Gæsla þjóðminja

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:37:15 (7747)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna brunans í Kópavogi þar sem verulegur hluti bátasafns Þjóðminjasafnsins eyðilagðist hef ég átt fundi með þjóðminjaverði um öryggismál safna yfirleitt. Guðmundur Magnússon þjóðminjavörður hefur tekið saman minnisblað þar sem fram kemur hvernig öryggismálunum er varið.
    Í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu er varnarkerfi gegn innbrotum. Enginn óviðkomandi á að geta komist inn í húsið þegar þar er ekki starfsemi án þess að viðvörunarkerfi tengt stjórnstöð öryggisgæslufyrirtækis fari í gang. Strax og slík boð fara í gang eru gerðar viðeigandi ráðstafanir. Við kerfið eru einnig tengdir nemar sem skynja hita og reyk og gera viðvart. Berist slík boð er þegar í stað haft samband við slökkvilið. Á efri hæð hússins eru rakaskynjarar. Verði leki eða springi lagnakerfi berast boð til viðvörunarkerfisins sem sendir þau áfram. Rakaskynjarar eru einnig í ljósmyndastofu á jarðhæð hússins. Vinnupallar standa við austurhlið hússins. Við þá eru tengdir nemar sem senda boð um óviðkomandi umgang.
    Brunavörnum innan húss er þannig háttað að handslökkvitæki eru á nokkrum stöðum og brunaslöngur tengdar vatnslögn hússins eru á hverri hæð. Fyrir sýningarsölum eru járnhurðir en ekki er um aðra hólfun að ræða. Að mati þjóðminjavarðar þarf enn að auka öryggisbúnað hússins og opna leið út úr húsinu á suðurgafli. Skortur á viðhaldi hússins um langt árabil hefur skapað ákveðna öryggisáhættu, einkum hvað varðar rafmagn og hitalagnir.
    Í Sjóminjasafni Íslands í Hafnarfirði, sem er deild í Þjóðminjasafninu, eru nýleg eldvarnarkerfi og eldtefjandi plötur voru settar í veggi við endurbyggingu hússins fyrir nokkrum árum. Brunaslöngur og slökkvitæki eru í húsinu ásamt brunakerfi sem tengt er Slökkvistöð Hafnarfjarðar. Innbrotakerfi frá öryggisgæslufyrirtæki er einnig í húsinu.
    Í Nesstofu á Seltjarnarnesi er verið að setja upp innbrotakerfi. Í geymslu Þjóðminjasafns í Vesturvör í Kópavogi er brunaviðvörunarkerfi tengt slökkvistöð. Áformað er að setja þar upp innbrotakerfi. Með geymslu Þjóðminjasafnsins í Dugguvogi er reglulegt eftirlit ákveðins aðila sem hefur með öryggisvörslu í hverfinu að gera. Ákveðið hefur verið að auka öryggisvarnir í Dugguvogi, enda liggur fyrir nýleg öryggisúttekt á húsnæðinu.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um öryggismál á öllum byggðasöfnum. Sérfræðingar Þjóðminjasafns Íslands hafa á undanförnum missirum heimsótt hvert byggðasafnið af öðru og gert þar allsherjarúttekt, þar á meðal hvað varðar öryggisbúnað og eldvarnir. Skýrslur liggja fyrir um 14 byggðasöfn og nokkur önnur minjasöfn. Víðast hvar hefur brunavarnaúttekt einnig verið gerð á vegum eldvarnaeftirlits eða Brunamálastofnunar á síðustu árum. Aðeins er innbrota- og viðvörunarkerfi tengt lögreglu eða slökkviliði á fjórum þessara byggðasafna.
    Undantekningarlítið eru handslökkvitæki í söfnunum. Þjóðminjasafn Íslands á eða hefur umsjá með á fjórða tug friðaðra húsa og kirkna víða um land. Mörg þessara húsa eru torfhús án rafmagns og sum fjarri alfaraleið. Ekki er hægur leikur að koma þar við brunavörnum eða innbrotakerfi og óhugsandi sums staðar. Saman tekið er niðurstaða þjóðminjavarðar sú að auka þurfi öryggisbúnað í geymslum Þjóðminjasafns eins og unnið hefur verið að og gera átak í brunavörnum og öðrum varnabúnaði og byggðasöfnun. Bruninn í bátaskýli Þjóðminjasafnsins í Kópavogi aðfararnótt 23. apríl sl. gefur enn fremur tilefni til þess að allt öryggiskerfi safnsins verði vandlega yfirfarið og nýjar tæknilegar úrlausnir skoðaðar.
    Ég hef fengið bréf frá Þór Magnússyni þjóðminjaverði þar sem hann gerir grein fyrir aðdraganda byggingarinnar sem eyðilagðist í eldinum í Kópavogi. Eftir að hafa sagt frá bátum sem Þjóðminjasafnið hafði eignast á undanförnum áratugum og hvernig geymslu þeirra hafði verið háttað segir svo í bréfi Þórs Magnússonar:

    ,,Er Þjóðminjasafnið fékk umráð yfir stórri skemmu við Vesturvör í Kópavogi og lóð umhverfis voru bátarnir sem voru í Viðey og aðrir úti fluttir þangað. Voru þeir settir inn í skemmuna í Kópavogi 1990 en þar sem hún var frekar ætluð til geymslu annarra hluta og bátarnir fóru ekki vel inni í heitu og þurru húsi fékkst að reisa einfalt skýli á lóðinni í Vesturvör. Var það hannað sem vandað bráðabirgðaskýli, ekki eiginlegt hús heldur nánast sem rimlahjallur með sterkri grind, járnþaki og klæðning niður á veggi en rimlum fyrir neðan. Skýlið var læst, vindur lék vel um og bátarnir voru varðir gegn snjó og regni, þornuðu hægt og áttu ekki að skemmast frekar. Fékkst leyfi fyrir þessari byggingu hjá Kópavogskaupstað sem bráðabirgðaskýli en eiginlegt hús var ekki farið fram á að reisa því að svæðið var ekki skipulagt. Varanleg bygging hefði þurft að taka mið af skipulagi. Geymslan var ódýr því að kostnaði varð að halda innan marka en þó þjónaði hún mjög vel tilgangi sínum meðan allt var með felldu. Þessi bátageymsla var reist innan læstrar girðingar og átti engin mannaferð að vera þar um. Bátarnir voru settir inn í hana jafnóðum og hún var reist. Sumir stóðu á malarfyllingunni en aðrir minni hafðir uppi á bitum því að reynt var að nýta plássið vel, enda gert ráð fyrir að um 20 bátar kæmust þarna inn og voru 18 settir þangað. Ekki voru hafðar stórar dyr á skýlinu þar eð ekki var get ráð fyrir að bátar yrðu teknir úr því fyrr en þeir yrðu settir á endanlegan stað, en hefði þess þurft var gert ráð fyrr að skrúfa frá stoðir og bita og hefði það tekið einhverja klukkutíma að opna skýlið þannig og ganga frá því aftur. Hins vegar átti að vera rúm til að gera við eða lagfæra báta þarna inni. Ekkert rafmagn var í skýlinu né upphitun og átti engin hætta að vera þar af íkviknun innan frá. Ekki hvarflaði að mönnum að kveikt kynni að verða í skýlinu því að óviðkomandi mannaferð yrði engin þar. Þar væri engra verðmæta að leita og ekki talið að neinn sæi tilgang í að brjótast þar inn og vinna spellvirki. Því var ekki settur sérstakur viðvörunarbúnaður í skýlið, en eldviðvörunarkerfi tengt slökkvistöð var hins vegar í skemmunni stóru á lóðinni.``
    Ég kemst því miður ekki lengra. Ég vil aðeins greina frá því að ég hef ritað Brunamálastofnun ríkisins bréf þar sem ég hef farið fram á að Brunamálastofnunin hlutist til um úttekt á brunavörnum í Þjóðminjasafni Íslands og sérsöfum þess, geymslum Þjóðminjasafnsins og byggðasöfnum um allt land. Einnig í ríkissöfnum í samráði við forstöðumenn þeirra, þ.e. Landsbókasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Listasafn Íslands, Listasafn Einars Jónssonar og Blindrabókasafn Íslands.