Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:20:14 (7744)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þingmaðurinn mun örugglega geta gert hlé á ræðu sinni kl. 3.30 eða á hverjum þeim tíma sem óskað verður eftir. Það verður ekki vandamál af minni hálfu.
    Ég vil byrja á því að biðja forláts á því að hafa ekki verið þegar til taks er kallið kom af forsetastóli. Svo háttar til að ég hef verið undanfarnar mínútur að störfum í þingnefnd sem starfað hefur á meðan á þingfundi stendur og er það gert til að greiða fyrir framgangi mála hér í þinginu. Eins og menn vita, þá leggur stjórnarandstaðan sig ætíð fram um að styðja ríkisstjórnina til að greiða fyrir málum þótt ekki sé kannski samstaða um efnisinnihald.
    Hér er aftur til umræðu býsna viðamikið mál sem er full ástæða til að fara yfir nokkuð ítarlega. Ræða helstu efnisþætti sem koma málinu við, en það er nú býsna margt þegar við erum að ræða um húsnæðismálin í heild sinni. Ég vil reyna að ræða málið dálítið kaflaskipt eftir einstökum efnisflokkum.
    Ég vil fyrst víkja að því frv. eða þeim tillögum sem liggja fyrir núna, frá meiri hluta félmn., um breytingar á núverandi löggjöf. Að vísu er rétt að fram komi að meiri hlutinn er tæpur. Einn af fimm nefndarmönnum undirritar álitið með fyrirvara og ekki gekk allt of vel að ná tilskildum meiri hluta nefndarmanna til þess að skrifa upp á þær tillögur sem þarna liggja fyrir. Eftir nokkrar vikur fór svo að málið hlaut brautargengi út úr nefndinni þegar til voru kvaddir þingflokksformenn beggja stjórnarliða til að sitja nefndarfundinn. Ekki dugði minna, til að ná út úr nefndinni þessum merkilegu tillögum frá hæstv. félmrh. Það voru miklir þungavigtarmenn sem þarna voru sestir á stóla. Sat hvor sínum megin við hlið eins nefndarmanna úr meirihlutaliði og gætti þess að hallaðist ekki á.
    Ég vil segja um þær breytingar, sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér mikið kapp á að fá fram, að þær eru um margt ekki nýjar. Hér fór fram í aprílmánuði fyrir þremur árum nokkuð mikil umræða um breytingar eða frv. frá hæstv. ráðherra sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi og sætti það frv. nokkurri gagnrýni. Helstu efnisþættir í frv. frá 1990 voru breytingar á stjórnsýslukafla laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þær breytingar sem lagðar voru til í því frv. eru afar keimlíkar þeim breytingum sem nú eru lagðar til þremur árum seinna. Og það er dálítið merkilegt að flokkurinn sem í dag, í þingsölum, gæti helst heitið týndi flokkurinn, flokkurinn sem hvarf, Sjálfstfl., sem sést ekki hér innan þingsala, nema einn þingmaður flokksins sem ég sé handan við sjóndeildarhringinn á vinstri hönd, hann gagnrýndi þetta frv. geysilega hart fyrir þremur árum og talaði þá um miðstýringu og ráðherravald og fleira í þeim dúr sem Sjálfstfl. gæti ekki staðið að að samþykkja, að auka miðstýringuna í stjórnkerfi landsins. Svo merkilega vill til að þessi sami flokkur hefur nú skrifað upp á þetta. Nú er Sjálfstfl. orðinn burðarásinn í að koma fram þeirri stefnu að flytja valdið innan stjórnsýslunnar frá ríkisstofnun beint inn á ráðherraborð. Þetta er flokkurinn sem talar á móti samþjöppun valdsins. En við sjáum það auðvitað í verkum ráðherra Sjálfstfl. í núv. ríkisstjórn, að þessi samþætting valdsins í persónunni ráðherra er í raun það sem Sjálfstfl. hefur verið að stefna að og vill hafa. Hann vill hafa stjórnkerfið þannig að það sé í lúkunum á hæstv. ráðherra. Sjálfstfl. er mesti miðstýringarflokkur Íslands nema e.t.v. að undanskildum Jafnaðarmannaflokki Íslands, litla flokknum hægra megin við Sjálfstfl. Það er svona blæbrigðamunur á þeim flokkum og varla það eftir að sá flokkur varð tækur í Bilderbergsamtökin.
    Það er dálítið skrýtinn veruleikinn, þegar menn skoða hann og kynnast honum í raun, að sjá það að Sjálfstfl. sem gefur sig út fyrir að vera flokkurinn með frelsið, er í raun aðalkerfisflokkur Íslands. Hann er möppudýraflokkur nr. eitt. Hann vill safna völdunum í sínar hendur, örfárra valinna manna úr sínum röðum, og beita valdinu í þágu sinna flokksmanna, umfram það sem hann sér hjá öðrum hægri sinnuðum stjórnmálaflokkum á Íslandi. Þetta er alveg með ólíkindum, að það skuli vera svona í raun, að sá flokkur sem helst minnir á forræðishyggjuflokkana í Austur-Evrópu er Sjálfstfl. á Íslandi og svo innan sviga fyrir aftan Jafnaðarmannaflokkur Íslands, Bilderberg hf. Þetta eru flokkarnir sem umgangast valdið sem stjórntæki, ekki í þágu fólksins heldur í sína þröngu hagsmunaþágu. Þetta eru hinir nýju Íslands Hrafnistumenn. Það er nákvæmlega á þessum brautum sem þetta frv. er, það er verið að færa valdið frá þingkjörinni stjórn til ráðherra.
    Það virðist vera svo að ráðherrar í þessari ríkisstjórn séu algerlega óseðjandi í þörf sinni fyrr vald. Á síðasta ári var lamið hér í gegn, með miklum slætti, nýtt frv. til laga um málefni fatlaðra þar sem meginbreytingin var að flytja valdið inn í ráðuneytin, inn á borð ráðherra. Nú situr ráðherrann og er búinn að vera með á annan mánuð í kjöltu sinni úthlutun úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Fleiri hundruð millj. sem ráðherrann hefur þarna úr að spila eftir eigin höfði, þó að fengnum tillögum stjórnar. (Forseti hringir.) Ég heyri það, virðulegi forseti, að nú er komið að því hléi sem boðað var er ég hóf ræðu mína. ( Forseti: Nema hv. þm. sé að ljúka ræðu sinni, þá er sjálfsagt að hinkra nokkrar mínútur.) Nokkuð er nú eftir.