Fjáröflun til vegagerðar

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 23:51:43 (7720)

     Flm. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Stefán Guðmundsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Páll Pétursson, Valgerður Sverrisdóttir og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
    Í 2. gr. laga nr. 3 frá 23. sept. 1987 segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Gjald skv. 1. gr. þessara laga skal innheimt í ríkissjóð. Tekjum samkvæmt lögum þessum skal einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun.``
    1. gr. þessa frv. sem hér er mælt fyrir gerir ráð fyrir þeirri breytingu á 2. gr. laga nr. 3/1987 að gjald samkvæmt 1. gr. skal innheimt til ríkissjóðs. Tekjum samkvæmt lögum þessum skal einungis varið til vega- og reiðvegagerðar samkvæmt vega- og reiðvegaáætlun. Með þessu frv. eru tekin af öll tvímæli um það að af þeim fjárveitingum sem nú fara til vegagerðar skal einnig varið til reiðvegagerðar og þannig litið á að reiðvegagerð sé hluti af vegakerfi landsis.
    Frv. þetta er flutt samhliða frv. um breytingu á vegalögum nr. 6/1977, með síðari breytingum. Með því frv. er Vegagerð ríkisins falin gerð reiðvega samkvæmt sérstakri reiðvegaáætlun sem samgrh. lætur gera í samráði við samtök hestamanna og sveitarfélaga til fjögurra ára í senn. Samkvæmt frv. skal kostnaður við reiðvegagerð greiðast skv. 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar.
    Virðulegi forseti. Að umræðunni lokinni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.