Flutningur verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ríkissjónvarpinu

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 23:40:22 (7717)

     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir innlegg hans til þessa máls. Auðvitað er það ljóst og kemur hér fram í tillögunni að ekki hefur hvarflað að okkur flm. að meiningin væri að ríkissjónvarpinu væri ætlað að flytja öll þau verk sem Þjóðleikhúsið eða Sinfóníuhljómsveitin flytja, enda segir það í greinargerðinni, en einhver þeirra skulu þó ætíð flutt. Það er meining okkar.
    Mér er einnig ljóst að hér þarf að vinna visst verk og eitt af því er að sjálfsögðu að viðræður þurfa að eiga sér stað um breytta kjarasamninga sem ég tel að liggi í augum uppi við þá listamenn sem þarna munu koma fram. En ég tel að það sé langt frá því að það séu óyfirstíganlegir hlutir og ég er nú bjartsýnn á að listamenn hafi það ríkan skilning í þessu máli og hvers virði það sé fyrir þá að koma list sinni sem mest á framfæri, það muni ekki standa í veginum, enda er það eðlilegt að þeir fái greitt fyrir slíkt framlag eins og aðrir.
    Hvað tækninni viðkemur verð ég að segja það að ég er ekki þeim hnútum svo mjög kunnugur en þó hef ég aðeins gengið í smiðju út af þessu máli og rætt við fólk sem er þessu kunnugt bæði heima og erlendis og það vitum við að þetta er víða gert erlendis með ágætum og mörgum stundum er um hreina listviðburði að ræða þegar slíkt er gert. Fólk segir mér einnig að það sé ekki nokkrum vandkvæðum bundið að framkvæma þetta hér. Auðvitað er spurning hvað gerðar eru miklar kröfur til þessa og ég veit nú að þeir sem við þessi mál fást munu örugglega setja mikinn metnað í að gera þetta sem best.
    Ég hef ekki trú á því eins og hér kom fram hjá hv. þm. að þetta komi til með að draga úr aðsókn að leikhúsum eða tónverka. Mér hafa sagt aðilar sem þekkja þetta t.d. erlendis frá að víða er það skoðun að það sé alveg gagnstætt, þ.e. að einmitt slíkt eins og hér er lagt til muni verða til þess að auka aðsókn að sýningunni og þá tónleikahaldi. Ég trúi því reyndar betur að svo muni verða.
    Virðulegi forseti. Mér ber skylda til að þakka fyrir þessar undirtektir og ekki síst að það skuli koma frá hv. 16. þm. Reykv. sem ég veit að skilur þetta mál og þekkir það vel. Útfærslan er auðvitað ekki einföld en hún er ekki það flókin að ég trúi því og treysti hæstv. núv. menntmrh. fullkomlega til þess að ganga svo frá og fá þá menn til aðstoðar að ekki verði miklum vandkvæðum bundið tæknilega að koma þessu máli fram.