Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 23:21:54 (7713)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Þetta las ég að sjálfsögðu út úr texta tillögunnar að þessi tilkynning færi til Evrópubandalagsins. En hitt hefur hv. þm. rækilega tekið fram að það sé síðan ,,den tid, den sorg``, það sé síðan á einhverju síðara stigi hugsanlega ef EES fer á hliðina eða er að gefa upp öndina sem á þetta mál reyni. Það er það sem í mínum huga vísar þessari tillögu inn í allfjarlæga framtíð eins og horfur eru nú. Þá á ég við að það skipti árum þangað til á slíkt kynni að reyna. Um það vitum við auðvitað mjög lítið hvað sú framtíð kynni að bera í skauti sér að nokkrum árum liðnum. Þannig eru ekki mikil skilaboð sem fylgja um raunverulega stefnu. Það sem væru hins vegar tíðindi ef tillagan hefði það innihald að færi EES á hliðina, yrði aldri barn í brók, ef samningurinn yrði ekki staðfestur þá leituðu Íslendingar eftir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um nýjan tvíhliða samning og útilokuðu að leita aðildar að Evrópubandalaginu. En það er hins vegar ekki hér í þessum texta, því miður.