Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 22:27:14 (7701)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil fagna því að þessi tillaga hefur hlotið afgreiðslu hjá hv. utanrmn. Ég tel að það hafi verið mikilvægt að afgreiða þessa tillögu og tek undir það með formanni nefndarinnar að það sé mikilvægt að það sé skýrt hvað Alþingi vill gera í þessu máli og tek á engan hátt undir það að hér sé um tillögu að ræða sem ekki sé skaðleg og þess vegna eigi að afgreiða hana. Ég tel að hér sé um mikilvæga tillögu að ræða og það eigi að afgreiða hana í því ljósi.
    Af minni hálfu hefur það ávallt verið ljóst að ég studdi á sínum tíma að við tækjum þátt í þeim viðræðum sem hafa farið fram um aðild að Evrópsku efnahagssvæði. Ég hef hins vegar gagnrýnt núv. ríkisstjórn fyrir ýmislegt í framkvæmd þess máls. En það hefur jafnframt verið ljóst af minni hálfu að ég hef ekki viljað standa í vegi fyrir því að slíkir samningar gætu náðst. Ég lít svo á og það er mitt mat að Evrópskt efnahagssvæði verði að veruleika. Þessi tillaga eins og hún birtist hér gerir ráð fyrir að í framhaldi af gerð þessa samnings skuli teknar upp viðræður við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti eins og þar stendur. Það kom fram í umræðunum á sínum tíma að ég taldi rétt að þessar viðræður hæfust hið fyrsta og væri ekki eftir neinu að bíða í því sambandi. Nú eiga sér stað viðræður milli Evrópubandalagsins og ýmissa þjóða um aðild að Evrópubandalaginu. Það var mitt mat að með sama hætti ættu Íslendingar að biðja um viðræður um hugsanlegan tvíhliða samning í ljósi þess að líklegt væri að Evrópskt efnahagssvæði mundi a.m.k. breytast verulega, ef ekki breytast í grundvallaratriðum, eftir því hvað margar þjóðir mundu ganga í bandalagið.
    Það kom fram hjá hæstv. utanrrh. í þeim umræðum að hann væri ekki sammála þessari skoðun og hann lýsti því yfir að slíkar viðræður gætu ekki hafist fyrr en þessi samningur væri gerður. Ég vænti þess að ég muni það rétt. Ég lít svo á að hér sé verið að lýsa því yfir og það hafði náðst málamiðlun í þessu sambandi að slíkar viðræður verði ekki teknar upp fyrr en í framhaldi af gerð þessa samnings.
    Það er eins og gengur og gerist að þegar menn eru að finna málamiðlun í mikilvægu máli að menn verða að sætta sig við slíka niðurstöðu og ég tel hana vera ásættanlega. Ég lít svo á að í þessari tillögu felist að verið sé að hafna aðild að EB vegna þess að það stendur hér að Alþingi feli ríkisstjórninni að undirbúa slíkar viðræður um hugsanlegan tvíhliða samning og tilkynna framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um þennan vilja Alþingis. Ég tel að hérna sé alveg ljóst hvað um er að ræða, hér er ekki verið að fela ríkisstjórninni að undirbúa hugsanlegar viðræður um aðild Íslands að Evrópubandalaginu heldur viðræður um hugsanlegan tvíhliða samning. Ég tel að þetta sé alveg nægilega ljóst í tillögunni og sé á engan hátt hægt að misskilja.
    Nú geta menn að sjálfsögðu haft mismunandi mat á því hvort þær þjóðir sem hafa sótt um aðild að EB muni ganga þar inn. Ég ætla ekki að gerast spámaður í þeim efnum en mér finnst hins vegar fráleitt að ganga út frá því að þær skoðanakannanir sem eru uppi í dag séu svo afdráttarlausar að það sé hægt að fullyrða að ýmsar þjóðir muni alls ekki ganga inn. Mér er það vel ljóst að Finnland leggur á það mikla áherslu að gerast aðili að Efnahagsbandalaginu og sennilega er Finnland það Norðurlandanna þar sem áherslan er sterkust af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér. Það er alveg ljóst að verði það niðurstaðan að aðild verði samþykkt í Finnlandi, kann það að sjálfsögðu að hafa áhrif í Svíþjóð og það er líka alveg ljóst að ef niðurstaðan verður sú að Svíþjóð muni vilja gerast aðili þá kann það að hafa áhrif í Noregi þótt ég taki undir það að eins og aðstæður eru í dag er ekki líklegt að það sé meiri hluti fyrir aðild Noregs að EB. Hitt er svo annað mál að það hefur á engan hátt komið í ljós hvers konar samning þessar þjóðir geta fengið og því allt of snemmt að spá fyrir um það. En það er að mínu mati alveg möguleiki að það fari svo að allar þessar þjóðir gerist aðilar að Efnahagsbandalaginu. Það á að sjálfsögðu ekki að ganga út frá því að svo geti ekki orðið eða tala eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir gerði, að þessi tillaga væri ekki í takt við tímann og ég skildi hana þannig að hún gæti nokkurn veginn sagt fyrir um það með nokkurri vissu að þessar þjóðir yrðu ekki aðilar að EB. Það má ekki láta slíka óskhyggju ráða ferðum. Þótt ég geti tekið undir það að ég óska þess ekki að þessar þjóðir verði aðilar að EB þá vil ég á engan hátt útiloka það út frá einhverjum skoðanakönnunum sem menn eru að lesa um í dagblöðum í dag. Þannig að ég tel að þessi tillaga sé fyllilega í takt við tímann. Hún er að því leytinu í takt við tímann að það er verið að lýsa því hér yfir að Íslendingar vilji ganga þessa braut.
    Ég tel að allir sem um þessi mál fjalla af sanngirni og ábyrgð telji útilokað annað en að Íslendingar semji við þetta stóra bandalag, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við erum með svo mikil viðskipti við það að hjá því verður ekki komist og aðeins sú staðreynd sem hrópar á okkur nú að tollar á saltfiskútflutning okkar eru svo miklir að það er ekki lengur hagkvæmt að salta fisk á Íslandi minnir mjög á þá staðreynd þannig að hjá því verður ekki komist að semja með betri hætti um okkar viðskipti en gert er ráð fyrir í bókun 6.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að hafa fleiri orð um þessa tillögu, ég tel mikilvægt að samstaða náist um hana. Ég ætla ekki á þessu stigi að fara þess á leit að utanrrh. upplýsi að öllu leyti hvernig með þessa tillögu verði farið en ég vildi þó spyrja hann þess hvort ekki verði haft samráð við utanrmn. um undirbúning málsins og um undirbúning þess efnis, þ.e. innihald þessara viðræðna. Ég tel ekki eðlilegt að krefja utanrrh. á þessu stigi um innihaldið vegna þess að aðstæður geta að sjálfsögðu breyst. En aðalatriðið er það hvort hann telji ekki nauðsynlegt að hafa víðtækt samráð um það þegar þar að kemur, ekki aðeins við fulltrúa stjórnarflokkanna, heldur einnig við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Ég teldi það ekki vera í anda þessarar tillögu ef slíkt væri ekki gert og vildi biðja hæstv. utanrrh. að upplýsa það hér.