Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 13:42:23 (7730)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Við 2. umr. ræddi ég nokkuð um þetta merka mál og fannst mér mjög einkennilegt og finnst reyndar enn að gildistaka skuli vera bundin við það, eins og segir í 7. gr., að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði taki gildi að því er Ísland varðar. En þetta frv. fjallar um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og í því felst veruleg réttarbót fyrir starfsmenn, þ.e. það er miðað við að nýr eigandi takist á hendur réttindi og skyldur fyrri eiganda þegar um samruna fyrirtækja er að ræða eða aðilaskipti, þ.e. þegar fyrirtæki skipta um eigendur. Ég tel þetta mál mjög merkilegt þar sem ekki finnast í íslenskum lögum nein ákvæði að því er varðar þessi atriði og því tel ég mjög mikilvægt að þetta atriði verði lögfest hér óháð því hvort samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi fyrir Ísland. Þess vegna hef ég flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 1048 um að 7. gr. orðist svo: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.`` Ég vænti þess að brtt. hljóti stuðning hér á Alþingi þar sem menn hljóta að taka afstöðu til mála óháð því hvort Evrópubandalagið segi okkur að setja í íslensk lög einhver ákvæði þegar um er að ræða eins gott ákvæði og það sem sett er með þessu frv., þ.e. að bæta réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.