Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:34:00 (7655)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. á þskj. 639, um umhverfisgjald.
    Flm. þessarar tillögu eru allar þingkonur Kvennalistans.
    Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
        ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi tillögur um umhverfisgjald sem hafi það að markmiði að efla umhverfisvernd og draga úr mengun. Gjaldið verði lagt á mengandi starfsemi og lækki eftir því sem mengunarvarnir skila árangri.``
    Íslendingar hafa löngum talið að hér væri lítil sem engin mengun. Umhverfismálin væru í góðu lagi og að við værum fyrirmyndir annarra. Því miður er það ekki svo. Ef við lítum til heimsins alls þá tengjast umhverfisvandamálin vaxandi mengun, eyðingu auðlinda, fólksfjölgun, fátækt og misskiptingu gæða jarðarinnar. Ferskvatnsbirgðir heimsins fara minnkandi, votlendi og vötn þorna upp, súrt regn og skógeyðing leiða til eyðileggingar á vistkerfinu; giskað hefur verið á að um 1 milljón tegunda plantna og dýra hafi nú þegar horfið af yfirborði jarðar fyrir tilverknað manna. Við Íslendingar erum hluti af þessu og höfum því skyldur gagnvart heiminum, ekki bara gagnvart okkar eigin landi.
    Í loftinu, sem við öndum að okkur, hefur magn mengandi efna, svo sem koldíoxíðs, kolmónoxíðs, köfnunarefnisoxíða, metans og klórflúorkolefnis, aukist verulega. Þetta mun að margra mati leiða til hækkaðs hitastigs á jörðinni, að jöklar bráðni og yfirborð sjávar hækki með hrikalegum afleiðingum. Mörg svæði, jafnvel heilu löndin, gætu horfið af yfirborði jarðar strax á næstu öld ef sjávarborð hækkar eins og spáð er. Stór svæði ræktarlands og byggð ból á láglendi í strandríkjum mundu fara í kaf. Ef við lítum okkur aðeins nær mun hækkað hitastig hafa verulegar afleiðingar hér á landi. Stórfelld röskun yrði á hafnarmannvirkjum og íbúðabyggðir eins og miðbær Reykjavíkur gætu t.d. farið meira og minna undir vatn. Víðast hvar annars staðar mundu strandsvæði, sem nú eru í byggð, eyðileggjast. Ómögulegt er að segja til um það nú hvaða áhrif hækkað hitastig hefði á hafstrauma, en breytingar á þeim gætu haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar hér á landi að því er varðar veðurfar og vistkerfi sjávar og þar með á fiskstofnana.
    Að undanförnu hafa birst margar greinar í blöðum, fyrst og fremst í erlendum blöðum en einnig hefur aðeins borið á því hér á landi, þar sem talað er um óveðrin sem geysað hafa undanfarið, bæði hefur það gerst hér á landi og ekki síst í Evrópu og hefur verið talað um að þetta sé vegna gróðurhúsaáhrifanna svonefndu. Hafa margir tekið nokkuð stórt upp í sig hvað þetta varðar. Þess ber að geta að einnig hafa birst greinar sem fullyrða að þau óveður sem geysað hafa undanfarið, og er þá sérstaklega verið að tala um Evrópu, séu ósköp eðlileg. Þetta er auðvitað mjög erfitt að sjá nákvæmlega þar sem ekki hafa verið gerðar veðurfarsrannsóknir nógu lengi til að hægt sé að meta þetta nákvæmlega. En hættumerkin eru svo sannarlega til staðar.
    Það efni, sem á mestan þátt í auknum gróðurhúsaáhrifum, er koldíoxíð í andrúmslofti þótt ýmis önnur efni komi þar einnig við sögu. Ef fram heldur sem horfir mun koldíoxíð í andrúmslofti tvöfaldast á næstu öld. Nú er því eðlilega lögð mest áhersla á að draga úr koldíoxíðmengun í andrúmslofti. Nefnd, sem umhverfisráðherra skipaði í janúar 1991 til að kanna útstreymi koldíoxíðs á Íslandi, skilaði skýrslu í maí 1992. Eins og segir í skýrslunni er með henni reynt að skapa grundvöll fyrir stefnumótun á þessu sviði hér á landi. Í skýrslunni kemur m.a. fram að hlutdeild flúorkolefna í gróðurhúsaáhrifum hér á landi er óvenju mikil miðað við önnur lönd. Útstreymi koldíoxíðs hér á landi (2,4 tonn á íbúa á ári) er sambærileg við útstreymið á Norðurlöndum (1,9--3 tonn á íbúa) og í ýmsum iðnríkjum, t.d. Bretlandi sem oftast hefur verið talið nokkuð mengað er útstreymi koldíoxíðs (2,7 tonn á íbúa) og Japan (2,2 tonn á íbúa). Hlutfallslega stór fiskveiðifloti Íslendinga vegur þar þungt. Áætlað er að vistkerfi jarðar geti að skaðlausu tekið við um 0,5 tonnum koldíoxíðs á íbúa á ári.
    Á þessum tölum sést að við leggjum mjög mikið til ef miðað er við hvern íbúa. Við höfum oftast verið að miða við að við búum í það stóru landi að hér hafi verið tiltölulega lítil koldíoxíðmengun miðað við það stóra landflæmi sem við búum á og oft þegar verið er að tala um þessi mál þá hefur verið eingöngu miðað við þá koldíoxíðmengun sem orsakast af virkni á landi en ekki tekið tillit til þess að stór fiskveiðifloti Íslendinga vegur mjög þungt í þessu sambandi eins og ég sagði áðan.
    Í skýrslunni sem umhvrn. lét gera er einnig lagt mat á útstreymi annarra mengandi lofttegunda hér á landi. Það er fyllsta ástæða til að taka þetta vandamál föstum tökum og gera allt sem í okkar valdi stendur til að minnka og koma í veg fyrir mengun og frekari eyðileggingu. Jafnframt því ber okkur eftir því sem frekast er unnt að bæta fyrir þá eyðileggingu sem þegar er orðin.
    Stærstu iðnríki heims, nema Bandaríkin, hafa samþykkt að stefna að því að koldíoxíðútstreymi verði ekki meira árið 2000 en það var árið 1990, sem fyrsta skref til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Þetta er auðvitað gott fyrsta skref til að vinna gegn loftlagsbreytingum og er auðvitað mjög mikilvægt en því miður verður að segjast að þó þetta séu góð markmið þá eru þau alls ekki nægjanleg og það sem er kannski enn þá verra er að það lítur út fyrir að flestum þeirra ríkja sem þarna hafa sett fram þetta stefnumið að takist ekki að framfylgja þeim. Í því sambandi get ég minnt á að Evrópubandalagið var með stefnumótun á þessu sviði en það hefur því miður ekki gengið eins vel eins og flestir vonuðu og núna hafa Danir, sem eru í forsvari fyrir Evrópubandalaginu þessa stundina, eru formenn þar, lagt höfuðáherslu á að reyna að þrýsta á að tekið verði sérstaklega á þessu máli, þ.e. koldíoxíðútstreyminu. En þeir hafa því miður ekki enn þá haft árangur sem erfiði.
    Mikil umræða á sér víða stað um sérstakt gjald á koldíoxíðútblástur til að draga úr mengun og hafa sum lönd þegar tekið upp slíkt gjald. Í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð hefur verið lagt sérstakt umhverfisgjald á olíu til upphitunar. Í Finnlandi er gjaldið 21 finnskt mark á rúmmetra. Í Noregi er lagt á slíkt gjald eftir brennisteinsinnihaldi olíunnar og sérstakur koldíoxíðskattur sem er 300 norskar krónur á rúmmetra. Svíþjóð er einnig með sérstakan brennisteinsskatt á olíu sem er 27 sænskar krónur á rúmmetra fyrir hvern hundraðshluta brennisteinsinnihalds, sem og koldíoxíðskatt en hann er 720 sænskar krónur á rúmmetra. Þetta kemur fram í ,,Energi och miljö i Norden``, skýrslu sem unnin var á vegum norrænu ráðherranefndarinnar.
    En það er ekki nóg að setja slíkt gjald á t.d. koldíoxíð. Það verður að vinna markvisst að því að draga úr útstreymi. Markmiðið með því að setja á gjald er ekki bara að auka peningana í kassann heldur verður að nota gjaldið í þágu umhverfismála og í því sambandi t.d. að hvetja fólk til að draga úr koldíoxíðmengun. Og ég get í þessu sambandi sagt það hér að þegar ég keypti mér nýjan bíl fyrir nokkuð mörgum árum síðan þá hélt ég að það væri mjög auðvelt fyrir mig að fá svokallaðan hvarfakút á bílinn til að minnka koldíoxíðmengun en það var nú ekki eins auðvelt og ég hélt því bæði kostaði bíllinn verulega mikið meira vegna þess að það var nauðsynlegt að setja þennan mengunarvarnaútbúnað í erlendis og þar af leiðandi hækkaði bíllinn í innkaupsverði og þar með varð mjög hár tollur lagður á allan þennan útbúnað. Það var nú kannski ekki aðalatriðið heldur var það tiltölulega erfitt að fá þennan útbúnað á þessum tíma og endaði með því að ég gafst upp á að standa í þessu þar sem það hefði kostað svo mikið vesen og tafir en ég vona að og allir vita reyndar að þetta er komið í gott lag núna. Þetta er dæmi um að það er ekki nóg að setja gjald á, það verður að auðvelda fólki að draga úr menguninni.

    Víða hefur verið sett sérstakt umhverfisgjald á starfsemi sem veldur annarri mengun. Slíkt gjald dregur úr notkun mengandi efna og í því felst hvatning til að önnur efni, sem ekki eru eins mengandi, séu notuð í staðinn. Einnig er lagt gjald á mengandi efni til að kosta rannsóknir á efnum sem geta komið í staðinn fyrir hin mengandi efni. Í Danmörku var lagt gjald á notkun klórflúorkolefna og halóna 1. janúar 1989, 30 danskar krónur á kg, og var áætlað að árið 1990 innheimtust 80 millj. danskra króna sem verja átti til umhverfismála. Þetta varð til þess að önnur efni eru í sjónmáli sem hægt er að nota í staðinn. Ég tel því mjög mikilvægt að hægt sé að fá fjármagn til að þróa nýja tækni og finna upp ný efni.
    Í Svíþjóð er einnig lagt umhverfisgjald á ýmis hættuleg efni, m.a. ósoneyðandi efni. Í ljósi þess hve klórflúorkolefni (CFC) og vetnisklórflúorkolefni (HCFC) eru hættuleg umhverfinu fól sænska ríkisstjórnin Umhverfismálastofnun ríkisins (Statens Naturvårdsverk) að koma með tillögur um hvernig hraða megi enn frekar að hætt verði notkun þessara efna en áður var gert ráð fyrir. Þá er ég að tala um enn frekar en þeir alþjóðasáttmálar, sem Svíar voru aðilar að og sem við erum reyndar aðilar að líka, lögðu þeim á herðar. Þeir töldu að það væri svo mikilvægt að koma í veg fyrir notkun þessara efna að þeir ákváðu að frá og með árinu 1995 yrði sett gjald, 300 kr. sænskar á notkun HCFC, þ.e. vetnisklórflúorkolefna, í kælikerfum og 600 kr. á klórflúorkolefni. Þarna eru þeir því að leggja verulega mikið gjald á fyrst og fremst til þess að reyna að koma algerlega í veg fyrir að þessi efni séu notuð.
    Við sem flytjum þessa tillögu teljum að það sé eðlilegt að taka upp hér á landi umhverfisgjald með hliðsjón af því sem er annars staðar til að hvetja menn til að draga úr og hætta að nota þessi hættulegu efni en einnig til að hvetja fólk til að setja upp mengunarvarnabúnað. Þá lækkar auðvitað gjaldið og vonandi hverfur algerlega ef mengunin væri komin í algert lágmark. Það fylgir því nefnilega oft verulegur kostnaður að setja upp mengunarvarnabúnað og þess vegna er eðlilegt að þeir sem betur standa sig í þessum efnum fái af því fjárhagslegan ávinning. Það væri sem sagt hagur allra að heildarinnheimta umhverfisgjaldsins minnkaði með tímanum og auðvitað sem fyrst.
    Fé sem inn kemur ætti hins vegar einungis að nota í þágu umhverfismála en ekki gera það að almennum tekjustofni fyrir ríkissjóð og sveitarfélög og ég legg verulega áherslu á þetta að með þessari tillögu er ekki verið að tala um almenna skattheimtu eða að það eigi að koma í staðinn fyrir annað heldur að það fé sem komi inn vegna umhverfisgjalda verði eingöngu notað í þágu umhverfismála.
    Það er verk að vinna hér á landi ef Íslendingar ætla sér að standa við yfirlýsingar um að þjóðin eigi alltaf að vera í fremstu röð að því er varðar umhverfisvernd. Íslendingar hafa skrifað undir ýmsar alþjóðasamþykktir og yfirlýsingar í umhverfismálum, m.a. á umhverfisráðstefnunni í Ríó og liggur fyrir Alþingi núna að samþykkja m.a. einn af þeim sáttmálum sem þar voru samþykktir. Það verður að halda vel á málum til að unnt verði að standa við þær skuldbindingar sem þegar hefur verið gengist undir. Við eigum að setja markið hátt og vera í forustu í þessum málum en bíða ekki eftir að aðrir hafi frumkvæði eða knýi okkur til aðgerða.
    Eðlilegt er að umhverfisráðuneytinu verði falið að vinna að því verkefni sem í þessari tillögu felst í samráði við fjmrn. að sjálfsögðu þegar til lengri tíma er litið og leggja hið fyrsta fyrir Alþingi tillögur um umhverfisgjald sem hafi það að markmiði að efla umhverfisvernd og draga úr mengun.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til síðari umr. og umhvn.