Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 12:25:53 (7725)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er ekkert að ske, sagði hv. 2. þm. Austurl. og á dagskrá fundarins eru 29 mál og ég kann ekki töluna á þeim ótölulega fjölda sem hefur verið á dagskrá funda Alþingis undanfarna daga og hef ég nokkuð gaman af þessari athugasemd þingmannsins.
    Hins vegar er það nú svo að þó að ég deili ekki forsendum athugasemdarinar sem hann kom með, þá get ég alveg tekið undir þá skoðun að við alþingismenn erum sennilega að fást við allt of mörg mál á hverjum vetri og þing sem er farið að slaga hátt í töluna 600 með málafjölda á nú að fara að hugsa sinn gang svo að ég get tekið undir það sjónarmið ef það birtist í ræðu þingmannsins.
    Ég ætla ekki að fara í efnisumræðu við hv. 2. þm. Austurl. um þetta mál. Hann setti fram sín sjónarmið strax við 1. umr. frv. og hefur mjög andstæð sjónarmið á þessu máli miðað við mig og mér hefur ekki tekist að fá hann á mitt band þrátt fyrir ágæta vinnu í nefndinni. Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka góða samvinnu nefndarinnar þó að niðurstaðan sé ekki einhlít okkar í milli.
    Ég vil endilega upplýsa það varðandi fjarvistir félagsmálanefndarmanna að einn er á fjórðungsþingi fyrir vestan og stórviðburður er í lífi annars sem er farinn þess vegna til sinna heimkynna, en ég má til að nefna það vegna orða þingmannsins að ég hef átt mjög gott samstarf við samstarfsflokkinn í þessu máli sem öðru í félmn. og það hafa verið mjög heiðarleg vinnubrögð á milli flokkanna í stjfrv. sem hafa komið til félmn. Hins vegar var mjög gaman að fá á einn fundinn tvo þingflokksformenn, en ég fullvissa þingmenn um að það var alger tilviljun í forföllum en að sjálfsögðu lagði ég áherslu á það að vera með fullskipaðan meiri hluta við lokaafgreiðslu málsins.