Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:34:23 (7688)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég gerði athugasemd við efni frávísunartillögunnar, eða þann hluta hennar sem vísar til þjóðaratkvæðagreiðslu, var ekki sú á hvaða forsendum tillögunni var hafnað í vetur. Það er heldur ekki nein ástæða sem getur gert tillögur óþinghæfar að þeim sé hafnað á einhverjum forsendum, heldur hitt að tillögunni var hafnað og samkvæmt þingsköpum á ekki að flytja á sama þingi tillögu um sama efni. Ég tel að þessi tillaga sé óþingtæk og forseti ætti að úrskurða að það sé ekki hægt að flytja hana af því að það er búið að hafna á þinginu í vetur að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það er þetta sem ég vakti máls á en ekki því á hvaða forsendum menn höfnuðu því, enda höfnuðu þeir því ekki á þeirri forsendu að það væri ekki tími til þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.