Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 22:51:55 (7708)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Alla jafna fer það mönnum líklega best í stjórnmálum að hafa bein í nefinu og það þarf auðvitað alltaf að vera. En stundum getur verið nauðsynlegt að hafa það sem a.m.k. Danir kalla ,,ull í munninum``. Það ætti kannski ekki að vera miklum vandkvæðum bundið í kvöld, eftir því sem manni hefur heyrst á hér eftir langar og strangar umræður, að hafa svolitla ull í munninum. Slíkt hafa menn gjarnan þegar þeir ná málamiðlun um ákveðna hluti og ég held að við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur um það að auðvitað er þessi tillaga sem hér liggur fyrir málamiðlun. Að henni standa fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga í utarmn. og þá allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Auðvitað er hér málamiðlun enda vitum við að skoðanir hafa hingað til verið skiptar. En slík málamiðlun getur auðvitað haft sitt gildi og getur reynst mönnum mikilvæg viðspyrna þegar á þarf að halda. Ég vil í því sambandi minna á ályktun sem Alþingi gerði í öryggismálum árið 1985, sem allir stjórnmálaflokkar á þingi stóðu að, og reyndist mönnum ágæt viðspyrna í öryggismálum þegar kom að umræðu um kjarnavopn hér á landi og hvort að þau mætti staðsetja á Íslandi.
    Eins og ég segi, textinn er auðvitað málamiðlun en samt er hann að vissu leyti ótvíræður um leið því það segir a.m.k. í nál., sem við hljótum að líta á sem þá útfærslu eða túlkun á sjálfri tillögunni, með leyfi forseta:
    ,,Að mati nefndarinnar er ákaflega mikilvægt að enginn vafi sé um afstöðu Íslands til Evrópubandalagsins. Verði niðurstaðan af viðræðum fyrrgreindra EFTA-ríkja við EB sú að þau gerist aðilar að bandalaginu er jafnframt mikilvægt að fyrir liggi sú afstaða Alþingis að stefnt skuli að tvíhliða samningi Íslands og Evrópubandalagsins.``
    Ég held að menn þurfi ekkert að fara í grafgötur um það að gangi þessi ríki inn í EB, verði niðurstaðan sú að þau gerist aðilar, þá er mörkuð sú stefna að Ísland taki upp tvíhliða samningaviðræður við EB um sín mál, með öðrum orðum ekki samningaviðræður um aðild heldur viðræður um tvíhliða samning.
    Ég held að þetta sé kannski mikilvægast varðandi þessa tillögu, þessi túlkun sem kemur þarna fram í nál.
    Ég get sagt það sem mína skoðun, og hef gert það áður, að ég efast reyndar um að öll EFTA-ríkin gerist aðilar að Evrópubandalaginu. Annars vegar benda skoðanakannanir til þess að málið verði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu, sérstaklega verði það borið upp á næstu árum, og hins vegar held ég að hlutirnir breytist ekki það hratt og þjóðarviljinn breytist ekki það hratt að líklegt sé að t.d. Norðmenn og jafnvel Svíar fái það samþykkt, hvorki á árinu 1995 né 1996. Felli þessar þjóðir aðild að EB í þjóðaratkvæðagreiðslu þá er auðvitað eðlilegast að EFTA-ríkin taki sameiginlega á tengslunum við EB annaðhvort í gegnum samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, sem hugsanlega verður þá staðreynd, eða að þau taki sameiginlega á málum með einhverjum öðrum hætti. Þá er einfaldlega uppi ný staða í þessum málum.
    Ég lít líka svo á að þar sem tillagan segir að í framhaldi af gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skuli teknar upp viðræður við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti þá feli hún, eðli málsins samkvæmt, í sér að það verði ekki hægt ef samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði tekur ekki gildi núna á næstunni --- og þar af leiðandi kannski alls ekki --- þá verði ekki hægt að taka upp beinar samningaviðræður við EB um aðild að bandalaginu. Ég held að það leiði af tillögunni og eðli máls og það sé líka mjög mikilvægt og kom reyndar fram í máli utanrrh. að þetta væri hans skoðun.

    Ég held að það sé mikilvægt að sæmileg sátt sé um meginlínur í utanríkismálum. Þetta skiptir ekki síst máli út á við gagnvart samningsaðilum sem við erum að fást við. Þessi tillaga segir ekki annað en það sem hún gerir í sínum stutta texta. Hún segir ekkert um það að þeir sem að henni standa, í þessu tilviki sérstaklega stjórnarflokkarnir, séu þeirrar skoðunar að aðild að EB komi ekki til greina. Textinn segir það auðvitað ekki. En þetta hlýtur að vera stefnan þar til henni er breytt. Vilji menn breyta þessu, vilji menn taka upp aðildarviðræður við EB, það kunna að vera einhverjir á þingi sem það vilja, þá verður það auðvitað ekki hægt nema koma þá til þingsins aftur. Koma til þingsins og fá umboð til slíks. Það er þingið sem tekur þá afstöðu að breyta þeirri stefnu sem það markar með þessari tillögu. Ég held að það sé alveg ótvírætt að sú stefnumörkun sem hér fer fram er í þá átt að taka upp tvíhliða viðræður við EB, þá í framhaldi af gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og segir hér, en ekki aðildarviðræður.