Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:07:13 (7683)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg á mörkunum að ég hafi geð í mér til þess að koma

upp í þessari umræðu svo ósátt er ég við það að við skulum hér á Alþingi vera enn og aftur að fjalla um EES-málin án þess að hafa haft tök á því að spyrja þjóðina. Í þetta sinn erum við að fjalla um lokaafgreiðslu ef ríkisstjórninni verður að óskum sínum. Það sem á eftir kemur er vissulega mikið, en hér er samt úrslitaákvörðunin, lokahnúturinn hnýttur á þennan pakka sem við vitum ekkert um hvert innihald verður að ári, eftir tvö ár, eftir þrjú ár. Þetta er stórt mál. Um það eru bæði þing og þjóð sammála. Samt sem áður hefur verið amast við því að málið fékk mikla umræðu á Alþingi í vetur, þrátt fyrir þá staðreynd að alla vega í orði kveðnu er ekki búist við því að við göngum lengra til Evrópusamrunans. Þar af leiðandi er þetta lokaumfjöllun okkar ef stjórnvöld segja satt í þeim efnum.
    Í öðrum löndum háttar svo til að þar er lokaumfjöllunin í rauninni fram undan þar sem önnur EFTA-ríki hafa sótt um aðild að EB, þ.e. stjórnvöld þar. Þessi lokaumræða er þar eftir. Ég ætla ekki að fara mikið efnislega í þetta mál, slík efnisumræða sem varð hér í vetur, en ég vil benda á það að við höfum hér breyttar aðstæður nú. Jafnvel utanrrh. viðurkennir að dragast muni að EES-samningurinn taki gildi, ef hann tekur gildi, hvað svo sem hann óskar, þráir og vonar. Þessar breyttu aðstæður ættum við að sjálfsögðu að nota og nýta það svigrúm sem er. Þessar beyttu aðstæður eru líka þær að síðan í vetur hefur liðið tími og hafi það komið glöggt fram í vetur að ekki var fýsilegur kostur að ganga til þessa samstarfs, Evrópusamruna, þá er það enn augljósara nú. Ég held að það séu afskaplega fáir sem gera sér ekki grein fyrir því að Evrópuglýjan er farin að tapa mjög ljóma sínum, jafnvel í augum þeirra sem sáu þar mestan glansinn.
    Þessar breyttu aðstæður hafa verið mjög til umfjöllunar í tímaritum. Gert var ráð fyrir því að um síðustu áramót rynni evrópskt draumaríki renna upp, innri markaðurinn, en fjölmörg tímarit og dagblöð hafa fjallað um það hvað blasir við og hversu mjög vonir manna hafa brugðist. Ekki ætla ég að efast um heilindi þeirra sem sáu einlæglega þarna kost. Ég er ekki sammála. Ég deili ekki þeirra skoðunum, en ég virði það að menn hafi séð þarna ákveðin góðan valkost. Mér er það hins vegar óskiljanlegt að menn geti enn verið svo blindir. Ég held að það sé tímanna tákn hversu vaxandi umfjöllun er í fjölmiðlum um atvinnuleysið, um vonirnar sem brugðust í Evrópu. Með tilkomu innri markaðarins jókst atvinnuleysi en minnkaði ekki. Reyndar voru nú afskaplega margir sem bentu á að svo mundi verða, en ég held að í lengstu lög hafi menn neitað að horfast í augu við þann veruleika. Nú horfast menn í augu við þann veruleika. Menn eru farnir að spyrja í auknum mæli áleitinna spurninga eins og í hverra þágu er Evrópusamruninn, EES eða EB? Ég held að engum detti það í hug að þetta sé í þágu þeirra ríkja sem verið er að loka á með innflutningshömlum og tollmúrum. Heldur ekki að einhver reyni að halda því fram í fullri alvöru að þetta sé í þágu kvenna. Ég held að æ fleiri séu að gera sér það ljóst að þetta Evrópuríki er heldur ekki í þágu þeirra sem minna mega sín innan Evrópu og þar á ég ekki síst við atvinnuleysingjana, en atvinnuleysi á Evrópusvæðinu mælist nú um 10% og það er spáð að þar getum við fengið hrikalegri tölur. Í einstökum ríkjum blasa þessar hrikalegri tölur nú þegar við.
    Atvinnuleysið er mest meðal ungs fólks. Það er kannski nöturlegt að góðkunnur teiknari hjá dagblaði sem hefur nú lengst af verið tengt öðrum stjórnarflokkanna heilsaði árinu með skopteikningu þar sem íslensku atvinnuleysingjarnir 5.000 mættu 15 millj. atvinnuleysingja í Evrópu og það var sagt gleðilegt EES-ár. Auðvitað blasir þetta við. Við höfum að mörgu leyti blekkt unga fólkið á því að möguleikarnir væru svo miklir innan Evrópusamstarfsins. Vissulega eru alltaf miklir möguleikar í fjölþjóðasamstarfi en það er ljóst að flestir mikilvægustu samningar t.d. um samvinnu milli háskóla eru meira og minna óháðir því hvort við göngum til þessa samstarfs og á þetta hefur fyrrv. háskólarektor Sigmundur Guðbjarnason bent á og ég hef ekki séð það hrakið. Þetta er hreinlega ekki sæmandi og ég er afskaplega hrygg yfir því að við skulum ekki hafa náð því að benda á þetta, a.m.k. ekki þannig að virkaði vel.
    Ég vil líka benda á að viss deyfð eða vonleysi er í samfélaginu og ekki bara í umræðum um alþjóðamál. Fólk er vonlaust um að það geti haft nokkur áhrif á tilveru sína og

þetta vonleysi er því miður að mínu mati stjórnvaldstæki. Það að draga kjark úr fólki, það að gera fólk vonlaust um að hafa nokkur áhrif gefur valdhöfum svigrúm til þess að drottna og það er gert. Ég tel ekkert annað en valdbeitingu stjórnvalda að knýja fram afgreiðslu á ófullbúnu frv. eins og gert var í vetur, svo og fiskveiðisamningi Íslands og EB þegar ekkert lá á. Ég tel það ekkert nema valdbeitingu og ofríki gagnvart fólki að heimila ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki einu sinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekkert annað en sú valdbeiting sem stjórnvöld eru þráfaldlega að gera sig sek um og þau sem hér eru á landinu eru svo sannarlega ekki þau einu. Þetta er líka sama valdbeitingin og beitt er gegn verkalýðsfélögum þegar lög eru sett á verkföll og kjarasamninga. Þetta er sama valdbeitingin og ráðherra beitir er hann skipar einkavin annars ráðherra í stöðu þar sem ljóst er að ekki getur orðið friður um hann og þar sem sá maður hefur að margra mati ekkert erindi umfram það að þjóna vilja annarra sem eru í aðstöðu. Þetta er það sem fyrst og fremst rekur mig enn og aftur í ræðustól um þetta mál. Ég tel að óhjákvæmilega muni verða umræða áfram um Evrópumálefni og ég er afskaplega hrædd um að sú umræða verði í skugga þess að við getum ekkert gert vegna þess að búið er að draga okkur inn í ferli þar sem við getum ekki snúið aftur. Ef við lendum inni í þessu ferli munum við reyna að hafa áhrif. Vissulega óska ég þess að við munum geta það ef við lendum þar inni. En ég get ekki staðið hér og hræsnað og sagt að ég trúi því. Ég trúi því ekki en ég hef a.m.k. leyfi til þess að vona það að ef þetta verður það sem okkur verður boðið munum við gera það og ég geri ráð fyrir því að þar liggi enginn á liði sínu.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa hér lengra mál. Í mínum huga skiptir þetta einstaka mál okkur jafnvel enn meira en það karp sem við stöndum nú í varðandi fiskveiðistjórnunina og er það þó mjög stórt mál.
    Í kvöld hafði ég hugsað mér að vera á fundi úti á Hótel Sögu vegna þess að þar eru tvíhöfðar að funda með Reykvíkingum og nærsveitarmönnum og ég átti erfitt með að velja. En engu að síður gat ég ekki annað en valið það að vera hér og segja skoðun mína í þessum fáu orðum. Það er nefnilega þannig að kannski í því eina máli þar sem stjórn fiskveiða er, þar eru þó öflugar raddir. Þar virðist vera hægt að hafa áhrif, það virðist vera hægt að breyta einhverju. Þar er fólk ekki svona lamað og þar er þó a.m.k. eins og staðan er núna komið upp það að stjórnvöld hafast ekki að meðan ekki er komin sátt í þjóðfélaginu. En hvers vegna í ósköpunum er gefið lítið fyrir það þó ekki náist sátt í þessu máli í þjóðfélaginu? Ég tel ekki að sú sátt hafi orðið og ég tel að sú þögn sem er um málið núna sé vegna máttleysis fólks en óánægjan kraumar undir.