Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:37:04 (7690)

     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir brtt. á þskj. 1019 frá utanrmn. við tillögu til þál. um tvíhliða samning við Evrópubandalagið og nál. á þskj. 1018 frá utanrmn. um sama efni. Ég ætla að lesa fyrst nál.:
    ,,Nefndin fjallaði um tillöguna, sem flutt er af Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni, í því ljósi að samningar höfðu tekist um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og að óvissu vegna brotthvarfs Sviss af svæðinu hafði verið eytt. Jafnframt lá fyrir við umfjöllun nefndarinnar að samningaviðræður væru hafnar milli EFTA-ríkjanna Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar og framkvæmdastjórnar EB um aðild þessara ríkja að bandalaginu. Því var talið eðlilegt að breyta hinni upprunalegu tillögu. Við gerð breytingartillögunnar töldu nefndarmenn mikils virði að ná sem víðtækastri samstöðu um afgreiðslu málsins. Breytingartillagan er flutt á sérstöku þingskjali.
    Að mati nefndarinar er ákaflega mikilvægt að enginn vafi sé um afstöðu Íslands til Evrópubandalagsins (EB). Verði niðurstaðan af viðræðum fyrrgreindra EFTA-ríkja við EB sú að þau gerist aðilar að bandalaginu er jafnframt mikilvægt að fyrir liggi sú afstaða Alþingis að stefnt skuli að tvíhliða samningi Íslands og Evrópubandalagsins. Álítur nefndin nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að geta stuðst við vilja Alþingis þegar hugað er að samskiptum Íslands og EB um leið og hún minnir á nauðsyn þess að nefndinni gefist kostur á að fylgjast náið með þróun málsins. Því er eðlilegt að Alþingi marki þá stefnu sem felst í breytingartillögu nefndarinnar. Leiði tvíhliða viðræður Íslands og EB í framhaldi af gerð EES-samningsins til þess að gengið verði á ný til samninga við bandalagið verður sú ákvörðun borin undir Alþingi. Við slíka tvíhliða samningsgerð yrði einkum litið á viðskiptahluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem stofnanahlutinn hlyti óhjákvæmilega að taka á sig allt aðra mynd.
    Innan nefndarinnar hefur töluvert verið rætt um það hvernig afskiptum Alþingis af framvindu mála á vettvangi EES skuli háttað. Jafnframt hefur nefndin rætt hvernig hún geti sem best fylgst með aðildarviðræðum EFTA-ríkja við EB. Þeim umræðum er ekki lokið, en nefndarmenn eru sammála um að utanríkismálanefnd gegni þar lykilhlutverki og verði að haga störfum sínum í samræmi við það.``
    Þetta álit undirrita auk mín Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir H. Haarde, Páll Pétursson, Árni R. Árnason, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Sigbjörn Gunnarsson.
    Brtt. er þannig að tillgr. orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að í framhaldi af gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skuli teknar upp viðræður við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti þess og Íslands, einkum með hliðsjón af því að Austurríki, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa sótt um aðild að bandalaginu. Því felur Alþingi ríkisstjórninni að undirbúa slíkar viðræður um hugsanlegan tvíhliða samning og tilkynna framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um þennan

vilja Alþingis.``
    Þá er einnig lagt til í þessari brtt. að tillagan heiti ,,Tillaga til þingsályktunar um tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið.``
    Herra forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægur áfangi í samskiptum Íslands við Evrópubandalagið að það skuli hafa náðst samstaða um þessa tillögu í utanrmn. Ég tel að það skipti miklu máli út á við fyrir okkur Íslendinga og einnig inn á við fyrir framhald stjórnmálaumræðunnar hér á landi eftir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gengur í gildi. Tillagan tekur mið af þessu því að þar segir að í framhaldi af gerð samningsins skuli teknar upp slíkar viðræður. Það er ljóst af tillögunni að gengið er að því sem vísu að samningurinn taki gildi þó að vissulega séu um það skiptar skoðanir eins og fram hefur komið í umræðum á undan hvenær það verður og ýmsir þeirrar skoðunar að kannski verði það aldrei. Tillagan byggist á því að það verði gengið til tvíhliða samskipta við Evrópubandalagið í framhaldi af gerð þessa samnings.
    Ég hef ekki verið sérstakur talsmaður þess að það sé kappsmál í sjálfu sér að samkomulag takist á Alþingi um mál sem þessi. Ég held að það sé heilbrigt fyrir lýðræðislega stjórnarhætti í landinu að menn séu ekki alltaf að reyna að leita málamiðlana eða komast að einni niðurstöðu. Það á ekki að vera sérstakt markmið í sjálfu sér, en í þessu máli taldi ég ákaflega mikilvægt og fagnaði því mjög þegar forsendur voru fyrir því í utanrmn. að menn gátu sameinast um tillöguna. Ekki síst í ljósi þess mikla ágreinings sem verið hefur um þátttökuna í Evrópska efnahagssvæðinu og þeirra mörgu spurninga sem vaknað hafa í hugum manna í tilefni af því máli þá taldi ég að það væri hagstætt bæði fyrir stjórnmálaástandið hér á landi og fyrir stöðu okkar gagnvart Evrópubandalaginu að víðtæk samstaða næðist í þessu máli.
    Ég vil þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir samstarfið við að laga og breyta þeirri tillögu sem kom frá þeim Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni á þann veg sem hér liggur fyrir. Ég tel að þar hafi menn gengið til verks af heilindum í því skyni að ná raunverulegu samkomulagi um orðalagið sem hér liggur fyrir. Það lá einnig fyrir í umræðu í nefndinni að menn telja sig e.t.v. túlka þetta með mismunandi hætti en það er ástæðulaust að fara út í vangaveltur um það. Tíminn mun leiða í ljós hver framvindan verður en mestu skiptir nú að samstaða liggur fyrir um tillöguna og allir nefndarmenn í utanrmn. Alþingis standa að henni eins og ég hef greint frá. Ég legg hana hér fram til umræðu og afgreiðslu.