Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 15:34:00 (7669)

     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Herra forseti. Það er auðvitað hárrétt hjá 1. flm. að það skiptir ekki máli hvað við látum þetta heita. Það er eðlið sem skiptir mestu máli og það skiptir ekki máli hver það var sem fyrstur uppgötvaði þessi hugsanlega hagrænu stjórntæki heldur hvernig við beitum þeim. Ég get þó hins vegar ekki losnað við þá tilfinningu þegar hv. 1. flm. talar um þessi gjöld að flm. finnist að þau geti verið algerlega einangruð frá öðrum þeim álögum sem við leggjum á fyrirtæki. Ég held að við verðum alltaf í öllu falli að skoða það mjög vel og vandlega hvað við erum að leggja miklar byrðar á þessi fyrirtæki, hvort þau þola þær byrðar og ef þau þola þær ekki, hvort það er þá ekki hægt að finna einhverja aðra leið til þess að ná settu markmiði eða lækka einhverjar aðrar álögur á móti. Mér væri alveg ljúft að ræða þessi mál á þeim grunni að umhverfisgjöld væru viðbótarálögur en umhverfisskattar væru, þegar þeir kæmu, án annarrar almennrar skattheimtu. Ég geri mér hins vegar ekki þá grillu að um hverfisskattar geti komið í stað allra þeirra skatta sem nefndir eru í tillögu til þál. um umhverfisskatta, þ.e. tekjuskatta, eignarskatta, útsvars og aðstöðugjalds. Hugsanlega gætu þeir komið í staðinn fyrir einhverja þeirra eða brot úr einhverum þeirra eða jafnvel einhverra annarra skatta, t.d. bifreiðaskatta sem við í daglegu tali köllum bifreiðagjöld.
    Hv. 1. flm. var að velta því fyrir sér hvað ég meinti þegar ég væri að tala um frjálsan markað og

las upp úr skýrslu Þjóðhagsstofnunar hvort ég meinti það sem þar stæði. Það sem ég meinti kemur miklu betur fram í greinargerðinni með tillögunni um umhverfisskatt þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Umhverfisgjald hvetti menn ekki aðeins til þess að draga úr eða hætta notkun hættulegra efna`` o.s.frv. og á öðrum stað: ,,Þeir sem betur standa sig í þeim efnum fái af því fjárhagslegan ávinning.``
    Það er þetta sem ég var að meina, hv. þm.