Íslenskt ríkisfang vegna EES

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 15:39:45 (7672)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. vegna frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum er varða íslenskt ríkisfang vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
    Nefndin kallaði til menn úr viðskrn. og fékk umsagnir frá nokkrum aðilum sem taldir eru upp í nál. og þar eru lagðar til smávægilegar breytingar á frumvarpstextanum. Efni frv. fjallar um það að taka inn í ákvæði laga um verslunaratvinnu og í iðnaðarlög að ríkisborgarar frá löndum hins Evrópsks efnahagssvæðis annarra en Íslands séu undanþegnir skilyrði um íslenskt ríkisfang samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð.
    Brtt. nefndarinnar ganga út á það að í 1. gr. sé sleppt tilvísunum í tiltekin skjöl frá Evrópubandalaginu en ekki lögð til nein efnisbreyting. Síðan er líka gerð tillaga um orðalagsbreytingu á 1. gr. Með sama hætti er gert ráð fyrir orðalagsbreytingu á 2. gr. en það er ekki nein efnisleg breyting.
    Frv. er stutt og skýrt og snýst um það að uppfylla ákvæði samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði að því er varðar ríkisfang og skilyrði um ríkisfang í lögum um verslunaratvinnu og iðnaðarlög. Þessar breytingar munu væntanlega ekki hafa stórkostleg áhrif hér á landi. Það hefur nú ekki verið vitað af því að það væri mikil ásókn hjá ríkisborgurum annarra ríkja í það að setja hér upp iðnrekstur eða fara að stunda hér verslunaratvinnu sem þessi skilyrði þarf til og ég reikna ekki með því að þessar breytingar muni hafa veruleg áhrif á okkar atvinnulíf. Það má geta þess að umsagnir sem koma frá þeim samtökum og aðilum sem getið er í nál. eru í þá átt að þetta frv. verði samþykkt.