Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:22:33 (7685)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. beindi til mín spurningu. Spurningin var sú: Hvar eru stödd frumvörp iðnrh. sem gera ráð fyrir því að lýsa þjóðareign á orkulindum þjóðarinnar, þ.e. fallvötnum og jarðhita? Því er til að svara að þessi frumvörp hafa verið lögð fram í ríkisstjórn. Óskað var eftir því að setja upp starfshóp lögfræðinga til þess að fara vandlega ofan í saumana á þeim út frá eignarréttarlegum og stjórnarskrárlegum forsendum. Ég er reyndar ekki allveg fullviss um það á þessari stundu hvort þeim athugunum er lokið en ég geri fastlega ráð fyrir því að frumvörpin verði áfram til umfjöllunar í ríkisstjórn og þau verði lögð fram í upphafi þings næsta haust.
    Nú er hins vegar rétt að taka fram að ekki skiptir sköpum að því er varðar þetta mál af þeirri einföldu ástæðu að sú skipan sem nú er á varðandi nýtingu orkulinda og rekstur fyrirtækja til þess að nýta orkulindirnar sem er rekstur ríkis og sveitarfélaga brýtur á engan veginn í bága við EES-samninginn. Með öðrum orðum er ekkert í EES-samningunum sem knýr á um að breyta því. Þess vegna þurfti ekki að setja neina fyrirvara að því er varðar þá skipan sem við nú höfum þegar á þeim málum. EES-samningurinn knýr okkur ekki til breytinga. Núverandi skipan stenst EES-samninginn. Það kallar með öðrum orðum ekki á neinar breytingar.
    Hins vegar ef þessum orkuveitufyrirtækjum og orkunýtingarfyrirtækjum væri breytt í hlutafélög og hlutabréfin síðan seld á markaði hlytu að gilda um það sömu reglur, þ.e. um jafnan rétt til atvinnurekstrar og til hlutfjárkaupa á svæðinu. Það er þess vegna svo að ef menn vilja huga að slíkum breytingum og vilja koma í veg fyrir það að nokkur áhætta sé tekin að því er varðar hugsanlegt eignarhald erlendra aðila að orkulindunum sjálfum er sjálfsagt að afgreiða þau lagafrumvörp sem ég vék að áður sem leysa vandamálin einfaldlega með því að lýsa þessar orkulindir alþjóðareign sem reyndar hefur lengi verið leitað eftir, m.a. vegna þess að réttaróvissa er ríkjandi í landinu um hvar eru mörk einkaeignarréttar og almannaeignarréttar utan eignarhalds lögbýla á afréttum svo að ég nefni sem dæmi.
    Þá er þess að geta að við erum með tímabundna undanþágu að því er þessi mál varðar, þ.e. til ársins 1996 þannig að það er eins með þetta eins og hin svokölluðu girðingarfrumvörp sem menn hafa rætt áður að við höfum tíma til þess að ráða ráðum okkar um þetta og Alþingi þar með bæði að kanna slík frumvörp og taka afstöðu til slíkrar lagasetningar áður en á það reyndi að þessi tímabundna undanþága væri liðin.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja umræðuna með því að víkja eitthvað að þeim skoðunum sem hér hafa verið fram færðar. Þetta var einfaldlega spurning sem til mín var beint og ég hef svarað henni eftir bestu getu.