Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 13:53:22 (7739)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það kemur nú fyrir hér að nýju, þetta merkisfrv. hæstv. félmrh. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það var dálítið rætt í vetur þegar það var á dagskrá fyrir jólaleyfi, ef ég man rétt, en nú hefur sem sagt hv. nefnd lokið störfum sínum, klofnað í meiri hluta og minni hluta og leggur til tiltekna afgreiðslu á málinu.

    Það sem einkum hefur verið rætt og gagnrýnt í tengslum við þetta mál eru annars vegar nokkrir efnisþættir frv. sem ég mun fara yfir, en síðan hefur umræðan einnig snúist nokkuð að meðferð hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. félmrh. á þessu máli og hvort tveggja gefur auðvitað tilefni til að ræða það hér.
    Varðandi frv. sjálft og efni þess felur það út af fyrir sig ekki í sér svo veigamiklar breytingar á starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins eða lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og þó þegar betur er að gáð. Ég hygg að það sé óhjákvæmilegt að setja efni frv. í samhengi við það sem verið hefur að gerast í húsnæðismálunum undanfarin ár og þá á ég ekki síst við það sem hefur verið að gerast eða er að gerast með stofnunina, Húsnæðisstofnun ríkisins. Staðreyndin er nefnilega sú að það stefnir hraðbyri í það að allt sem heitir opinber afskipti af húsnæðismálum eða opinber stofnun sem með þau mál fari verði lagt niður og þessum málaflokki sem slíkum vísað út á markaðinn. Og það má í raun og veru segja að með lagabreytingum núna undanfarin ár og kannski er smiðshöggið að nokkru leyti rekið með þessu frv. sé verið að leggja niður allt sem heitir almenn fyrirgreiðsla eða almenn þátttaka hins opinbera í húsnæðismálum og skilja eftir þann eina þátt þess málaflokks sem tengist félagslegu íbúðarhúsnæði. Auðvitað er það meira að verða praktískt fyrirkomulagsatriði eins og komið er t.d. með húsbréfin hvar meðferð þeirra er. Og þannig hlýtur það auðvitað að verða í framhaldinu ef horfið er með öllu frá því að veita einhverja hagstæðari fyrirgreiðslu til þeirra sem eru að kaupa eða byggja húsnæði en þá sem gengur og gerist á markaðnum. Þegar sú er orðin niðurstaðan þá þurfa menn að sjálfsögðu ekki á neinni opinberri stofnun að halda, menn geta sjálfir átt sín viðskipti við bankakerfið eða markaðinn. Það sem eftir stendur er þá sú spurning hvort ástæða sé til að einhver almenn deild eða stofnun fjalli um þann þátt starfs húsnæðismálanna sem lýtur að ríkisábyrgðum á bak við húsbréf á meðan hún er við lýði. Um það hefur verið deilt eins og kunnugt er. Og ég verð nú að segja alveg eins að þegar um markaðsbréf af því tagi er að ræða, þá réttlætti það að mínu mati ekki mikla yfirbyggingu, sá þáttur málsins einn og sér sem eftir er.
    Ég held hins vegar að hér séu menn að fara út á mjög varasama braut. Ég held að það sé ákaflega erfitt að sjá það fyrir sér að það komist einhver skikkur á húsnæðismál landsmanna og það geti orðið viðráðanlegt við íslenskar aðstæður á komandi árum, a.m.k. næstu 20 árin eða svo, fyrir venjulegt launafólk að koma sér upp íbúðarhúsnæði nema á því máli sé tekið með sérstökum hætti. Það séu veitt hagstæðari lán og til lengri tíma heldur en fáanleg eru á markaðnum. Og þá held ég að þeim væri best fyrir komið í tiltölulega sjálfstæðri húsnæðisstofnun eins og verið hefur eða var. Einnig af þeim ástæðum er ég mjög andvígur þeim breytingum sem frv. gengur út frá varðandi hlutverk eða stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar.
    1. gr. frv. gengur út á það að draga verulega úr sjálfstæðri stöðu Húsnæðisstofnunar og það er gert má segja með tvennum hætti, annars vegar 1. og hins vegar 3. gr. frv. 1. gr. frv. sem breytir 2. gr. gildandi laga um Húsnæðisstofnun er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn húsnæðismála.
    Húsnæðistofnun er ríkisstofnun sem lýtur sérstakri stjórn.
    Húsnæðisstofnun ríkisins skal annast stjórn og framkvæmd opinberra afskipta af húsnæðismálum samkvæmt lögum þessum. Húsnæðisstofnun skal vera ráðgefandi fyrir félmrn. og önnur stjórnvöld í húsnæðismálum og fara með þau verkefni sem ráðherra felur henni á sviði húsnæðismála.``
    Með öðrum orðum, ráðherrann skal bæði ákveða verkefni stofnunarinnar og síðan er hún eingöngu ráðgefandi um þau mál. Og ef farið er í umsögn um þessa grein í grg. með frv. þá koma þar fram nokkuð merkilegir hlutir.
    Í fyrsta lagi er lagt til, segir hér, að þess sé getið að félmrh. fari með yfirstjórn húsnæðismála. Ekki hefur mér nú virst skorta á um það undanfarin ár að menn vissu af því. En hvað um það. Þetta má kallast kannski nokkuð venjulegt ákvæði og er víða að finna í lögum.
    En í öðru lagi er svo sagt: ,,Lagt er til að Húsnæðisstofnun ríkisins sé skilgreind sem ,,ríkisstofnun`` en ekki ,,sjálfstæð ríkisstofnun`` eins og nú er gert. Ekki er ljóst hvað átt er við með því í núgildandi lögum að Húsnæðisstofnun ríkisins sé sjálfstæð ríkisstofnun, enda er það ekki sérstaklega skilgreint. Hlutverk Húsnæðisstofnunar ríkisins er skilgreint í lögum og að auki kveða lögin á um að félmrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins.``
    Það er nú alveg sama þó að þetta sé lesið með góðum hug, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hin formlega breyting lagatextans verður sú að út fellur sjálfstæð ríkisstofnun og ríkisstofnun kemur í staðinn. Þegar það er svo skoðað í samhengi við breytingar lagatextans að öðru leyti, þá leggst þetta auðvitað saman og verður enn þá meiri breyting, sem sagt sú að Húsnæðisstofnun skuli eingöngu vera ráðgefandi eins og þarna er þó tekið skýrt fram, að þetta sé ríkisstofnun en ekki sjálfstæð ríkisstofnun, að félmrh. feli stofnuninni verkefni á sviði húsnæðismála og það er dálítið athyglisvert að í 1. gr. frv. er ekki minnst á önnur verkefni sem lögin kveða á um. Það er ekki fyrr en kemur aftur í 4. gr. frv. þannig að þessi meginmarkmiðsgrein laganna minnist ekkert á það að stofnunin hafi önnur verkefni en þau sem ráðherra felur henni með reglugerð eða með öðrum hætti.
    Í þriðja lagi er svo nauðsynlegt að skoða breytinguna í 3. gr. frv. Hún er sú að stjórn Húsnæðisstofnunar verður hrein þingkjörin stjórn. Með öðrum orðum, væntanlega að breyttu breytanda, að starfandi meiri hluti á Alþingi hefur þar meiri hluta með þeim frávikum sem leitt getur af stjórnarskiptum og skörun kjörtímabila. Til viðbótar því skipar ráðherra formann og varaformann, ráðherra húsnæðismála á

hverjum tíma eins og segir þar. Skipunartími formanns og varaformanns skal vera takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar þá. Þegar þetta leggst allt saman: það er fellt út úr lögunum að Húsnæðisstofnun ríkisins sé sjálfstæð ríkisstofnun, það er tekið fram að hún sé eingöngu ráðgefandi fyrir ráðherrann, það er tekið fram að ráðherrann skuli skammta stofnuninni verkefni og í fjórða lagi er svo séð fyrir því með lagabreytingunni að formaður og varaformaður stjórnarinnar séu á hverjum tíma skipaðir af sitjandi ráðherra, væntanlega einhver flokksgæðingur a.m.k. meðan Alþfl. fer með þau mál eins og reynslan sýnir. ( Gripið fram í: Er þetta ekki valddreifing?) Þetta er fína valddreifingin. Þetta eru náttúrlega lýðræðisumbætur, ekki satt, hæstv. félmrh. Stjórnin verður allt önnur stofnun, allt annað batterí en hún hefur verið vegna þess að í stjórn Húsnæðisstofnunar eins og hún hefur verið skipuð lögum samkvæmt um langt árabil, þá hefur meiri hluti á Alþingi ekki náð að mynda einfaldan meiri hluta í stjórn Húsnæðisstofnunar vegna þess að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, aðilar vinnumarkaðarins hafa í raun haft þar oddaaðstöðu. Þess vegna m.a. hefur húsnæðismálastjórn oft og tíðum verið mun sjálfstæðari en margar t.d. hreinar þingkjörnar stjórnir vegna þess að þar hafa hlutföll meiri hluta og minni hluta ekki endurspeglað styrkleikahlutföll á Alþingi eingöngu. Hér er þess vegna auðvitað um miklu meiri breytingu að ræða heldur en látið er í veðri vaka og ég tel að hérna sé í raun og veru nánast verið að leggja Húsnæðisstofnun undir félmrn. sem deild í því ráðuneyti. Það er að vísu þannig að það er í beinu og rökréttu framhaldi af því hvernig núv. hæstv. félmrh. hefur hegðað sér gagnvart Húsnæðisstofnun því að það er náttúrlega þannig að hæstv. núv. félmrh. hefur ítrekað með grófum hætti hlutast þannig til um málefni Húsnæðisstofnunar ríkisins langt út fyrir sitt valdsvið, skipað til að mynda húsnæðismálastjórn fyrir verkum sem ráðherra hefur ekkert yfir að segja og það liggur fyrir lögfræðileg úttekt á því að húsnæðismálastjórn og framkvæmdastjóra eða forstjóra Húsnæðisstofnunar beri ekki að taka við fyrirmælum frá félmrh., ber ekki að gera það. Framkvæmdastjórinn, forstjóri Húsnæðisstofnunar, heyrir undir stjórnina og stofnunin er sjálfstæð ríkisstofnun og um þetta liggja m.a. fyrir lögfræðileg álit frá Lagastofnun Háskóla Íslands. Samt er það svo að það rignir yfir forstjóra Húsnæðisstofnunar og húsnæðismálastjórn fyrirskipunum frá hæstv. ráðherra sem gefur það auðvitað lönd og leið að stjórnskipulega standa málin þannig að ráðherra getur ekki sent fyrirmæli um einstök framkvæmdaratriði í húsnæðismálum inn í Húsnæðisstofnun. Þessu unir hæstv. félmrh. greinilega ekki vel og vill nú löghelga praxísinn. Það er nú málið.
    Nærtækt dæmi um þessi ósköp eru auðvitað bréfaskriftir hæstv. félmrh. til Húsnæðisstofnunar og ég vek athygli á því að það er verið að skrifa Húsnæðisstofnun og framkvæmdastjóra þeirrar stofnunar í desember sl. varðandi uppsagnir starfsfólks. Þannig var það að 21. des. skrifar félmrh. Húsnæðisstofnun ríkisins, Sigurði E. Guðmundssyni framkvæmdastjóra bréf, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1993 er gert ráð fyrir töluverðum samdrætti í verkefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins og lækkuðum fjárveitingum til reksturs stofnunarinnar miðað við fyrri ár. Í frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem lagt hefur verið fram á Alþingi [þ.e. þetta frv. sem nú er verið að ræða] er þessi stefna nánar útfærð. M.a. er gert ráð fyrir því að hönnunarstarfsemi verði lögð niður, enda munu samningsbundin verkefni á því sviði nú lítil sem engin.`` Og svo kemur og vek athygli á því: ,,Húsnæðisstofnun er hér með falið að grípa nú þegar til nauðsynlegra aðgerða til að markmiðum fjárlaga verð náð. Í því skyni er yður falið`` og þarna er allt í einu gripið til þérunar af stofnuninni og þetta er nú eitt af fáum opinberum bréfum þar sem stofnun er þéruð, sem ég hef komist yfir, ,,að leggja niður störf, þar á meðal á svonefndri hönnunardeild, þjónustusviði tæknideildar og hagræða í starfseminni svo sem verða má.``
    Hér er hæstv. félmrh. að skipa fyrir með beinum hætti með ráðuneytisbréfi. Að vísu er það undirritað af ráðuneytisstjóranum fyrir hönd ráðherra en það gildir einu eins og frægt er orðið. Þetta bréf hefur ekki skrifað sig sjálft. Það er nú betra en sums staðar gerist þegar óundirskrifuð bréf eru farin að flæða út um kerfið, en hér er það Berglind Ásgeirsdóttir og einhver Húnbogi trúi ég að þetta eigi að vera. Þetta er nú mikil latína, hann gæti verið læknismenntaður þess vegna (Gripið fram í.), ja, ég er nú að reyna að ráða í nafnið sem ,,counter--signerar`` hér. En aðalatriði málsins er auðvitað það, hæstv. forseti, að félmrh. hefur ekki stöðu til að gefa svona fyrirmæli. Það liggja lögfræðileg álit fyrir um það. Hvað er t.d. félmrh. að leggja hér til eða fyrirskipa stofnuninni að gera? Jú, að segja upp starfsmönnum sem er ótvírætt að húsnæðismálastjórn ræður eins og yfirmenn þeirrar deildar sem hér áttu í hlut. Það leikur enginn vafi á því að það er á verksviði húsnæðismálastjórnar þegar komið er að yfirmönnunum í stofnuninni að ráða til lykta ráðningarkjörum þeirra og ráðningu. Samt er félmrh. að skipa framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar að gera þarna tiltekna hluti í rekstri stofnunarinnar. Þetta er auðvitað alveg kostulegt. Veit hæstv. félmrh. ekki af því að það hefur verið leita úrskurðar lögfróðra aðila um það hvernig stofnunin eigi að bregaðst við í svona tilvikum og niðurstaðan er ótvíræð? Það er stjórn Húsnæðisstofnunar sem fer með forræði slíkra mála og framkvæmdastjóra ber að starfa samkvæmt fyrirmælum stjórnar en ekki hæstv. ráðherra.
    Það er auðvitað nauðsynlegt að ræða þennan þátt hér í samhengi, hæstv. forseti, því að þetta tengist væntanlega því sem í vændum er, ef hæstv. félmrh. nær sínu fram í þessu efni hvað varðar breytingar á stjórnun og stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar. Og ég segi það alveg eins og er, hæstv. félmrh., að það hefði verið miklu hreinlegra að leggja til að leggja Húsnæðisstofnun niður, hina almennu starfsemi þar, skilja eftir ef mönnum sýndist svo einhverja stofnun eða einhverja deild sem fjallaði um félagslegt íbúðarhúsnæði og taka þetta inn í ráðuneytið með venjulegum hætti og stofna þar ósköp einfaldlega

húsnæðisdeild. Þá þarf ráðherrann ekkert að standa í þessum bréfaskriftum, getur látið þessa Húnboga sína og Berglindir fara með þetta. Það er miklu hreinlegra heldur en að vera að grauta þessu svona. Til hvers í ósköpunum á að vera að leggja þá áþján á einhverja 5 eða 7, þó svo það yrði nú niðurstaðan, þingkjörna stjórnarmenn að sitja í þessari stofnun eins og einhverjar fótaþurrkur ráðherrans? Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess. Ekki hefði ég áhuga á því að taka sæti í slíkri stjórn þegar þannig er um hnútana búið í lögum að ráðherra ræður þarna lögum og lofum, skammtar stofnuninni verkefni, stjórninni verkefni, skipar að sínum geðþótta formann og varaformann stjórnar. Verði ráðherraskipti, þá er fyrir því séð að einhverjir nýir menn úr hópnum geti tekið við og það sem stjórnin kynni að hafa fram að færa eða hafa skoðun á er svo eingöngu ráðgefandi fyrir hæstv. ráðherra.
    Ég tel auðvitað líka að það verði að huga svolítið að innra samræmi í lagasetningu af þessu tagi. Er þetta í raun og veru boðlegt þegar það er borið saman við hlutverk annarra þingkjörinna stjórna eða ráða að setja húsnæðismálastjórn í þetta samhengi? Ég hef efasemdir um að það sé yfirleitt sæmilegt að þingkjörin stjórn sé sett upp með þessum hætti, algerlega sem undirtylla eins ráðuneytis. Til hvers er þá í raun verið að kjósa slíka stjórn? Það er miklu nær að ráðherrann skipi þá bara einhverja nefnd sinna manna í þetta og ef að líkum lætur, eins og nú tíðkast, yrðu það miklir snillingar úr Alþfl. og kannski fengi einn sjálfstæðismaður að fljóta með. Þetta er í fyrsta lagi, hæstv. forseti, auðvitað eitt meginatriði málsins, þessi stjórnkerfisbreyting og hana gagnrýni ég mjög harðlega. Ég hef þó lítið rætt þann þáttinn sem er náttúrlega býsna stór í þessu sambandi og varðar það að fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, samtaka launamanna og lífeyrissjóðanna, hverfa þarna út úr stjórn. Með því er í raun og veru endanlega klippt á þá þátttöku eða þau beinu tengsl þessara aðila við húsnæðismálin sem verið hafa við lýði hér um áratuga skeið og þá auðvitað haft mikil áhrif á alla þróun og allan framgang húsnæðismála á umliðnum árum. Það er auðvitað bæði í gegnum stjórnarmenn sína í Húsnæðismálastofnun og svo beina samninga og samskipti lífeyrissjóðanna sem fjármögnunaraðila við húsnæðismálin sem og einfaldlega pólitískan og félagslegan áhuga verkalýðshreyfingarinnar á húsnæðismálum sem þessi samskipti hafa mótast á undanförnum og umliðnum árum. Á þetta er nú í raun og veru allt verið að klippa. Í fyrsta lagi með því sem orðið er, að búið er að rjúfa samhengi milli lánsréttar og framlaga lífeyrissjóðanna sem er að sjálfsögðu farið að segja til sín í gegnum það að áhugi lífeyrissjóðanna á því að fjármagna húsnæðiskerfið hefur minnkað. Og ætli hæstv. félmrh. viti ekki aðeins af því og ríkisstjórnin þessa mánuðina. Mér er nær að halda það. A.m.k. hafa þeir vitað það fyrir síðustu áramót eins og fjárvöntun sjóðanna var þá. Hins vegar er svo með þessari breytingu verið að leggja til í raun og veru að klippa endanlega á þessi tengsl með því að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og aðilar vinnumarkaðarins hverfi út úr stjórn Húsnæðisstofnunar. Þar með verður hún auðvitað enn pólitískari og enn meira undir framkvæmdarvaldið sett eins og þetta stefnir.
    Ég vil þá í öðru lagi, hæstv. forseti, nefna þann þátt þessa máls sem er meira framkvæmdalegs eðlis heldur en efnislegur hvað frv. snertir og eru aðfarir hæstv. ríkisstjórnar varðandi uppsögn starfsmanna á Húsnæðisstofnun ríkisins skömmu eftir síðustu áramót og bréfaskriftir ýmsar þar að lútandi. Það virðist vera að á undanförnum árum hafi einhvers staðar verið á ferli í þjóðfélaginu sérstakur áhugahópur um það að leggja niður tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins, a.m.k. hönnunarstarfsemi og teikningar þar. Mér er sagt að harðsnúnari og skipulagðari þrýstihópur í þjóðfélaginu sé vandfundinn, hafi t.d. ævinlega skipulagt sig sérstaklega og myndað tiltekinn hóp á landsfundum Sjálfstfl. undanfarin ár. Það hefur verið alveg sérstakt markmið meðlima hópsins að koma einmitt þessari starfsemi fyrir kattarnef. Nú held ég að enginn hafi fært neitt fram til röksemda í málinu um það að þessi starfsemi hafi verið eitthvað sérstaklega skaðleg, óþörf eða óholl og almennar röksemdir af því tagi að það sé úr tísku eða ekki í takt við tímann að ríkið reki teiknistofu gef ég nú ekki mikið fyrir. Ég veit ekki til annars en ríkið reki dýrustu teiknistofu í heimi þar sem er húsameistari ríkisins. Ekki virðist mega hrófla við því batteríi sem er svo fokdýrt viðskiptist að það má varla koma t.d. hér inn fyrir dyr í þinghúsinu, þá kostar það fleiri milljónir. Nei, það er ekki verið að tala um að hrófla við því. En tæknideild Húsnæðisstofnunar og hönnunardeildina þar sem hefur nú aðallega það til saka unnið að vera sérstaklega í verkefnum fyrir minni sveitarfélögin í landinu, sem eru það lítil sjálf og vanmegnug að þau hafa ekki yfir tækniþjónustu að ráða á sínum vegum. Þar af leiðandi hafa þau leitað mjög mikið til tæknideildar Húsnæðisstofnunar varðandi tæknilega ráðgjöf og þjónustu í sambandi við byggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis o.s.frv. Auðvitað og örugglega má margt segja um þá vinnu sem þarna hefur farið fram og það er náttúrlega líka rétt að það er hellingur af færum arkitektum úti í þjóðfélaginu sem geta gert þetta líka. En ég hef ekki séð nein rök færð fram fyrir því að þessi þjónusta hafi ekki verið fullkomlega frambærileg, hún hafi ekki verið á sanngjörnu verði og hún hafi ekki nýst minni sveitarfélögunum úti um landið vel sem hafa verið stærstu viðskiptavinir hennar undanfarin ár. Og hvað er verið að vinna með því að leggja þetta niður? Er það af einhverri greiðasemi við þessi sveitarfélög? Er það í einhverju hefndarskyni við þetta starfsfólk? Eða er það vegna þess að það eru einhverjir aðrir sem hafa áhuga á því að komast í þessi viðskipti og mata á þeim krókinn? Getur það hugsast? Og hinn harðsnúni þrýstihópur samanstandi af mönnum af því tagi sem hugsi sér gott til glóðarinnar að setjast að þessum verkefnum?
    Ég vil meina að það hafi oft og tíðum verið t.d. minni sveitarfélögunum býsna hagstætt að eiga þarna viðskipti við opinbera stofnun sem ekki hefur þurft að verðleggja alla hluti í topp með því hugarfari að græða á þeim. Ég hef nefnilega þá tilfinningu að það hafi oft og tíðum verið býsna hagstætt fyrir þessa aðila að eiga aðgang að opinberri stofnun, starfsfólki á launum hjá hinu opinbera sem gat látið það eftir sér, liggur mér við að segja, að veita vissa þjónustu og vera liðlegt í samskiptum án þess að það væri að minnka gróðann hjá einhverju einkareknu fyrirtæki. En því verður ekki til að dreifa þegar búið verður að einkavæða þessa starfsemi.
    Ég hef líka lýst yfir miklum efasemdum að veikja um of tæknilega eða faglega hlið Húsnæðisstofnunar vegna þess að ég held að það sé þörf á því að hin opinbera húsnæðisstofnun sé sæmilega burðug hvað varðar tæknilega þekkingu og geti fylgst með þróun húsnæðismála. Og síðast en ekki síst held ég að gagnlegt sé að þar sé starfandi deild sem hafi reynslu og þekkingu og samband við húsbyggingar og markaðinn á hverjum tíma til þess að hún sé samanburðarfær um verðlagningu og gæði slíkrar þjónustu. Og getur hugsast að það sé líka það sem mönnum er svolítið illa við að í gegnum það að á Húsnæðisstofnun ríkisins hafa verið starfandi menn sem hafa teiknað hús, hafa fylgst með því hvað kostar að byggja hús, hafa unnið vandaðar kostnaðaráætlanir fyrir húsbyggingar, hefur verið til staðar ákveðinn samanburður sem hægt hefur verið að vitna í. Það hefur að vísu lengi verið iðkuð sú íþrótt að breiða út að félagslegar íbúðarbyggingar, hist og her um landið, séu óhemju dýrar. Sá samanburður hefur ekki alltaf verið mjög merkilegur, satt best að segja þegar það er yfirleitt byrjað að horfa fram hjá þeirri staðreynd að þær íbúðir hafa nánast undantekningarlaust verið afhentar tilbúnar til að flytja inn. Mönnum hafa verið afhentir lyklarnir og þeir hafa gengið inn í fullfrágengið húsnæði og síðan er það gjarnan borið saman við húsnæði úti á almenna markaðnum sem er afhent á ýmsum stigum. Mér hefur oft leiðst þessi rógur, sem ég kalla svo, um félagslega húsnæðiskerfð í landinu og ég held að hann hafi verið af pólitískum toga en ekki faglegum eða sanngjörnum. Það hefur auðvitað verið svo að hér hafa verið sértrúarhópar í landinu sem haft hafa allt á hornum sér þegar kemur að félagslegu íbúðarhúsnæði og mér finnst hæstv. félmrh. að nokkru leyti vera að ganga í þetta lið með framkomu sinni við Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er að vísu svo að ekkert á mönnum að vera heilagt í þessum efnum og ekki heldur einstakar deildir eða starfsemi Húsnæðisstofnunar. Þess vegna er það svo, og ég hef margsagt það fyrr og ég skal segja það hér, að að sjálfsögðu var ekkert því til fyrirstöðu að skoða þessa starfsemi. Mér þykir mjög líklegt að með hliðsjón af nútímaaðstæðum hefði mátt að ósekju minnka hana talsvert, þ.e. rifa þarna talsvert seglin og jafnvel endurskipuleggja hana þannig að þetta væri bara ein deild. Ég held að kannski hafi það verið að nokkru leyti tímaskekkja að reka þetta sem tvískipta deild, tæknideild og hönnunardeild. Þessi aðför eða þessar aðfarir sem hér eru ástundaðar eru ekki til fyrirmyndar og hef ég þó ekki nefnt það enn sem er nú ljótast í þessu, sem er framkoman við starfsfólkið.
    Þá kem ég aftur að bréfinu frá því í desember. Því svaraði húsnæðismálastjórn, eftir fund 28. des., á þá leið að húsnæðismálastjórn féllist ekki á þessi skrif hæstv. félmrh. Það var m.a. fært fram sem rök í því bréfi að það gengi auðvitað ekki að segja þessu starfsfólki upp með fjögurra daga fyrirvara. Það hefði í raun og veru orðið niðurstaðan ef farið hefði verið að tilmælum ráðherra því að bréfið sem dags. var 21. des. gat nú varla gefið tilefni til þess að stjórnarfundur yrði haldinn fyrr en eftir jól og það var reyndar gert. 28. des. var boðaður fundur og niðurstaða hans var sú sem lesa má um í bréfi frá stjórninni, undirritað af Sigurði E. Guðmundssyni framkvæmdastjóra fyrir hönd stjórnarinnar 28. des. Þar segir m.a. með leyfi forseta:
    ,,Húsnæðismálastjórn telur æskilegast að ekki verði gripið til uppsagna á starfsfólki hönnunardeildar fyrr en Alþingi hefur afgreitt frv. það til laga um breytingu á lögum um stofnunina er lagt var fyrir þingið í byrjun desember sl.``
    Í öðru lagi segir: ,,Stjórnin telur eigi fært að láta starfsfólk hönnunardeildar hætta störfum með fjögurra daga fyrirvara.``
    Í þriðja lagi er sagt: ,,Stjórnin telur nauðsynlegt að ráðrúm fáist til að fá að reyna til þrautar að koma eignum hönnunardeildar í nokkurt verð, t.d. með því að semja við starfsmenn hennar um kaup á þeim`` o.s.frv.
    Þau undur gerðust hins vegar í framhaldi af öðru skipunarbréfi ráðherra í byrjun árs að formaður stjórnar Húsnæðisstofnunar sneri við blaðinu að því er virðist og fór að lesa allt annað út úr niðurstöðu stjórnarfundarins 28. jan. heldur en áður hafði verið gert og gekk svo langt að hann taldi jafnvel að þar hefðu menn samþykkt að segja starfsfólkinu upp sem er auðvitað einhver argasta fölsun sem ég hef lengi orðið vitni að. Það vill svo til að ég sótti þennan fund 28. des., sem varamaður Kristins H. Gunnarssonar í húsnæðismálastjórn, og út úr því komu svo þau ósköp að starfsmönnunum var sagt upp engu að síður strax í janúar. Þessar aðfarir allar voru með miklum ólíkindum og urðu ekki til þess, a.m.k. hvað mig snertir, að auka áhuga minn á því að aðstoða hæstv. félmrh. í þessum breytingum. Það verður að segja það alveg hreint eins og er. Ef hæstv. félmrh. hefur áhuga á því að gera þarna eitthvað til gagns eða af viti liggur mér nú við að segja, þá eru þetta ekki aðferðirnar. Það er að vísu ljóst og það vita menn að hæstv. ráðherra hefur meira og minna verið í streði og stríði við Húsnæðisstofnun mestallan sinn embættisferil og þá ekki síður húsnæðismálastjórn og virðist nú hafa brugðið á það ráð í þeirri orrustu að nánast innlima stofnunina í ráðuneyti sitt eða leggja hana undir ráðuneytið. Þetta er auðvitað gamalkunn aðferð. Mér liggur við að hafa einhvern tíma sagt að einhver ónefndur maður hefði brugðið á það dólgslega ráð að éta óvin sinn. Það liggur við að það megi segja það sama hér um félmrh. og félmrn. að það hafi gripið til þess ráðs varðandi Húsnæðisstofnun.

    Auðvitað er það svo að angi af þessu máli teygir sig upp í þá stefnu hæstv. ríkisstjórnar að einkavæða eins og kunnugt er. Það hefur verið sérstakt áhugamál og keppikefli þessarar ríkisstjórnar að einkavæða. Og hvort sem mönnum finnst það rökrétt eða ekki, þá er það staðreynd engu að síður að Alþfl., sem fyrir nokkrum árum síðan tók upp í nafn sitt viðhengið Jafnaðarmannaflokkur Íslands, er nú fullgildur þátttakandi í þessari ríkisstjórn og dregur ekki af sér í einkavæðingunni, að séð verður, og framkvæmir hana með mjög sérstökum hætti.
    Nú er það svo að hæstv. félmrh. hefur gjarnan gefið sig út fyrir að vera svona heldur félagslegi kanturinn í þessari stjórn og í Alþfl. og hafa samúð með alþýðunni og þeim sem bágt eiga og ekkjum og munaðarlausum og allt það. Hann hefur haldið hér nokkrar hjartnæmar ræður sem hafa verið túlkaðar á köflum sem veruleg sérstaða hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni. Hæstv. félmrh. væri á mikið mýkri línu heldur en afgangurinn af hópnum. Maður skyldi þess vegna ætla að hæstv. félmrh. notaði þá tækifærið þegar kemur að því að félmrn. er að einkavæða og sýndi í verki að hægt væri að gera slíkt án þess að standa í stórkostlegum illindum við starfsfólk eða koma fram við það með mjög þjösnalegum hætti. En því miður verður að segjast eins og er að útkoman a.m.k. í þessu máli er ekki falleg og verði önnur einkavæðing á vegum félmrn. eða ríkisstjórnarinnar í samræmi við þetta, þá er varla von að t.d. opinberir starfsmenn uni því mikið lengur eða taki því með þegjandi þögninni að svona sé komið fram við einstaka hópa þeirra.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, fjallar þetta frv. um þá breytingu að afnema svonefndan skyldusparnað. Um þann þátt málsins er það að segja að ég held að ekki sé efnisleg andstaða á ferðinni hvað hann varðar. A.m.k leyfi ég mér að trúa því að ef menn settust vandlega yfir það verkefni, þá ætti að mega ná um það þokkalegri samstöðu að vinna sig út úr því fyrirkomulagi sem þar er, og er á margan hátt orðið erfitt í framkvæmd. Ég ætla því ekki að fjölyrða um þann þátt og læt mér nægja að vitna til þess sem um það er sagt í nál. minni hluta félmn.
    Það er svo óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að fara nokkrum orðum um húsnæðismálin almennt hér í lokin. Það er ekki víst að það öllu fleiri tækifærin verði til þess á yfirstandandi þingi. Æskilegt hefði verið að fá alveg sérstakan tíma til að ræða hina almennu stöðu húsnæðismálanna. Þar er mjög margt ískyggilegt, satt best að segja. Mér segir svo hugur um að það sé því miður orðið afar stutt í næstu kollsteypu, liggur mér við að segja, í húsnæðismálum okkar Íslendinga þar sem annað eða hvort tveggja verði á ferðinni, stórfelldir greiðsluerfiðleikar fjölmennra hópa sem taka verði á og þá sjálfsagt einhverjar kerfisbreytingar á nýjan leik í þessum efnum og það virðast ætla að verða örlög okkar að umbylta meira og minna lánakerfinu, fjármögnunarkerfi húsnæðismálanna, með reglubundnu millibili á fimm til átta ára fresti.
    Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að eins og húsbréfakerfið er upp byggt og starfrækt muni það sýna sig á næstu árum að það er allsendis ófært um að leysa a.m.k. þann hluta verkefnisins sem snýr að eðlilegri fjármögnun og nauðsynlegri uppbyggingu á nýju íbúðarhúsnæði fyrir þá sem eru að koma inn á húsnæðismarkaðinn. Þegar sest er yfir það reikningsdæmi í dag t.d. fyrir ungt fólk sem þarf að ráðast í byggingu eða kaup á fyrstu íbúð sinni gengur það engan veginn upp nema menn hafi verulegar eignir til að leggja á borðið með sér. Þá er þetta auðvitað orðin spurningin: Ætlum við að takmarka það hverjir geta yfir höfuðið komið sér upp þaki yfir höfuðið af eigin rammleik við þann hóp sem á verulegar eignir til að leggja upp í kaupin eða byggingarnar? Það er alveg augljóst mál að fólk með venjulegar fjölskyldutekjur á bilinu 150--200 þús. kr., þó það sé par þar sem báðir vinna úti, ræður ekki við kaup á mannsæmandi íbúð. Jafnvel ef minnstu tveggja herbergja íbúðir, sem kosta fjórar, fimm eða sex milljónir kr., eru fjármagnaðar með húsbréfum þá hrökkva slík laun ekki til. Hvað þá heldur ef á ferðinni er stærri fjölskylda með börn sem þarf þriggja eða fjögurra herbergja íbúð að lágmarki. Á þetta þá bara að vera svona? Á ekkert úrræði að vera í almennu kerfi til að slíkt fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið? Ef það er eitthvað sem gengur af séreignastefnu dauðri í húsnæðismálum er það auðvitað þetta ástand. Það er alveg deginum ljósara. Að vísu kann að fara svo að verðhrun á fasteignamarkaði geti haft einhver áhrif ef húsnæðið lækkar einfaldlega nógu mikið í verði. Sumir spá því að við eigum eftir að sjá hér á Íslandi svipað verðhrun á fasteignamarkaði eins og menn hafa gert í nálægum löndum og guð hjálpi bankakerfinu og lífeyrissjóðunum og því öllu saman þá. En segjum nú að svo verði ekki og við skulum vona að við upplifum ekki neinar slíkar katastroffur og verð á fasteignamarkaði haldist á svipuðu róli og það er og þá stöndum við frammi fyrir þessum aðstæðum. Ekki þarf að ræða um stofnkostnað í nýbyggingum, ef eitthvað er þá er hann meiri en þegar um kaup á notuðu er að ræða.
    Ég var þeirrar skoðunar þegar þessi mál voru til umræðu og umfjöllunar hér fyrir um fjórum árum að það væru mistök að leggja niður þann hluta af starfsemi Byggingarsjóðs ríkisins, almennrar fjármögnunar til húsnæðismála sem sneri að fjármögnun á fyrstu kaupum eða fyrstu byggingu fólks. Ég held að ein stóra meinsemdin í húsnæðismálum okkar hafi lengi verið sú að gera ekki miklu skýrari greinarmun á því þegar um er var að ræða aðstoð við þá sem voru að koma sér upp í fyrsta sinn þaki yfir höfuðið og hinna sem voru í fasteignakaupum á hinum notaða markaði. Þegar horft er til baka er alveg ljóst að eins og starfræksla húsbréfakerfisins hefur verið gagnvart notaða fasteignamarkaðnum er hún tóm vitleysa. Það hefur ekkert gert annað en að halda þar uppi í raun og veru óeðlilega háu verði og sett í umferð stórkostlega fjármuni sem betur hefðu verið komnir annars staðar. Með öðrum orðum hefði átt að veita minni fyrirgreiðslu út í þessi viðskipti með notað húsnæði og sérstaklega stærri eignirnar en hlutfallslega þá aftur meira á móti

í formi aðstoðar við þá sem væru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn. Með þessu móti hefði verið hægt að hafa hér miklu meira jafnvægi á fasteignamarkaðnum. Það hefði verið hægt að halda uppi jafnari og stöðugri nýbyggingum sem væri öllum fyrir bestu, að endurnýjun og viðbót íbúðarhúsnæðis í landinu væri bara jöfn og sæmilega stöðug og nokkurn veginn í takt við fólksfjölgunina í landinu. Þegar til langs tíma er litið er það auðvitað sú viðbót að frádreginni einhverri úreldingu sem við þurfum að hafa hér á húsnæðismarkaðnum. En hæstv. félmrh. hefur ekki viljað taka mikið undir það að ástæða sé til að endurskoða einhverja þætti í þessu húsbréfakerfi. Ég hygg að á meðan svo stendur þá sé þetta allt frosið fast. Það litla sem er svo verið að gera er auðvitað allt til íþyngingar þeim sem standa undir þessari greiðslubyrði. Það eru hækkaðir vextir, það eru skertar vaxtabætur og afföllin og ástandið á lánsfjármarkaðnum þekkja menn. Það er eins og raun ber vitni að þeir sem eru að skrifa sig fyrir 5 millj. kr. skuld í húsbréfum fá 4 millj. þegar afföllin, lántökukostnaðurinn og stimpilgjöldin og allt er greitt. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. félmrh. að hrista hausinn. Að vísu heyrist kannski ekki nógu vel og sést ekki nógu vel af því að sjónvarpsvélunum er beint hér að ræðustólnum en þetta er nú bara svona, hæstv. félmrh. Fram undir síðustu mánuði hafa afföllin verið slík að þegar allt er lagt saman, afföllin og lántökukostnaðurinn, þá skerðist lánið sem kemur til útborgunar eða menn fá í formi verðmæta í hendur til að ráðstafa, t.d. í nýbyggingar, um hartnær 20%. Ég sá norður í Skagafirði í vetur pappíra hjá bónda sem þar er að ráðast í að byggja sér hús. Hann fór í þetta fína greiðslumat og honum var sagt að hann væri borgunarmaður fyrir fimm milljónum. Hann varð harla kátur, ræddi við sína iðnaðarmenn og smiði og sagði ég fæ hérna fimm milljónir frá Húsnæðisstofnun og nú ætla ég að byggja hús. Svo kom lánið og bóndin fór í það að koma því í verð og þegar allt var frá dregið, kostnaðurinn og afföllin, fékk hann fjórar milljónir. Þannig byrjar hann, skuldar fimm en fær fjórar til að byggja fyrir. Þetta er nú kerfið sem svarið var og sárt við lagt af öllum helstu spekingum með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar fyrir um fjórum til fimm árum að aldrei yrðu nein afföll í húsbréfakerfinu. Er það ekki rétt munað, hæstv. félmrh.? Því var haldið fram hér og rökstutt m.a. með því að þar sem þessi lán væru með ríkisábyrgð á bak við sig þá kæmi að sjálfsögðu ekki til slíks.
    Það væri líka fróðlegt, hæstv. forseti, að fara yfir það hér hvernig greiðsluerfiðleikar eru að hlaðast upp í þessu kerfi núna. Auðvitað liggur í hlutarins eðli að það hlaut að gerast. Vegna þess að undanfarin ár er fjöldi fólks búinn að fara í gegnum greiðslumat, fá lán alveg upp að þeim mörkum sem það er talið borgunarmenn fyrir og hvað gerist svo? Kjörin skerðast, lánin verða dýrari, vextirnir eru hækkaðir og nú á ofan í kaupið að skerða vaxtabætur. Hvað gerist hjá því fólki sem hefur þúsundum saman fengið lán alveg upp í það greiðsluþol sem það hefur? Hvað getur gerst? Það getur ekkert annað gerst en að þetta fólk lendi í vanskilum vegna þess að það hafði ekkert borð fyrir báru. Það batt sér nokkurn veginn byrðar eins og það gat framast ráðið við miðað við útreiknaða greiðslugetu og stendur svo frammi fyrir skertum kaupmætti og hærri vöxtum og lægri vaxtabótum. Þetta er ekki flókið mál, hæstv. félmrh. Hvað gerist svo? Jú, formaður þingflokks Alþfl. flytur þáltill., fína tillögu, en hvað er ríkisstjórnin hans að gera? Ekki neitt. Ég verð nú að segja alveg eins og er að ég gef ekki mikið fyrir svona sýndarmennsku. Auðvitað er tillöguflutningur formanns þingflokks Alþfl. um að vera góður við fólk sem á bágt einhver ömurlegasta sýndarmennska af slíku tagi sem sést hefur um langt árabil. Hvers vegna gera þá ekki stjórnarliðar eitthvað í þessu? Í staðinn fyrir að flytja marklausar þáltill. sem aldrei er ætlað að afgreiða. Össur Skarphéðinsson ætlaðist ekki til annars, hv. þm., en að hún færi í nefnd og sofnaði þar. En Alþýðublaðið er búið að skrifa marga leiðara um það hvað Össur Skarphéðinsson vilji vera góður við fólk sem á bágt. Það er auðvitað tilgangurinn. Nei, það væri fróðlegt að vita hvað hæstv. félmrh. og ríkisstjórnin ætlast fyrir í þessum efnum. Á að taka upp nýjan flokk greiðsluerfiðleikalána, á að létta greiðslubyrðina með öðrum aðgerðum, svo sem þeim að hækka vaxtabæturnar hjá láglaunafólkinu þeim sem hafa orðið fyrir mestri kjaraskerðingu undanfarin ár? Hvað á að gera gagnvart þeim sem hafa misst atvinnuna þúsundum saman og eru með húsnæðismálastjórnarlán á bakinu? Við þingmenn Alþb. fluttum strax í haust frv. til laga um ráðstafanir í því sambandi en frá hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert komið. Ætlar Össur Skarphéðinsson kannski líka að vera góður við þá sem hafa misst atvinnuna og kannski taka að sér persónulega að borga af húsnæðismálastjórnarlánunum þeirra? Ég veit það ekki en það væri alveg eftir honum að flytja tillögu um það sem hann mundi að vísu svo biðja fyrir að yrði ekki afgreidd heldur fengi að sofna hér í nefnd og þá væri tilganginum náð.
    Ég held að frammistaða hv. stjórnarliða í þessu sambandi og kattarþvottur af því tagi sem tillöguflutningur þingflokksformanns Alþfl. er sé ekki merkilegt innlegg í þessa umræðu eða þessa stöðu og ég á ekki von á því að margir taki það mjög alvarlega. Auðvitað þarf að taka á þessu með allt öðrum hætti ef menn á annað borð vilja einhverja farsæla og skynsamlega niðurstöðu því. Nú er það auðvitað svo að við erum búin að búa við verðtryggingu fjármagnsskuldbindinga í hartnær einn og hálfan áratug. Við erum að stórum þess hluta búin að búa við gífurlega háa vexti sem þetta fólk er auðvitað að hluta til að bera vegna þess að því miður er það nú svo að margir þeir hinir sömu og hafa tekið hér stór lán til húsnæðiskaupa á undanförnum árum eru líka skuldugir í bankakerfinu eða annars staðar og eru þar með dýr lán á óhagstæðum kjörum til skamms tíma hjá bönkunum, skammtímalán eða hjá lífeyrissjóðunum, 15--20 ára lán, sem sumir hverjir hafa lánað hér út á síðustu árum með hæstu lögleyfðu vöxtum sem eru nálægt 10% í dag ofan á verðtryggingu. Fullt af slíkum lánum eru í gangi hjá fólki sem til viðbótar skuldar auðvitað í húsnæðiskerfinu. Það er auðvitað ekkert smáverkefni að sjá fyrir því að það verði ekki algjört greiðsluþrot hjá þúsundum og aftur þúsundum heimila í landinu á næstu mánuðum og árum. Ég vænti þess að menn hafi t.d. skoðað upplýsingar Seðlabankans um skuldaaukningu heimilanna. Skuldir heimilanna hafa fjórfaldast á sl. 10--12 árum. Þær eru að nálgast landsframleiðsluna í stærð, komnar hátt á þriðja hundrað milljarða króna. Hvað er hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórn að hugsa sér í þessum efnum? Er þetta frv. eitthvert átak, eitthvað sem skiptir máli í því sambandi? Ónei, ekki aldeilis. Ef það er eitthvað sem þetta frv. gerir þá er það auðvitað til bölvunar vegna þess að þarna er t.d. verið að klippa á tengslin við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina sem eru auðvitað einu öflugu aðilarnir sem gætu komið til aðstoðar með einhverju stöðugu langtímafjármagni.
    Ég vil svo allra síðast spyrja hæstv. félmrh. að því, ef hæstv. ráðherra heyrir mál mitt sem ég veit nú ekki hvort er. --- Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. hefur tapast hér úr þingsalnum. Hér er að vísu hæstv. menntmrh. og ég sé að hann mundi gjarnan vilja leggja gott til húsnæðismálanna. ( Menntmrh.: Hætt er nú við.) Já, hætt er nú við. En það er bara ekki beint á hans verksviði. Ég ætlaði að spyrja hæstv. félmrh. að því hvernig hæstv. ráðherra hafi hugsað sér að vinna að þessum málaflokki á næstu mánuðum. Mér heyrist hæstv. félmrh. vera í símanum, hæstv. forseti. Ég veit að það er ekki sanngjarnt að beina þeirri spurningu til menntmrh. enda ætla ég ekki að gera það. Hæstv. menntmrh. hefur mæðst í mörgu undanfarna daga og er ekki á bætandi þó húsnæðismálin kæmu ekki á hans herðar. Við skulum sleppa því. Forseti, ég vænti þess að hæstv. félmrh. sé væntanlegur í salinn. Ég geri hlé á máli mínu, sem vonandi verður stutt, þangað til félmrh. birtist. ( Forseti: Hv. þm. er velkomið að halda áfram ræðu sinni og geyma spurningu til ráðherra.) Já, en það er ekkert eftir nema spurningin, hæstv. forseti. Þá versnar nú í því. (Gripið fram í.) Hæstv. félmrh. hefur lokið símtalinu og þá er okkur ekkert að vanbúnaði að klára þetta. Ég ætlaði að leggja að lokum eina spurningu fyrir hæstv. félmrh. Hún er þessi: Hvernig hyggst hæstv. félmrh. vinna að þessum málaflokki á næstunni? Er hæstv. félmrh. tilbúinn til að athuga þann möguleika að skipuð verði nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka og með aðild verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðanna til að setjast á nýjan leik yfir þessi húsnæðismál? Nú er það svo að á undanförnum árum hafa slíkar nefndir starfað af og til eða af og til hefur samstarf á þessu sviði verið sett í slíkan farveg og öll meiri háttar átök sem gerð hafa verið í húsnæðismálum rekja rót sína til einhvers slíks samstarfs. Stundum tengt kjarasamningum, stundum ekki en á undanförnum árum eins og ég veit að hæstv. félmrh. kannast við hafa ýmsir forverar hæstv. ráðherra í starfi valið þá leið að reyna að kalla alla þessa aðila saman að þessum málaflokki. Ég er þeirrar skoðunar að þess sé ríkuleg þörf núna. Ég held að fram undan séu svo erfiðir hlutir í sambandi við húsnæðismálin að það kalli fyllilega á og réttlæti það að þannig yrði að þessum málum staðið. Þrátt fyrir það sem hefur áður verið sagt og þá gagnrýni sem fram hefur komið m.a. á hæstv. félmrh. og þessa ríkisstjórn reyndar fyrir einlit vinnubrögð og einsýni vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. að þessu. Hér er auðvitað á ferðinni gífurlega mikilvægur málaflokkur og afdrifaríkur og ég fagnaði því þrátt fyrir allt ef hæstv. félmrh. fengist til að gefa yfirlýsingu af því tagi hér að hann vildi beita sér fyrir nefndarskipan eða skipan starfshóps sem yrði samsettur af fulltrúum allra stjórnmálaflokka og með aðild þessara stóru hagsmunaaðila eins og verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðanna.