Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 14:52:31 (7741)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Satt að segja hélt ég að frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins kæmi aldrei til 2. umr. því að erfiðlega gekk að koma fulltrúum stjórnarinnar saman í þessu máli í nefndinni. En að lokum var þetta togað út með töngum með miklu harðfylgi úr nefndinni. Það var satt að segja með skemmtilegri fundum sem við stjórnarandstæðingar áttum í félmn. um þetta mál því að það var alveg stórkostlegt að sjá hvernig sú fæðing gekk fyrir sig og einhvern tíma þegar við stjórnarandstæðingar höfum meiri tíma ættum við að setjast saman og gera um það farsa. Ég hugsa að það yrði mjög vinsælt skemmtiatriði en það

er nú önnur saga.
    Þetta frv. er komið til 2. umr. og félagar mínir í hv. félmn. ( Gripið fram í: Hvar er ljósmóðirin?) Virðulegi forseti. Hér er spurt um ljósmóðurina. Ég held að það hafi ekki verið neitt leyndarmál að það voru hv. formenn þingflokka Sjálfstfl. og Alþfl. sem komu báðir og toguðu þetta út með töngum. Þannig endaði málið í félmn. Fyrst sérstaklega er spurt að því finnst mér rétt að geta þess. Þannig var það. En það er nú sagan á bak við þetta frv. í nefndinni en félagar mínir hafa farið mjög ítarlega í gegnum nál. sem við erum sammála um, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson skrifuðu undir það auk mín. Þar koma fram þau meginatriði sem ég hef gagnrýnt í þessu frv. og ég ætla ekki að endurtaka það mikið sem hér hefur komið en samt sem áður aðeins að tæpa á nokkrum atriðum.
    Þessi stjórnskipulegi þáttur hefur auðvitað staðið mest í okkur og ég held ekki síður í sjálfstæðismönnum þó að þeir hafi neyðst til að samþykkja það fyrir rest vegna þess að þeirra stefna er frelsi og frjálsræði, en með frv. er verið að gera stofnunina ósjálfstæðari en það er að auka frelsi ráðherra, hæstv. félrmh. í þessu tilviki. Ef frv. verður að lögum er hann orðinn nokkurs konar bankastjóri þannig lagað ef aðilar eru óánægðir með afgreiðslu húsnæðisstjórnar getur hæstv. félmrh. tekið þar í taumana og úthlutað eftir því sem mér skilst í þessu frv.
    Annað atriði sem við höfum líka gagnrýnt mikið er í sambandi við tæknideildina. Það kann vel að vera að rétt sé að einkavæða tæknideildina sem slíka. En að leggja niður tæknideild og segja upp starfsfólki áður en lög eru samþykkt á Alþingi þar að lútandi er alveg fráleitt að mínu mati og mjög ólýðræðislegt. Ég trúi ekki að það sé algengt á hinu háa Alþingi að fara þannig að málum.
    Í sambandi við skyldusparnaðinn erum við sammála því að það kerfi sem nú er við lýði hefur ekki gagnast eins og upphaflega var ætlað en mér finnst rétt að skoðað verði hvernig má breyta því kerfi þannig að það gagnist. Mér finnst ekki nægilegt að leggja þetta skyldusparnaðarkerfi algerlega niður án þess að neitt komi í staðinn. Mér finnst vanta í frv. að fundnar séu leiðir til þess að eitthvað komi í staðinn fyrir skyldusparnaðinn sem á árum áður hefur komið verulega mörgum til góða þegar þeir svo síðar fara að kaupa sér húsnæði.
    Í sambandi við stjórn Húsnæðisstofnunar eru fulltrúar atvinnulífsins ekki lengur inni í myndinni, fulltrúar ASÍ og VSÍ eiga að víkja út en eins og hér hefur komið fram hefur það verið kjarasamningamál að þessir aðilar séu inni og ég tel þetta ekki réttan tíma til að þeir fari út. Í þriðja lagi í sambandi við stjórnina þá hefur Samband ísl. sveitarfélaga margsinnis bent á það að þeim þykir rétt að þeir eigi þarna fulltrúa og ítreka þá skoðun sína vegna þess að þetta félagslega húsnæðiskerfi er að verða æ ríkari gjaldaþáttur innan sveitarfélaganna. Það eru þær athugasemdir sem við höfum gert við þetta.
    Við höfum lagt fram tillögu til breytingar sem er ekki þess eðlis sem ég hef verið að tala um heldur annars eðlis. Fyrst á annað borð er verið að gera þær miklu breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun finnst okkur, sem rita undir þessa brtt., þ.e. hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson auk mín, margt húsnæðið í þessu kerfi vera orðið æðigamalt og þarfnast mikilla endurbóta. Málið er þannig vaxið að fólk sem býr í þessum íbúðum er oft afar tekjulágt og einnig eru eigendaskipti mjög tíð þannig að þessar íbúðir ganga kaupum og sölum mjög hratt. Margar þessar íbúðir eru í fjölbýlishúsum og fjölbýlishúsin sjálf eru gersamlega að eyðileggjast. Ekki er nægilegt að byggja nýtt á meðan heilu íbúðirnar og húsin eru gersamlega að eyðileggjast. Ég veit til að á nokkrum er það þannig að íbúðirnar eru orðnar óíbúðarhæfar vegna þess að ásigkomulag húsanna er þannig að það heldur hvorki vindi né vatni. Tillaga okkar gengur út á það að þessi fjölbýlishús séu lánshæf og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana. Hún er á þskj. 1050 og 1. tölul. er þannig að eftir 12. gr. þessa frv. komi ný grein svohljóðandi:
    ,,7. mgr. 38. gr. laganna, er verður 36. gr., breytist svo:
    Almennar kaupleiguíbúðir eru byggðar eða keyptar á vegum sveitarfélaga, viðurkenndra félagasamtaka eða fyrirtækja, fjármagnaðar með lánum úr Byggingarsjóði verkamanna fyrir allt að 90% af samþykktum byggingarkostnaði og 10% framlagi af hálfu framkvæmdaraðila.``
    2. tölul.: ,,Á eftir 12. gr. komi enn ný grein, svohljóðandi:
    Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna, er verður 50. gr.:
    a. 4. tölul. orðast svo:
    4. Lán til almennra kaupleiguíbúða (90% lán).
    b. Við bætist nýr töluliður er orðast svo:
    5. Lán til meiri háttar endurbóta á félagslegum íbúðum. Nánari reglur hér um skal setja í reglugerð.``
    Þetta er mjög brýnt mál og nauðsynlegt en eins og lögin eru í dag, þá fá þau sveitarfélög algera synjun við þessari lánafyrirgreiðslu vegna þess að þessa lagastoð vantar. Við teljum því ekki nægjanlegt að byggja nýtt húsnæði á meðan eldra húsnæði er að eyðileggjast og grotna niður. Við leggjum mikla áherslu á að þessi brtt. verði samþykkt.
    Að öðru leyti geymi ég það til 3. umr. að fjalla meira um þetta mál ef mér sýnist svo og eitthvað fleira nýtt komi upp í þessu máli en mjög ítarlega hefur verið rætt um það hér á hinu háa Alþingi og ekki er samkomulag um þetta mál eins og hér hefur komið fram.