heimssýn sem birtist í EES þótt vissulega megi benda á nokkra kosti sem fylgja mundu aðild Íslands að EES. Minni hlutinn telur hagsmunum og framtíð þjóðarinnar betur borgið utan þessarar efnahagsheildar en innan og vill fremur sjá sem frjálsust viðskipti milli allra þjóða heims en blokkamyndun og einangrunarstefnu af því tagi sem einkennir Evrópubandalagið. Því styður minni hlutinn ekki þau mál sem eru bein afleiðing af samningnum um EES og hefðu annaðhvort ekki komið til umfjöllunar á Alþingi eða verið með allt öðrum hætti hefði Alþingi eitt um vélað. Þá leiðir gildistökuákvæði frumvarpsins einnig af sér að minni hlutinn styður það ekki þótt hann sé efnislega samþykkur því að fólk eigi greiðan aðgang að viðurkenningu á menntun og prófum utan sem innan EES. Minni hluti nefndarinnar mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.``
    Nefndarálitið er gefið út 23. nóv. 1992 og undir það rituðu Kristín Ástgeirsdóttir og Svavar Gestsson.
    Framhald umræðunnar fór síðan fram 2. des. sl. og síðan hefur málið ekki verið tekið fyrir en í þeirri umræðu kvaddi sér hljóðs einn menntamálanefndarmaður sem ekki virðist hafa verið við lokaafgreiðslu málsins í nefndinni, þ.e. hv. 2. þm. Vestf. og hann gerði mjög alvarlegar athugasemdir við þær reglugerðarheimildir sem frv. gerir ráð fyrir og lagði m.a. eftirfarandi gátu fyrir hæstv. menntmrh.: ,,Væri hæstv. menntmrh. spenntur fyrir því að samþykkja svona reglugerðarheimild ef hæstv. ráðherra væri óbreyttur þingmaður en hv. 9. þm. Reykv. væri menntmrh.? Ég er ekki viss um að svo væri. Nú er það ekki okkar að semja lögin miðað við það að þessi eða hinn sé ráðherra og treysti ég hv. 9. þm. Reykv. enn síður til að fara með þetta vald en núv. hæstv. menntmrh.``
    Á grundvelli þessa skildist mér að þessi hv. þm. mundi ekki styðja málið. Síðan urðu allmiklar umræður um þetta þar sem margir þingmenn blönduðu sér í umræðurnar, þar á meðal hv. 4. þm. Austurl. með ítarlegri og greinargóðri ræðu og má segja út af fyrir sig að frv. hafi fengið allgóða efnislega meðferð í umræðunni 2. des. sl.
    Þegar málið kom til meðferðar var skoðun meiri hlutans að mjög brýnt væri að málið yrði afgreitt hið allra fyrsta, það lægi mjög mikið á. Við sem skipum minni hluta menntmn. töldum að það væri skynsamlegra að hinkra með afgreiðslu málsins fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Sviss. Ég man eftir því hvað sumum í salnum þótti mikil fjarstæða að láta sér detta það í hug að bíða fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Sviss og sérstaklega það þjóðaratkvæðagreiðslan gæti yfir höfuð einhverju breytt. Nú hefur veruleikinn hins vegar fært mönnum heim sanninn um að margt getur gerst undir sólinni og m.a. í Sviss og þess vegna var auðvitað skynsamlegt að bíða með málið þó að það sé vissulega dálítið óþægilegt upp á umræðuna að hún hafi slitnað í sundur með þeim hætti sem hér hefur átt sér stað.
    Ég tel, virðulegi forseti, að það sé óhjákvæmilegt með hliðsjón af því sem síðan hefur gerst, m.a. umræðunni eins og hún fór á sínum tíma, að við sem erum í minni hluta menntmn. ítrekum afstöðu okkar um það að við munum ekki greiða fyrir því að þetta frv. verði að lögum heldur munum við sitja hjá við afgreiðslu málsins þó að við metum það vissulega mikils að meiri hluti nefndarinnar kom að nokkru til móts við ýmis sjónarmið okkar þegar málið kom til tals á sínum tíma.
    Ég vek athygli á því að við umræðurnar 2. des sl. komu fram mjög alvarlegar athugasemdir við frv. og allan búnað þess, bæði frá hv. 2. þm. Vestf. og sömuleiðis frá hv. 4. þm. Austurl. Þess vegna sýnist mér þegar málin eru skoðuð í heild að þó svo að við kjósum jafnvel að sitja hjá um málið að miklu leyti hljóti menn að íhuga það mjög alvarlega að greiða atkvæði gegn þeirri víðtæku reglugerðarheimild sem þeir hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og Hjörleifur Guttormsson gagnrýndu hvað harðast í umræðunum 2. des. sl. Þess vegna verður óhjákvæmilegt að greiða atkvæði um einstakar greinar þannig að menn geti látið í ljós skoðanir sínar á því sem þarna er á ferðinni í einstökum atriðum.
    Virðulegi forseti. Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umræðu um leið og ég rifja upp það sem gerst hefur. Eitt af því sem var notað sem röksemd fyrir því að það væri í lagi að samþykkja þetta frv. og jafnvel að flýta því var að Alþýðusamband Íslands væri sérstakur stuðningsaðili samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Svo vill til að einmitt um það leyti sem umræðan fór fram, 2. des. 1992, var nýlega lokið þingi Alþýðusambands Íslands. Kannski er rétt að rifja það einmitt upp á þessum fundi, virðulegi forseti, að Alþýðusamband Íslands lýsti ekki yfir stuðningi sínum við Evrópskt efnahagssvæði og mál, sem voru lögð fyrir það þing af nefndum á vegum miðstjórnar Alþýðusambandsins, voru ekki samþykkt. Því er útilokað að halda því fram að Evrópska efnahagssvæðið hafi fengið stuðning verkalýðssamtakanna að

einu eða neinu leyti. Núna líta mál þannig út að svo gæti farið að þetta mál verði allt meira og minna í óvissu fram eftir öllu ári. Þess vegna væri auðvitað skynsamlegt að láta staðar numið eins og gert var 2. des., hætta umræðunni núna og taka hana svo kannski upp eftir eftir fimm mánuði og síðan á fimm mánaða fresti eftir því sem þörf krefur því að greinilegt er að ekki er mikill hraði á þeim málum sem snúa að Evrópsku efnahagssvæði eins og hv. 4. þm. Reykv. hefur m.a. oft bent á í þessum sal. Þess vegna ítreka ég afstöðu okkar. Við teljum í fyrsta lagi skynsamlegt að fresta umræðunni og eyða ekki tíma í þetta núna. Í öðru lagi munum við, sem stöndum að áliti minni hlutans, sitja hjá um málið. Jafnframt legg ég á það áherslu að komi málið til atkvæða tel ég eðlilegt að atkvæðagreiðsla fari fram um einstakar greinar frv.