Gæsla þjóðminja

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:53:33 (7752)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör. Þau sýna að einhver hreyfing er komin á þessi mál og eins og búast mátti við er auðvitað fyrsta skrefið að gera úttekt á stöðu þessara mála. En það verður að fylgja því eftir, fyrst og fremst með fjárveitingum þannig að söfnin geti búið svo um hnútana að þær minjar sem þau varðveita geti talist örugg. Ég vil minna á það að þessi mál eru auðvitað ekki einhlít því að úti á landi tíðkast það sums staðar, a.m.k. á Akureyri, þar sem varnir eru nú í þokkalegu lagi eftir því sem mér er sagt, að þar er söfnunum gert að greiða gjald fyrir þá þjónustu sem bæjarfélagið veitir. Þar vill svo til að Nonnahús er í varðveislu ákveðins félags þar í bæ og það hafa vaknað upp spurningar um það hvernig þetta félag eigi að standa undir þessu gjaldi. Minjasafnið á Akureyri greiðir 60 þús. kr. á ári í gjald fyrir þá þjónustu sem bæjarfélagið veitir við brunavarnir. Það þarf því líka að huga að því að söfnunum sé hreinlega kleift að borga fyrir þá þjónustu sem brunavarnir kalla á.
    En ég vil minna á að þetta mál snýst ekki eingöngu um brunavarnir eins og hér hefur komið fram. Það er margs konar önnur varsla sem við þurfum að huga að því að það er ekki öðruvísi en með víðtækum vörnum sem við getum varðveitt okkar menningararf. En aðalatriðið er auðvitað að læra af fenginni reynslu og að við stöndum hér sameiginlega að því að bæta úr þessu með því í fyrsta lagi að fá vandaða úttekt á stöðu þessara mála og í öðru lagi með því að fylgja henni eftir með auknum fjárveitingum.