Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 23:10:01 (7710)

     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Frú forseti. Ég vil þakka þær ágætu umræður sem hér hafa orðið um þessa tillögu og hv. 4. þm. Austurl. fyrir þær spurningar sem hann lagði fyrir mig ásamt utanrrh. Utanrrh. hefur nú svarað og vil ég í upphafi lýsa því yfir að ég er svörum ráðherrans sammála og það er enginn skoðanaágreiningur milli okkar um þetta mál frekar en mér virðist milli þeirra sem hér hafa staðið upp og lýst afdráttarlausum stuðningi við þessa tillögu.

    En ef ég fer yfir spurningarnar þá er fyrsta spurningin þessi: Hvert er fyrirhugað efni og innihald þeirra viðræðna við Evrópubandalagið um tvíhliða samnning við EB sem tillagan gerir ráð fyrir? Þessari spurningu er í raun svarað í áliti utanrmn. þar sem segir: ,,Við slíka tvíhliða samningsgerð yrði einkum litið á viðskiptahluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem stofnanahlutinn hlyti óhjákvæmilega að taka á sig allt aðra mynd.`` Ég held að þetta hljóti að vera meginefnið sem kæmi til álita í slíkum viðræðum.
    Í öðru lagi er spurt: Eru þeir sem standa að tillögunum frá utanrmn. að lýsa því yfir að aðild Íslands að Evrópubandalaginu komi ekki til greina? Ég tek undir með hv. 1. þm. Austurl. að það ber ekki að líta á þessa tillögu sem aðildarumsókn að Evrópubandalaginu. Hún er það ekki. Ég tek undir það með hv. 10. þm. Reykv. að væru menn að velta fyrir sér aðild að Evrópubandalaginu þá mundu þeir að sjálfsögðu leggja það til og koma fram með það í tillögu og það verður að taka um það sjálfstæða ákvörðun hér á Alþingi ef menn telja að slíkt skref eigi að stíga. Það er einnig rétt sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. að með þessari tillögu er ekki verið að útiloka að menn kunni að komast að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegt að velta fyrir sér aðild að Evrópubandalaginu. Það er ekki gert í tillögunni, tillagan er ekki aðildarumsókn og hún snýst ekki um það mál.
    Það segir í þriðju spurningu: Hvaða samhengi sjá tillögumenn milli umsókna fjögurra EFTA-ríkja og þeirra viðræðna við EB um tvíhliða samskipti sem tillagan gerir ráð fyrir? Það er vikið að því að í tillögunni eru nefndar umsóknir þessara ríkja. Það liggur alveg ljóst fyrir að verði þessi ríki aðilar að Evrópubandalaginu þá gjörbreytist EFTA og staða okkar Íslendingar innan Evrópska efnahagssvæðisins verður allt önnur þannig að það eru alveg ljós tengsl þarna á milli í mínum huga og það mun knýja á um að taka á málefnum Íslands og Evrópubandalagsins með öðrum hætti heldur en við gerum með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu en í mínum huga eins og annarra, t.d. hv. 1. þm. Austurl., þá er það alveg tvímælalaust að þessi tillaga byggist á því að Evrópska efnahagssvæðið komi til sögunnar og Ísland verði þátttakandi í því.
    Fjórðu spurningu er sérstaklega beint til utanrrh. þannig að ég þarf ekki að svara henni.
    Fimmta spurningin er: Hyggst utanrrh. óska eftir þessum viðræðum áður en ljóst er hvort samningurinn um EES verður staðfestur? Ég vil aðeins láta þá skoðun mína í ljós í þessu efni að ég er sammála utanrrh. og hv. 1. þm. Austurl. að það á ekki að koma til álita að leita eftir þessu fyrr en ljóst er um afdrif EES-samningsins. Það er alveg tvímælalaust. Ég vil hins vegar í þessu samhengi vitna í það sem segir í áliti meiri hluta utanrmn. sem lagt var fram vegna frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið og er á þskj. 372, en þar segir þegar rætt er um samskipti Íslands við Evrópubandalagið ef þessi EFTA-ríki færu inn í bandalagið, með leyfi forseta:
    ,,    Forsætisráðherra hefur lýst yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að kanna með bréfi og formlega hjá framkvæmdastjórn EB hver staða Íslands yrði á grundvelli EES kæmi til þess að önnur EES-ríki gengju í EB.
    Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að EES-samningurinn riftir ekki tvíhliða samningum EFTA-ríkja við EB. Framkvæmd þessara samninga er hins vegar frestað, að svo miklu leyti sem efni þeirra skarast við efni EES-samningsins á meðan hann er í gildi. Falli EES-samningurinn úr gildi án þess að nokkuð komi í stað hans hlýtur fyrri tvíhliða samningur EFTA-ríkis við EB fullt gildi. Þannig mundi Ísland geta lagt fríverslunarsamninginn frá 1973 til grundvallar í tvíhliða samskiptum sínum við EB.``
    Þannig held ég að ég svari einnig sjöttu spurningu hv. þm. þar sem segir: Mun ríkisstjórnin leita eftir viðræðum um tvíhliða samning við EB ef EES-samningurinn gengur ekki í gildi og útiloka um leið að sótt verði um aðild Íslands að EB? Ef þessi staða verður uppi mun gamli samningur okkar við Evrópubandalagið frá 1973 verða í gildi og á grundvelli hans munum við haga tvíhliða samskiptum okkar við Evrópubandalagið og á þeim grunni taka upp viðræður um þessi samskipti í ljósi breyttra aðstæðna.
    Sjöunda spurningin er: Hver yrði hlutur utanrmn. Alþingis við undirbúning þeirra viðræðna sem tillagan gerir ráð fyrir? Í nál. um tillöguna segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Álítur nefndin nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að geta stuðst við vilja Alþingis þegar hugað er að samskiptum Íslands og EB um leið og hún minnir á nauðsyn þess að nefndinni gefist kostur á að fylgjast náið með þróun málsins.`` Þetta er eindregin afstaða nefndarinnar, samhljóða afstaða nefndarinnar. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. utanrrh. gaf hér þegar hann svaraði hér þessum spurningum þar sem hann minnti á hina lagalegu skyldu ríkisstjórnarinnar til samráðs við utanrmn. um mál af þessu tagi en tók jafnframt fram og áréttaði að hann mundi beita sér fyrir því á pólitískum forsendum einnig að náið samráð yrði haft við nefndina. Ég held að þessar spurningar hv. 4. þm. Austurl. og svörin við þeim hljóti að hafa skýrt viðhorf okkar a.m.k. tveggja sem höfum svarað þeim en mér finnast þau svör raunar vera alveg í fullu samræmi við það sem fram hefur komið í máli hv. 10. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Austurl. Þar með má segja raunar að ályktunin sjálf eða tillagan sjálf og greinargerðin svari þessum spurningum þannig að þær séu aðeins árétting á þeim viðhorfum sem við setjum fram í tillögunni og greinargerðinni.