Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 15:04:40 (7662)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna M. Mathiesen fyrir að nefna þennan þátt hér. Ég tel út af fyrir sig að tillagan í því formi sem hún liggur hér fyrir, þ.e. að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi tillögu um umhverfisgjald, það geta menn gert og undirbúið. Það fer síðan eftir því hvort Íslendingar verða svo ólánsamir að lenda inn í Evrópsku efnahagssvæði hvort eitthvað verður komist áfram með góð mál af þessum toga á sviði umhverfismála, það er nú málið. Evrópskt efnahagssvæði gengur út frá því að framleiðsla á vörum, vöruframleiðsla, efnahagsleg umsvif hafi forgang umfram umhverfisbætur. Það megi ekki koma við neinum hindrunum gegn hinu frjálsa vöruflæði inn á svæðinu sem mismuni aðilum og hv. þm. getur lesið jafnvel úr því hvaða áhrif það muni hafa á frumkvæði þjóða í umhverfismálum. Það er þetta sem gagnrýnt er hart af þeim sem ganga með opin augun að því er varðar umhverfismálin. Umhverfissamtök á Norðurlöndum og um Evrópu alla í rauninni vara mjög sterklega við Evrópska efnahagssvæðinu út frá umhverfismarkmiðum eða sjónarmiðum umhverfisverndar. Og er hægt að rifja upp fjölmargar ályktanir þar að lútandi. Því er þarflegt að benda einmitt á þetta og við skulum vona að Alþingi beri gæfu til þess að lenda ekki í þessu feni sem Evrópskt efnahagssvæði er einnig með tilliti til umhverfismála.