Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 22:41:08 (7705)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er að mínu mati aldrei of seint að gera það sem skynsamlegt er talið og ef hv. þm. telur það vera skynsamlegt að leita eftir tvíhliða samningi þá hefði ég haldið að hún teldi skynsamlegt að marka þá stefnu. Það er hins vegar alveg ljóst hvort sem Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika eða ekki þá mun það sem þar hefur verið rætt um og þar hefur verið til viðræðu öll þessi ár að sjálfsögðu hafa mikil áhrif hvort sem hv. þm. eða öðrum líkar betur eða verr. Ég held að öllum sé ljóst að margt af því sem hefur verið í viðræðum um hið Evrópska efnahagssvæði verður þáttur í væntanlegum tvíhliða samningi ef hann verður einhvern tímann að veruleika og allar þær viðræður og undirbúningur sem þar hefur átt sér stað mun að sjálfsögðu skipta þar miklu máli.