Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 17:50:21 (7678)

     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Við erum komin að lokasprettinum í umfjöllun um EES-samninginn, a.m.k. í bili því að eins og öllum er ljóst verða eilífar samningaviðræður í gangi varðandi ýmsa þætti þessa samnings. Það er því langt frá því að við séum búin að fjalla um málið þó að þessi partur af því verði e.t.v. afgreiddur á næstu dögum.
    Frá því að EES-málið var samþykkt, þ.e. I. kaflinn, þá hefur komið æ betur í ljós hve rangt það var og er að Ísland gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Það er langt frá því að neitt hafi skýrst betur eða eitthvað komið í ljós af þeim miklu ávinningum sem talað var um sérstaklega af hálfu utanrrh. og þeim sem lögðu fram þennan samning. Fjárhagslegur ávinningur er langtum minni, ef hann er þá nokkur, af þessum samningi og allir aðrir þættir hans eru hið versta mál eins og kannski hefur komið betur í ljós. Nú eru menn t.d. að berjast í landbúnaðarkaflanum, þ.e. bókun 3, og komið hefur í ljós að því sem haldið var fram, m.a. af þeirri sem hér stendur og reyndar mörgum fleirum, að þeir fyrirvarar sem þar voru koma Íslendingum ekki að gagni í þá veru sem talað var um. T.d. var talað um að hægt væri að leggja jöfnunargjald og ýmislegt fleira á innfluttar, unnar landbúnaðarvörur. Það var ekkert hlustað á það sem hér var sagt, þau varnaðarorð sem hér voru borin fram. Af hálfu t.d. utanrrh. og landbrh. og viðskrh. var einungis talað um að þetta væri ekkert mál, en það er auðvitað ekki rétt. Núna eru menn að hamast við það kófsveittir að reyna að negla fyrir þessar rifur sem þeir tóku þátt í að búa til fyrr í vetur. Það er eiginlega ekki hægt annað en að vorkenna þeim sem taka þátt í svona vitleysu.
    Það er auðvitað ömurlegt til þess að vita að menn hafi kannski með opin augu gengið í þessa gryfju og haldið að þeir gætu kraflað sig upp úr henni aftur, en ég held að það verði mjög erfitt. Það á örugglega eftir að koma ýmislegt fleira í ljós varðandi þennan samning. Það þýðir ekkert að gera samninga eins og t.d. þennan EES-samning, sem er auðvitað einn stærsti samningur sem Íslendingar hafa gert um langt árabil, og reyna svo að koma á eftir og finna leiðir til að þurfa ekki að standa við hann, en það eru menn byrjaðir að gera nú þegar. Það er auðvitað miklu betra að hafna þessum gjörningi eins og ég teldi miklu eðlilegra og fara í tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um okkar hagsmunamál og vera ekki að þessu brölti.
    Auðvitað er eðlilegt að reyna eftir megni að minnka skaðann af EES ef það verður þá að veruleika, en það er miklu betra að vísa þessum samningi frá meðan enn er tími til þess.
    Hér hefur verið rakið að allsendis óvíst er að EES verði að veruleika. Þess vegna er ég alveg undrandi á því að hæstv. utanrrh. hafi leyft sér að skrifa undir landbúnaðarpakka samningsins án þess að hafa nokkurt samráð við Alþingi Íslendinga. Þann 15. apríl átti landbúnaðarpakki samningsins að taka gildi að því er Ísland varðar og reyndar öll EFTA-ríkin gerðu það. Utanrrh. tekur þá ákvörðun einhliða að hluti þessa EES-samnings taki gildi án þess að ljóst sé að þessi samningur verði að veruleika. Hann var meira að segja búinn að segja sjálfur að það væri allsendis óvíst. Ég botna ekkert í því að meiri hluti Alþingis skuli láta þetta yfir sig ganga. Hér hefur verið talað um að nú sé bara um tæknilegar breytingar að ræða á þessum samningi. Ég er því alls ekki sammála að þetta séu

eingöngu tæknilegar breytingar. Ég er búin að nefna einn þáttinn sem tengist þessu, þ.e. landbúnaðarþáttinn, en einnig er um að ræða að Íslendingar þurfi að bera meiri kostnað af þessum samningi þrátt fyrir miklar heitstrengingar þess efnis í upphafi að auðvitað mundu hin EFTA-ríkin alls ekki greiða hlut Sviss í þessu máli. Það þótti hrein fjarstæða og íslenski utanrrh. gekk fram í því máli bæði hér og annars staðar að auðvitað kæmi það ekki til greina. En hver var niðurstaðan? Auðvitað það sem EB vildi og kemur þar vel í ljós hver ræður ferðinni í þessu máli. Þetta er bara forsmekkurinn af því sem koma skal, auðvitað er það EB sem ræður öllu. Það ræður öllu að því er varðar lagasetningu á gildissviði samningsins og er tómt mál að tala um að það skipti einhverju máli þótt Íslendingar geti hugsanlega komið með puttana einhvers staðar þar inn í á einhverju löngu ferli varðandi lagasetningu. Það er auðvitað ekki nokkur einasta hemja að Alþingi skuli láta það yfir sig ganga að EB eigi að hafa allt frumkvæði á lagasetningu á gildissviði samningsins hér eftir.
    Það eru fjölmargir þættir sem hægt væri að taka hér til og benda á hversu óhagstæðir eru Íslendingum. Ég hef oft gert það í þessum ræðustól og væri hægt að nota langan tíma til þess og veitti víst ekki af að tíunda það fyrir a.m.k. sumum. Það er auðvitað eins og fyrri daginn að það fólk sem helst þyrfti að hlusta á þau rök sem eru gegn því að Íslendingar gerist aðilar að EES, situr auðvitað ekki í salnum, það hlustar ekki á það sem hér er fram borið. Það hefði verið ágætt fyrir ýmsa sem eru að reyna, eins og ég sagði áðan, kófsveittir að stinga upp í þessi göt, að vera hér og hlusta á þau varnaðarorð sem þingmenn hafa varðandi þennan samning í staðinn fyrir að reyna einhvers staðar að negla upp í götin úti í bæ eða í öðrum sölum Alþingis.
    Það eru ekki bara einstaka þættir þessa samnings sem sýna hvað hann er óhagstæður heldur finnst mér skipta mestu máli sú stefnumörkun sem felst í samningnum. Sú stefnumörkun sem felst í því að peningarnir eru þar í aðalhlutverki. Það er raunverulega verið að skrifa upp að þeir stjórni öllu, þ.e. það er verið að skrifa upp á hina illræmdu frjálshyggju. Það á að opna öll landamæri fyrir peningum en í raun að loka þeim fyrir fólkinu. Sú hugmyndafræði og stefna sem liggur til grundvallar EB og þar af leiðandi EES er stefna sem ég get alls ekki aðhyllst. Það er einmitt þess vegna sem ég get ekki greitt þessum samningi atkvæði mitt og ætla að greiða atkvæði á móti honum, hef gert hingað til og mun gera það áfram.
    Ef við horfum á heiminn í heild þá lít ég svo á að myndun Evrópsks efnahagssvæðis sé mjög mikil öfugþróun í því sem ég vil sjá heiminn þróast í, þ.e. að ríkar þjóðir taki sig saman og myndi eins konar stórríki með meira eða að minna leyti sameiginlegri stjórn á mörgum sviðum og loki á aðrar þjóðir. Þær vilja auka viðskipti sín á milli, þessar ríku iðnaðarþjóðir, þetta gildir bæði um Evrópubandalagið og EES og það sama gerist í Ameríku og síðan í Japan. Auðvitað eru það peningarnir sem alltaf hafa verið undirrótin en núna tala allir hátt um það. Það er markaðskerfið sem á að ríkja, það eru peningarnir sem eiga að stjórna og síðan á að loka okkur af gagnvart fátækari ríkjunum. Það er nú þegar farið að bera mikið á þessu og margir kvarta t.d. varðandi Evrópubandalagið. Ríki bandalagsins eru að auka viðskipti sín á milli og raunverulega koma í veg fyrir viðskipti við önnur ríki. Það er frægt mál sem núna gengur og er umtalað, þó sérstaklega fyrr í vetur, hið svokallaða bananamál. Evrópubandalagið leggur höfuðáherslu á að ekki séu fluttir inn bananar utan svæðisins og vilja neyða, sérstaklega Austur-Þjóðverja eftir að Þýskaland sameinaðist, til þess að borða fyrst og fremst banana frá Frakklandi. Þeir vilja það helst ekki því þeir vilja borða aðra tegund af banönum en þar er ræktuð og hafa hingað til flutt inn banana bæði frá Mið-Ameríku og Afríku. Núna á að leggja toll á þá þannig að nánast verður útilokað fyrir þessar þjóðir að flytja inn banana í samkeppni við þessa EB-banana. Þetta er bara dæmi um hvernig þeirra stefna er, þ.e. að útiloka aðra frá þeirra mörkuðum sem kemur sér auðvitað mjög illa fyrir hinar fátækari þjóðir. Síðan er þetta kallað frelsi, frelsi í viðskiptum. En þetta frelsi nær auðvitað bara til þeirra en ekki út fyrir það. Þetta kalla ég mikla öfugþróun og hef verulegar áhyggjur af því að með þessu móti sé verið að etja ákveðnum svæðum hverju á móti öðru. Ég hef verulegar áhyggjur af því

að við tökum þátt í þessu ferli.
    Það er ekki bara þannig að ríkar þjóðir séu að hópa sig saman í viðskiptabandalag með sameiginlegt stjórnkerfi, miðstýrt kerfi sem er langt frá fólkinu og það á mjög erfitt með að nálgast, heldur er einnig verið að búa til kerfi sem hyglir þeim sem betur mega sín og lætur þá eiga sig sem minna mega sín, þá sem fátækari eru og því miður þá kemur þetta enn þá verr við konur heldur en karla. Það kemur auðvitað verr við alla þá sem ekki eru með mikla peninga milli handanna.
    Í ræðu minni þann 15. des. sl. fjallaði ég nokkuð ítarlega um þá neikvæðu þætti sem fylgja aðild að Evrópsku efnahagssvæði að því er varðaði konur sérstaklega. Ég ætla ekki að endurtaka það allt saman heldur vísa til þess sem ég sagði þá en mig langar þó aðeins að vitna í eitt atriði og benda á tiltölulega nýja könnun sem gerð hefur verið á stöðu kvenna í tengslum við Evrópusamrunann. Inga Persson, sem er prófessor í þjóðhagfræði við háskólann í Lundi í Svíþjóð, hefur nýlega birt rannsóknir sínar á þessu sviði. Ég ætla ekki að rekja nákvæmlega hvað felst í hennar niðurstöðum en í stuttu máli þá segir prófessorinn að Evrópustefnan og það sem henni fylgir, þ.e. að fyrirtæki, peningar og vinnuafl geti flust án hindrana yfir landamæri, muni hafa þau áhrif að laun láglaunakvenna muni lækka en laun þeirra kvenna sem hafa hærri laun muni hækka. Þetta getur þá komið sér vel fyrir menntaðar konur sem hafa há laun, þó það gildi ekki að þær hafi neitt sérstaklega há laun á Íslandi, þá munu þær kannski fá hærri laun en láglaunakonurnar munu fara verr út úr þessu. Þetta er hennar niðurstaða.
    Einnig segir hún, sem er merkilegt líka, að þótt þær konur sem hafi há laun fái eitthvað meira þá muni það ekki auka jafnréttið, þar sem karlarnir muni fá enn meira eins og venjulega. Launbilið mun aukast enn meira, segir prófessorinn, og að hennar mati þá mun það aukast enn meira en launabilið milli kvenna og karla, þ.e. bilið milli þeirra sem lág laun hafa og hinna með há laun muni aukast meira heldur en milli kvenna og karla.
    Það er ekki glæsilegt sem blasir við bæði konum og körlum ef ég tek þá sérstaklega þær konur sem hafa lægri launin.
    Þessu vildi ég bæta við það sem ég hafði áður sagt hvað þetta atriði varðar því þetta er alveg ný könnun sem þessi prófessor í Lundi birti fyrr í vetur. Ég hafði hana ekki undir höndum við fyrri umræðu þessa máls, en fannst eðlilegt að minnast aðeins á þetta því mér þóttu niðurstöðurnar hrikalegar.
    Ef litið er á málin frá því fyrr í vetur lítur það enn verr út en þá. Það er þá ekki síst að í janúar hafa sjálfsagt margir haldið að fljótlega kæmi fram frv. sem varðaði kaup á landi og auðlindirnar, svo sem orkulindir, vatn o.fl. sem því fylgir. Þá var talað um það og hefur reyndar verið talað um það í alllangan tíma að ekkert mál sé að setja girðingar í lög að því er þetta varðar og alltaf fullyrti hæstv. utanrrh. og reyndar fleiri ráðherrar og fleiri þingmenn það. Svo kom auðvitað fljótlega í ljós að það var ekki alveg eins auðvelt og talað var um en það átti samt að gera það. Hæstv. iðnrh. taldi að það væri minnsta mál að setja eitthvað varðandi orkulindirnar og auðlindir svo og heitt vatn og fleira. Ekkert mál. En auðvitað hefur ekkert komið fram af þessum málum og menn eru algjörlega hættir að tala um þetta ofan í kaupið. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt. Málið er raunverulega enn verr statt heldur en fyrr í vetur, a.m.k. að því er varðar þá sem töldu að það væri hægt að setja einhverjar girðingar í lög sem halda mundu.
    En það er auðvitað hægt að snúa við og enn er hægt að hafna þessum samningi.
    Á þskj. 1060 er frávísunartillaga frá þingflokksformönnum stjórnarandstöðuflokkanna sem ég styð að sjálfsögðu. Best hefði auðvitað verið að vísa málinu endanlega frá en með því að vísa því til ríkisstjórnarinnar ættu fleiri að geta sameinast um það því bæði stjórn og stjórnarandstaða, eða a.m.k. stjórnarliðar gætu treyst ríkisstjórninni til að fara með málið. Ég tel mjög mikilvæga síðastu setninguna sem kemur fram í frávísunartillögunni, þ.e. að samningurinn verði ekki lagður á ný fyrir Alþingi til staðfestingar nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta þykir mér mjög mikilvægt atriði og vona að þessi tillaga verði samþykkt. En eins og ég segi, auðvitað hefði verið best að vísa þessu máli endanlega frá. Þetta er auðvitað leið í málinu því ég tel að það sé mikilvægast að þjóðin fái að segja álit sitt á þessu máli.
    Mér þykir í raun nöturlegt að við þurfum á þessum tímum, þegar við erum nýbúin að fagna 150 ára afmæli endurreisnar Alþingis og á næsta ári verða 50 ár frá stofnun lýðveldisins, að vera að fjalla um það að færa gífurlegt vald á mikilvægum sviðum út úr landinu. Ég el enn þá von í brjósti að við getum hafnað þessu frv. og þar með hafnað því að Ísland gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði.