Íslenskt ríkisfang vegna EES

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 15:44:24 (7673)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. Það er býsna langt um liðið síðan nefndin fjallaði um þetta mál. Ef ég man rétt, þá var það fyrir áramót og þetta mál svona datt upp fyrir í jólaönnunum hér á þingi, en hér er auðvitað á ferðinni eitt af hinum svokölluðu EES-málum og þetta mál er bein afleiðing af þeim samningi og snertir 1 / 4 hluta hins svokallaða fjórfrelsis, ( HG: Hvaða samningur er það?) þ.e. það sem snýr að frjálsum flutningi vinnuafls innan svæðisins, samningur ef hann verður að veruleika svo að ég svari nú kalli þingmannsins úti í sal. En nál. er svohljóðandi:
    ,,Frv. felur í sér að gerðar eru breytingar á lögum um verslunaratvinnu og á iðnaðarlögum þannig að ríkisborgurum á Evrópska efnahagssvæðinu verði heimilt að stunda hér þau störf sem lögin ná til.
    Þessar lagabreytingar eru afleiðingar samningsins um EES og tengjast þeim ákvæðum hans sem fjalla um frjálsan flutning vinnuafls innan svæðisins.
    Engin könnun hefur verið gerð á hugsanlegum áhrifum þessara lagabreytinga á viðkomandi starfsgreinar og ýmsar spurningar vakna varðandi mismunandi menntun og kröfur sem gerðar eru til þeirra sem starfa að verslun og iðnaði.
    Minni hlutinn telur rétt að ríkisstjórnin beri ábyrgð á þessu máli og mun því sitja hjá við afgreiðslu þess.``
    Virðulegi forseti. Þetta er ekki stórt mál og ég efast um að það snerti mjög marga þó að auðvitað kunni svo að fara að fólk leiti hingað eftir atvinnu, bæði í verslun og iðnaði. Eins og ég nefndi áður og fram kemur í nál. þá eru þessar lagabreytingar auðvitað nauðsynlegar verði samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið að veruleika.
    Þá má auðvitað varpa fram spurningum eins og við gerðum, minni hlutinn í menntmn., hvort ekki sé ástæða til þess að opna fyrir fólki frá fleiri þjóðum ef vilji er til þess á annað borð að opna íslenskan vinnumarkað. Ég er nú svo sem ekki viss um að menn séu mjög spenntir fyrir því að opna hér allt upp á gátt, en það er auðvitað vont og er svo sem einkenni á öllu þessu EES-máli eða öllum þeim langa ormi að menn hafa lítið reynt að gera sér grein fyrir afleiðingum sem hinar ýmsu lagabreytingar hafa. Það gildir einnig um þetta mál að hér er auðvitað verið að samþykkja eitthvað eða verið að leggja til breytingar sem enginn veit hvaða áhrif muni hafa. Það kom fram á fundi nefndarinnar að þeir sem málið snertir beint, iðnaðarmenn og fleiri, höfðu nú ekki miklar áhyggjur af þessu, kannski óþarflega litlar áhyggjur, en okkar niðurstaða er sú að það sé rétt að ríkisstjórnarflokkarnir beri ábyrgð á þessum breytingum eins og reyndar samningnum í heild. Það er ríkisstjórnin sem leitt hefur þetta mál til lykta ef það er þá til lykta leitt og það er rétt að þeir sem samþykkja samninginn beri þá ábyrgðina á þeim ákvörðunum sem þarf að taka í samhengi við samninginn.