Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 14:56:04 (7660)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Sú tillaga til þál. sem hér er flutt er hið athyglisverðasta mál og ég fagna framkomu þess. Ég tel að hér sé verið að taka á þætti sem að vísu hefur verið ræddur hér á Alþingi áður en ekki komið fram í þeim búningi sem hér liggur fyrir. Það er því lofsvert framtak af hv. þm. frummælanda sem er 1. flm. málsins að koma því á framfæri með þeirri skýru greinargerð sem fylgir þar sem rakin eru ýmis dæmi um þróun mála á þessu sviði.
    Ég tel að það sé mjög mikið verk óunnið hjá okkur enda raunar tæpast af stað farið í sambandi við að reyna að koma á umhverfisbótum með fjárhagslegri stýringu af þeim toga sem hér er vísað til. Vafalaust verður það veikur vísir til að byrja með en sem getur ef vel tekst til orðið mjög þýðingarmikið stjórntæki til umhverfisbóta og til að draga úr þeirri háskalegu mengun sem er alþjóðlegt fyrirbæri og gerist hér á landi í allt of miklum mæli. Mengun sem mun verða til þess að gera jörðina óbyggilega á ekki mjög löngum tíma nema að takist að koma böndum á hana. Ég tel vegna þeirra orðaskipta sem hér fóru fram rétt að nefna það að hér sé um að ræða stjórntæki í umhverfismálum en ekki skatta af þeim toga sem innheimtir eru til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð og megi alls ekki blanda þeim málum saman. Það kom fram tillaga fyrr á þinginu undir nafninu umhverfisskattar þar sem stefnt var að því að slík skattlagning kæmi í staðinn fyrir almenna skattlagningu til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það er auðvitað af allt öðrum toga. Það mál er til sér meðferðar í efnahagsnefnd þingsins að mér skilst og ekkert á móti því að sjálfsögðu að slíkar hugmyndir komi fram og séu athugaðar. Það er allt annað mál heldur en það sem hér er lagt fyrir og allt annar búningur sem fylgir þessari tillögu sem hér er rædd.
    Ég ætla ekki að fara langt út í bakgrunn þessara mála, það hef ég gert oft í umræðu í þinginu. Ég vil þó minna á það að við Íslendingar erum illa staddir að því er varðar t.d. mengun koltvísýrings sem veldur eða talið er að geti valdið hinum háskalegu gróðurhúsaáhrifum. Þar erum við engir eftirbátar hvað snertir meðaltal á íbúa miðað við mörg stærri ríki og þurfum sannarlega að taka okkur á. Þar er samgönguþátturinn stór liður þótt fleira komi þar til. Við þurfum því að gefa þessum málum gaum út frá víðtæku alþjóðlegu samhengi. Á alþjóðavettvangi eigum við líka að stuðla að því að til ráðstafana verði gripið til að forða þeim voða sem við blasir. Ég tel ástæðu til að nefna það hér að við þeim vanda verður ekki brugðist nema að sjónarmið jafnaðar hljóti allt aðrar undirtektir í alþjóðlegu samhengi en gerst hefur og heldur en stefnt er að í sambandi við efnahagsstjórn í þeim hluta heimsins sem iðnvæddur er og þar sem ýmis ríki úr hinum svonefnda þriðja heimi reyna nú að feta í fótsporin og hafa lítið lært. Fyrir tveimur dögum síðan tæpum var til umræðu tillaga sem varðaði samskipti okkar við það stóra ríki Kína sem telur um 1.200 millj. íbúa. Þar var dregin upp mynd af þeirri þróun sem þar er að gerast í efnahagslegu tilliti, hömlulaus iðnvæðing með gífulegri mengun sem byggist á orkunotkun frá kolum í þessu stóra ríki sem mun hafa í för með sér ef eftir gengur sú stefna sem þar er uppi hinar háskalegustu afleiðingar í umhverfismálum og mér sýnist að Kínverjar því miður með þeirri stefnu sem þar er innleidd, sem menn hafa kannski ekki út af fyrir sig mikil efni á að gagnrýna, það að ríki sæki fram til svokallaðra efnahagslegra framfara til að búa þegnum sínum betri lífskjör á þann mælikvarða sem algengastur er nú um stundir, þá blasir það við til hvers ófarnaðar slíkt mundi leiða. Mér sýnist að þeir þar séu að feta í fótspor Sovétríkjanna sálugu undir forustu Jósefs Stalíns á sínum tíma. Eini munurinn er sá að þeir kalla til erlent fjármagn að kjötkötlunum til að standa að þessari iðnvæðingu.
    Það er því víða sem óvænlega horfir eins og stefnt er. Hér á dagskrá þessa þings er mikið rætt um Evrópskt efnahagssvæði og m.a. er það á dagskrá í dag. Þar er verið að framfylgja efnahagsstefnu sem magnar stórlega þann vanda sem við er að fást í umhverfismálum og mun auka á hann samkvæmt áliti Evrópubandalagsins og aðila sem til voru kvaddir til að líta á mál í því samhengi. Þetta er reyndar einkenni á efnahagsstarfsemi í hinum iðnvædda hluta heimsins þó menn séu þar að gera smá andlitssnyrtingar með því að reyna að taka upp skárri tækni heldur en beitt hefur verið og draga úr mengun. En vegna aukinna umsvifa og aukinnar orkunotkunar þá er samt nettóniðurstaðan sú að vandinn fer stórlega vaxandi. Það er því alveg ljóst að ekkert annað en gjörbreytt efnahagsstefna er það sem til verður að koma ef við ætlum börnum okkar lífvænleg skilyrði á þessari jörð. Sú þáltill. sem hér er flutt er lóð réttu megin á vogarskálina og ég ætla að vona að í kjölfar þessarar tillögu takist okkur að bæta stöðuna hér á Íslandi að því er varðar umhverfismál og mengunarvarnir og það megi verða vísir að öðru og meira sem til þarf að koma þó okkar lóð sé ekki mjög þungt á mælikvarða heimsbyggðar.