Skaðabótalög

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 17:14:26 (7759)


     Frsm. minni hluta allshn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta allshn. um frv. til skaðabótalaga en það er að finna á þskj. 1061. Svo sem fram kom í framsögu frsm. meiri hluta allshn. þá er minni hlutinn einnig hlynntur þessu frv. og telur það raunar mjög til bóta. Það er ekki af þeim sökum að minnihlutaálit kemur hér fram, heldur vegna þess að innan allshn. voru nokkuð mismunandi áherslur og kaus minni hlutinn að gera grein fyrir sínum áherslum í sérstöku nefndaráliti. Þykir raunar rétt að geta þess að um sumar athugasemdirnar voru einstakir nefndarmenn í allshn. sammála en minni hlutinn kaus að koma fram sjálfstæðu áliti til þess að hafa frjálsar hendur um að túlka þessi sjónarmið og þar er því um meginatriði að ræða.
    Ég vík þá að nál. og get þess raunar að það eru einstök atriði sem e.t.v. áttu ekki erindi í nál. sem skýra nánar það sem þar stendur.
    Minni hluti allshn. styður þá grundvallarbreytingu sem lagt er til að gerð verði á greiðslum vegna varanlegrar örorku. Breytingin felst í því að greiðslur vegna varanlegrar örorku miðast við áætlað tekjutap í stað þess að miðast við læknisfræðilegt mat. Þetta er auðvitað grundvallarbreytingin og eftir mikla og ítarlega skoðun held ég að flestir geti verið sammála um að hún er til góðs. Frsm. meiri hlutans gerði býsna vel grein fyrir því en ég veit að það hefur komið nokkur gagnrýni fram hjá einstökum aðilum á þetta fyrirkomulag. Ég held að þorri fólks, sem um þetta hefur fjallað og tjáð sig um það, sé engu að síður sammála þessari kerfisbreytingu. Stærsta breytingin sem verður er sú að bætur munu yfirleitt hækka til þeirra sem lenda í alvarlegum slysum en í mörgum tilfellum lækka vegna minni háttar skaða. Þar er komin skýringin á því að samkvæmt mjög lauslegu mati er talið að almennt muni bótagreiðslur lækka. Það eru vissulega skiptar skoðanir um það hvort um ofmat sé að ræða í einstökum atriðum. Ég verð að viðurkenna að umræðan sem verið hefur ekki síst á vegum tryggingafélaganna um fjölgun bótagreiðslna vegna hálshnykkja, hefur svo sem ekki sannfært mig um að þar sé endilega um eitthvert stórfellt vandamál að ræða. Engu að síður fellst ég á þau sjónarmið sem þarna eru til grundvallar, að ástæða sé til að breyta þessu.
    Vissulega er alltaf erfitt að leggja mat á hvað er mikill skaði og hvað er lítill skaði. Minni hluti allshn. tekur fram í nál. til glöggvunar eftirfarandi:
    ,,Munur á bótum vegna mikils varanlegs miska, svo sem lömunar og minni áverka, svo sem fingurmissis, hefur oft á tíðum verið of lítill . . .  ef tekið er tillit til þess hve gífurlegur aðstöðumunur er milli þess sem er bundinn hjólastól og hins`` --- sem þó skaðast ekki meira en það að missa fingur og vissulega kemur það mishart niður á fólki. ,,Samkvæmt ákvæðum 5. gr. frv. er auk þess tekið tillit til þess hvernig skaðinn snertir hvern og einn. Píanóleikari, sem missti fingur, mundi samkvæmt því vera metinn með mun meiri örorku en skrifstofumaður. Gera má ráð fyrir að munurinn gæti orðið allt að 40%`` --- og það merkir 0--40%, en þarna er ég að vísa til kafla 4.1 í athugasemdum við frv.
    ,,Handverksmaður mundi með sömu rökum vera metinn til hærri örorku en forstjóri. Samkvæmt núgildandi lögum væri varanleg örorka þeirra allra fjögurra sú sama eða (u.þ.b. 10%)`` --- mun vera algengast nú. ,,Möguleikar þeirra til að stunda áfram fyrra starf sitt væru hins vegar mjög ólíkir og því má segja að skaði þeirra sé mismikill``.
    Þessari meginhugsun er minni hlutinn sammála. Ég tek einnig undir það dæmi sem var rakið hér í fyrri ræðu. Þá vil ég víkja að því hvernig þetta frv. kemur við ungt fólk og útivinnandi konur. Það hefur verið bæði mikil umræða um það og ekki síður, þá eru nokkrar breytingar þarna á.
    Þær breytingar hafa verið gerðar á frv. frá því það var lagt fram á 115. löggjafarþingi að grunnur bóta vegna örorku hefur verið hækkaður úr sexföldum árslaunum tjónþola í 7,5 föld árslaun. Jafnframt hefur það verið gert að taka meira tillit til aldurs tjónþola en þetta er ein af þeim ábendingum sem komu fram við 1. umr., í fyrri gerð þessa frv. Ég vil m.a. vekja athygli á því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði þetta að umtalsefni og benti á ákveðin atriði sem mér finnst að nú hafi verið tekið tillit til með ákveðnum hætti. Það hefði vissulega verið hægt að hugsa sér ýmsar leiðir að því marki en mér þykir að þarna hafi verið stigið skref í átt til þess að reyna að mæta þessum ábendingum og þeim atriðum sem vissulega má skoða.
    Það má m.a. líta þarna á ,, . . .  að tíminn sem ungt fólk býr við örorku er oftast lengri en hinna eldri. Unga fólkið á í flestum tilvikum eftir að fjárfesta í húsnæði og bera annan kostnað sem þeir eldri hafa oftar en ekki að baki. Minni hlutinn telur og að með þessari breytingu sé komið til móts við ábendingar um að ungt útivinnandi fólk hafi að öðru jöfnu ekki haft tíma til að vinna sig upp í sömu tekjur í starfi

og hinir eldri. Hér er því tekið tillit til þess að ætla má að í framtíðinni muni ungt fólk hafa möguleika á að afla sér meiri tekna en þegar það er nýskriðið úr skóla``.
    Undir þessa hugsun vil ég taka og það eru mér jafnframt vonbrigði að ekki var hægt að fylgja þessari hugsun eftir að öllu leyti. Ég kem að því seinna en þar er ég að tala um að í frv. er í rauninni enn þá innifalinn sá launamunur sem nú er á milli kynja en ég vík betur að því á eftir. Mig langar að taka eitt fram í viðbót varðandi unga fólkið. Unglingar eiga yfirleitt ekki rétt á lífeyri úr lífeyrissjóði. Þeir sem slasast þegar þeir eru komnir til starfa eiga slíkan rétt. Þarna er enn eitt atriðið sem gerir stöðu unga fólksins og hinna eldri mismunandi.
    Það hafa verið reiknuð út allmörg dæmi einmitt til þess að reyna að glöggva sig á því hvernig þessi mál munu líta út. Ég held að þau dæmi sýni betur en flest annað að þarna hefur verið unnið að því eftir bestu getu að rétta hlut þeirra sem helst þurfti að hugsa um. Þeirra sem njóta samkvæmt núgildandi kerfis ekki þeirra réttinda sem kannski væri eðlilegt. Ég tek undir þær breytingar sem hafa verið gerðar, bæði frá núverandi fyrirkomulagi og yfir til þess sem var í hinu upprunalega frv., og ekki síst eftir að því var breytt því þá urðu þau skil sem virkilega skiptu máli.
    Ég verð hins vegar að geta þess, og geri það í nál., að ein helsta ástæðan fyrir því að ég kaus að vera með sérálit er sú að þessari hugsun hefur ekki, alla vega enn sem komið er, reynst unnt að fylgja eftir hvað konur varðar. Í þessu frv. er ekki tekið tillit til framtíðarinnar hvað varðar tekjur kvenna. Grunnur bótagreiðslna eru að jafnaði tekjur næstliðins árs, en það er rétt að taka fram að við sérstakar aðstæður er gert ráð fyrir leiðréttingum ef tekjur næstliðins árs gefa ekki rétta mynd af tekjum eins og þær hafa verið. Þau ákvæði eru einnig að finna í þessu frv.
    Tekjur kvenna eru nú í flestum stéttum um það bil 70% af tekjum karla og munurinn er raunar því meiri sem um tekjuhærri stéttir er að ræða. Þetta hefur verið vefengt en það eru til tölfræðileg gögn sem sýna, svo ekki verður um villst, að þetta er rétt. Þarna er ég ekki að tala um samanburð á milli þeirra sem stunda hlutastörf og fulla vinnu eða á milli mismunandi vinnutíma, heldur hreinlega um raunverulegan tekjumun sem verður ekki nema að mjög litlum hluta skýrður með lengri starfsaldri og slíkum eðlilegum rökum. Það sem eftir stendur, ég ætla ekki að slá á það sérstaklega, það má kannski hugsa sér að það sé hægt ef allt er tekið til að tala um að tekjumunurinn sé eitthvað um 20%, en það sem eftir stendur er hreinlega munur vegna kyns.
    Nú finnst mér rétt að taka það fram að í allra lægst launuðu stéttunum er þessu ekki alveg svona háttað. Þar er tekjumunur minnstur en þar eru líka tekjurnar svo smánarlegar að það er varla að maður geti rætt um þær. Þær eru varla þannig að hægt sé að koma þeim í orð. Á þessum skekkta grunni byggjast bótagreiðslur til kvenna, eins og sakir standa, og þar virðist vera hægt að gera ráð fyrir því að svona muni ástandið verða um aldur og ævi. Ég ætla nú að vona að það verði ekki. Vissulega hefur okkur miðað hægt í baráttunni fyrir jöfnum tekjum karla og kvenna, en ég vil ekki vera slík bölsýnismanneskja að ætla að svo verði. Ég bendi því á að þótt tekjumunur milli kynja yrði að engu orðinn eftir 15 ár, þá mundi konan sem slasast nú ekki njóta þeirra breytinga til jafns við kynsystur sínar sem áfram eru á vinnumarkaðinu. Þarna er kannski að finna alvarlegan ágalla á frv. Ég er ekki að segja að það sé auðvelt verk að bæta úr þessu. En ég tel engu að síður að það hafi ekki verið reynt til þrautar.
    Minni hlutinn spurðist fyrir um möguleika á því að setja t.d. endurskoðunarákvæði inn í frv. til þess að hægt væri að endurmeta tekjutap í ljósi breyttra aðstæðna t.d. eftir ákveðinn árafjölda. Sú fyrirspurn var gerð með konurnar sérstaklega í huga, en vissulega mundi slíkt ákvæði gagnast fleirum. Nú er það ljóst að tekjur stétta eru mjög mismunandi og er þarna kannski ákveðin leiðrétting sem er ekkert síður brýn heldur en leiðrétting vegna stórfelldra breytinga á því mati sem lagt er til grundvallar, þ.e. læknisfræðilegu mati. Við erum að taka inn breytingu frá læknisfræðilegu mati yfir í að meta fjárhagslegt tjón og gera þar grunninn að þessum stærstu bótagreiðslum og það er ekkert óeðlilegt að maður íhugi þetta. En ég ítreka það að ég geri mér engar grillur um að þetta sé létt verk, síður en svo.
    Ekki reyndist vilji innan nefndarinnar til að kanna þessa leið nánar þar sem slíkt var talið mjög erfitt í framkvæmd. Að vissu leyti skil ég þá afstöðu. Ég er ekki með þessu að ásaka aðra nefndarmenn fyrir að hafa ekki haft vilja til þess að gera þetta. Þarna er einfaldlega um að ræða að þetta er mikið starf og áherslur fólks eru misjafnar. Ég tek undir það með öðrum nefndarmönnum að ég tel að frv. eigi að komast í gegn. Mér finnst réttarbót af því og mér finnst þess vegna að það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að greiða götu þess.
    Ég vil benda á það að unnt er að taka tillit til sérstakra aðstæðna þegar bætur eru ákveðnar, sbr. 2. mgr. 7. gr. frv. og um það gat ég raunar áðan. En slíkt mat, sem yrði öðruvísi en að miða við tekjur næstliðins árs, miðast við tekjur áður en slys á sér stað en ekki mat á framtíðartekjum. Einnig er í 11. gr. kveðið á um að tjónþoli geti fengið endurmetinn miska sinn eða örorku en þar er aðeins gert ráð fyrir því að það sé hægt vegna læknisfræðilegra ástæðna en ekki fjárhagslegra.
    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að leita leiða til að koma inn í íslenskan skaðabótarétt ákvæðum um að hægt sé að fá fjárhagslegt tjón endurmetið í ljósi nýrra aðstæðna ekki síður en læknisfræðilegt tjón. Nokkuð virðist skorta á að slíkt réttlætismál njóti skilnings eins og sakir standa og því þarf að finna viðunandi tæknilega útfærslu og vinna hugmyndum stuðning ef unnt á að vera að leiðrétta þennan ágalla frv. Það er mjög brýnt að mati minni hlutans.

    Ég tek þau rök ekki gild að þetta sé óframkvæmanlegt. Ég trúi ekki öðru en að þetta sé framkvæmanlegt en ég ítreka að ég læt mér ekki detta það í hug að þetta sé auðvelt frekar en annað mat sem fellur hér undir. Það er kannski kjarni málsins. Þetta eru mjög viðkvæm mál og þetta eru mjög erfið mál en jafnframt er leitast við að hafa réttlætið að leiðarljósi og þessi kerfisbreyting er vissulega með það í huga. Þess vegna tel ég að við eigum að taka visst frumkvæði því mér er ekki kunnugt um að aðrar þjóðir hafi slík endurskoðunarákvæði í lögum sínum og ég held að það sé alveg óþarfi að binda sig við það að aðrir hafi ekki gert þetta. Við erum fyrst og fremst að ræða um réttlæti og ef um litlar sveiflur er að ræða er ég að sjálfsögðu ekki að tala um að það þurfi að taka þetta upp heldur aðeins ef verulegar breytingar verða t.d. á tekjumuni milli kynja eða tekjum einstakra stétta. Það grundvallarviðmiðun og það er þekkt í upphafi hver grundvallarviðmiðun er.
    Ég vil þá víkja næst að stöðu nema og heimavinnandi fólks og raunar barna einnig. Í 8. gr. frv. er fjallað um bætur til þeirra sem njóta ekki vinnutekna. Stærstu hóparnir sem falla undir þessa grein eru börn, ungmenni í námi og heimavinnandi fólk. Í frv. er farin sú leið að hafa bætur til þessara hópa staðlaðar og miðaðar við miskastig. Ef skilningur minn í umfjöllun nefndarinnar er réttur, og ég held að ég hafi gengið úr skugga um það mjög kyrfilega, á ekki að vera hægt að ákvarða konum og körlum mismunandi bætur eins og væri hægt ef miðað væri við áætlaðar meðaltekjur hvors kynsins fyrir sig á vinnumarkaði. Þetta telur minni hlutinn mjög mikilvægt. Því má segja að meira jafnræðis gæti milli kynja þegar í hlut á fólk sem hefur ekki atvinnutekjur en meðal útivinnandi fólks. Raunar er hlálegt að þetta er eitt af því sem er gagnrýnt við frv. Kannski ekki berum orðum en vissulega er til sú gagnrýni að t.d. heimavinnandi fólki séu áætlaðar of háar bætur. Undir það get ég að sjálfsögðu ekki tekið.
    Hins vegar geta komið upp nokkuð mismunandi aðstæður ef fólk er í hlutastörfum. Þá má segja að sá sem er í starfi sem er að minni hluta útivinna og að meiri hluta heimavinna komi betur út ef tekjurnar fyrir útivinnu eru lágar en sá sem er í starfi utan heimilis og hefur það að aðalstarfi og heimavinnu að aukastarfi.
    Til glöggvunar birtir minni hlutinn nokkur dæmi til skýringar er hann fékk sérstaklega reiknuð í framhaldi af umræðum innan allshn. Þau held ég að segi raunar þá sögu sem segja þarf. Þar eru bornar saman bætur sem 35 ára húsmóðir í 30% eða 60% starfi utan heimilis fengi samkvæmt núgildandi reglum og samkvæmt frv. Dæmin eru reiknuð út frá þrenns konar vinnutekjum, þ.e. mismunandi háum. Hér er vitanlega um tilbúin dæmi að ræða en þau ættu að gefa nokkra mynd af veruleikanum og ég ítreka að þar sem nú er bara til skaðabótaréttur en ekki heildstæð skaðabótalög varð að sjálfsögðu að gefa sér ákveðnar forsendur varðandi dæmin sem taka mið af því hvernig þetta er núna. Ég tel engu að síður að þessi dæmi gefi nokkuð raunsanna mynd af veruleikanum. Í dæmunum er ekki tekið tillit til bóta frá lífeyrissjóðum, það tel ég rétt að komi fram, og ekki er getið um aðrar bætur en fyrir varanlega örorku núna en þetta er grunnurinn, ekki síst varðandi núverandi hátt. Síðan má geta þess að vitanlega bætast við miskabætur og fleira, þar á meðal bætur vegna útlagðs kostnaðar. En ég vil benda þeim sem vilja skoða þetta nánar á fskj. sem birt er með nál.
    Ég mun örlítið hlaupa á þeim tölum á eftir en ég ætla að klára að fara í gegnum áhersluatriði nál.
    Ljóst er að heimavinnandi fólk fær í sumum tilvikum hærri bætur en láglaunafólk og minni hlutinn telur eðlilegt að meta heimilisstörf á annan hátt en að miða við lágmarkstaxta eins og allt of oft er gert. Minni hlutinn styður því þá leið sem valin er í frv. Hins vegar sýna þessi dæmi hvílík smánarlaun eru greidd á vinnumarkaði og ítreka þá staðreynd að konur fylla láglaunahópana hvar í stétt sem þær standa.
    Í þessu frv. er ekki tekið á því hvernig bætur skila sér til tjónþola. Möguleikar á innheimtu bóta eru mismunandi eftir því hvort tjónþoli lendir í bílslysi eða verður fyrir árás misindismanns sem er ekki borgunarmaður fyrir dæmdum bótum. Það hlýtur að vera næsta verkefni í skaðabótarétti að bæta úr þessum ágalla. Raunar finnst mér rétt að benda á að að þessu hefur verið hugað nokkuð innan allshn. svo sem kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv. er hún mælti fyrir nál. meiri hlutans.
    Minni hlutinn styður frv. í heild en telur rétt að benda á þessi atriði öðrum fremur við afgreiðslu málsins. Undir nál. rita ég, Anna Ólafsdóttir Björnsson, og er ein í þessum minni hluta en ég tek það fram að sumar af þessum skoðunum fengu raunar hljómgrunn innan nefndarinnar og að hluta til er auðvitað um sömu atriði að ræða og í meirihlutaálitinu.
    Mig langar aðeins að hlaupa á þeim tölum sem hér fylgja. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því að fólk, sem hefur áhuga, geti kynnt sér það nánar. Það er athyglisvert hve mikill munur er bæði á núgildandi rétti en 35 ára húsmóðir, sem hér hefur verið valin til þess að gefa einhverja hugmynd, með 100% örorku fær nú ef hún er í 30% starfi utan heimilis u.þ.b. 3,5 millj. ef hún hefur tekjur í kringum 70 þús. kr. á mánuði. Þarna er raunar best að taka það fram að þarna er verið að tala um tekjugrundvöll, ekki að hún fái þessar 70 þús. fyrir 30% starfið heldur að þetta séu tekjurnar fyrir fullt starf og síðan er starfshlutfallið reiknað þar af. Rétt að taka það fram til þess að það verði örugglega ekki nokkur misskilningur. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir því að nokkur maður hafi misskilið þetta.
    Samkvæmt þessu frv. mun hagur hennar vænkast töluvert ef hægt er að tala um að hagur fólks sem verður fyrir því óláni að lenda í alvarlegum slysum vænkist yfir höfuð, en að minnsta kosti má segja að bætur þessarar húsmóður sem er með 70 þús. kr. grunn í starfi sínu utan heimilis verði um 14,4 millj. samkvæmt þessum útreikningi og það er 8. gr. frv. sem þar er vísað til.

    Aftur á móti ef hún er í 60% starfi, þ.e. vinnur meiri hluta síns starfs utan heimilis má segja að þessi kona komi mun verr út og þá yrðu bætur hennar samkvæmt þessu frv. núna, þá er það 6. gr. sem vísað er til, um 5,7 millj. á móti 14,4 millj. Þarna er náttúrlega um verulegan mun að ræða og hann felst í því að þarna er viðmiðunin orðin smánarlega lág laun. Samt sem áður fengi hún hærri bætur samkvæmt þessu frv. en hún fengi miðað við núgildandi rétt. Þarna er í rauninni vísað til skaðabótaréttar og þar munar um meira en hálfa milljón. Ég vil því geta þessa sérstaklega.
    Aftur á móti má segja að ef launagrunnurinn fyrir fullt starf er 130 þús. kr. á mánuði þá standa þær sem eru í 30% og 60% vinnu utan heimilis nær hvor annarri, þar er um sömu upphæð að ræða fyrir 30% starfið, 14,4 millj. en 10,5 millj. fyrir þá sem er í 60% starfi utan heimilis. En það er ekki fyrr en tekjugrunnurinn er orðinn um 200 þús. kr. að sú sem vinnur utan heimilis kemur betur út úr þessu og fær um 16,2 millj. á móti þessum 14,4 millj. sem alltaf eru þær sömu hjá þeirri sem er í 30% starfinu.
    Um þetta má náttúrlega deila og ég skal alveg viðurkenna að alltaf er dálítið erfitt og vandasamt að eiga við svona en samt sem áður tek ég undir það mat sem lagt er til grundvallar þarna og það vægi sem heimilisstörf fá í þessum grunni. En þetta er kannski eitt af því sem hægt er að gagnrýna við þetta frv. en mér finnst það hreinlega ekki réttlátt. Þá má frekar gagnrýna þau lágu laun sem eru greidd innan samfélagsins. Mér finnst að menn eigi frekar að skeyta skapi sínu á þeim en að hafa áhyggjur af því að einhver fái of mikið. Ég held að þarna sé hreinlega um það að ræða að búið er að skerða starfsgetu fólks og það er hreinlega verið að sýna fram á það. Sú sem væri útivinnandi geldur þess ef hún er í lágt launuðu starfi.
    Þá er ég aftur komin að því að í flestum tilvikum mundi karlmaður fara betur út úr slíkum útreikningi --- það getur verið að það sé núna á þessum seinustu atvinnuleysistímum en það var varla um það að ræða áður að karlmenn væru á svona lágum launum. Það var hreinlega ekki til. Ekki er nema hálft annað ár síðan sú tölfræði lá fyrir að u.þ.b. tvær af hverjum þremur konum þægju laun eftir taxta og taxtinn er yfirleitt lágur en aðeins einn af hverjum þremur körlum. Ég vona karlanna vegna að þetta hafi ekki breyst mjög mikið, að þetta sé svona núna líka en það má vera að atvinnuleysið hafi eitthvað breytt þessu.
    Það er spurning varðandi þær ábendingar sem hafa komið fram í þessu. Ég hef kosið að takmarka mig við grundvallarhugsunina í þessu frv. Auðvitað eru ákveðin atriði varðandi þá nefnd sem mun meta örorku sem ugglaust eiga eftir að koma til skoðunar aftur. Við vitum að nokkur titringur hefur verið í kringum tryggingalækna og ég ætla út af fyrir sig ekki að fara í það mál. Ég hafði nokkrar efasemdir um það að hafa svo fámenna nefnd, þriggja manna nefnd, sem hæstarétt í þessu máli. Fyrir því eru gild rök, bæði með og á móti. Rökin með því að hafa nefndina þetta fámenna eru þau að það er ætlast til þess að hún sé skilvirk og gert er ráð fyrir því að það geti mjög mikið komið til kasta þessarar nefndar. Fyrst og fremst mun hún náttúrlega hafa mikið starf til að byrja með á meðan verið er að móta þann grunn sem við síðar munum byggja á. Þá verð ég að beygja mig fyrir þeim rökum að á meðan mikið mæðir á slíkri nefnd þá skiptir miklu máli að hún sé vel virk. Hún sé skilvirk og að auðvelt sé að starfa innan þeirrar nefndar.
    Vegna þess að ég hygg að það gæti einstaka sinnum svolítils misskilnings varðandi bótaábyrgð starfsmanns sem getið er um í 23. gr. vil ég geta þess að ég er sammála og tek undir að það er réttlætissjónarmið sem ræður því að skaðabótaábyrgð starfsmanns gagnvart tjónþola er ekki meiri en svo að hann hafi getu til þess að greiða en þetta á að sjálfsögðu ekki að þýða að það bitni á þeim sem verður fyrir tjóninu því að þarna er milliliðurinn sem er vinnuveitandinn. Vinnuveitandinn á ekki endurkröfurétt nema að því leyti að hægt sé að ætlast til með einhverri sanngirni að starfsmaðurinn geti borgað. Mér finnst þetta skipta verulegu máli, ekki síst í ljósi þess að við erum á sama tíma að taka þá umræðu hvort ekki sé ástæða til þess að tryggja þeim bætur sem verða fyrir miska jafnvel þó að það þýði einhver útgjöld fyrir ríkissjóð, og þurfa að fara að innheimta miskabætur frá þeim misindismanni sem olli skaðanum enda þótt ég vilji alls ekki jafna því saman ef starfsmaður verður valdur að skaða þó það sé vegna saknæmrar hegðunar, eins og stendur í 23. gr., það er oft og tíðum samt sem áður óviljaverk. Þetta getur verið röng umgengni við vélar og þetta getur verið ýmislegt sem kannski er út af fyrir sig saknæm hegðun en engu að síður langt frá þeim dæmum sem við höfum um misindismenn og ofbeldismenn sem valda öðrum skaða. Ég tala ekki um þegar t.d. er um að ræða kynferðisafbrotamenn sem valda óbætanlegum skaða í sumum tilvikum. En ekki síst vegna þess að við erum taka þetta í þessu víða samhengi vil ég geta þessa sérstaklega.
    Því er ekki að leyna að mismikil ánægja er með þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. milli ára. Ég er sjálf í hópi þeirra sem eru hlynntir öllum þeim breytingum sem gerðar hafa verið frá því að frv. var lagt fram á 115. þingi. Ég veit að af hálfu tryggingafélaganna þykir þeim lakara hverjar breytingar hafa verið gerðar en samt sem áður þykir þeim réttarbót og mikil bót af þessu frv. og styðja það. Þeir vildu kannski sjá meira af gamla frv. og minna af því nýja í þessari útfærslu en stuðningurinn er þarna samt sem áður fyrir hendi. Einnig gerði Tryggingaeftirlitið kannski svolítið sérkennilega athugasemd við hina nýju gerð frv. og reyndar hafði athugasemdir við fyrri gerðina líka, en í umsögn Tryggingaeftirlitsins sem dags. er þann 16. apríl sl. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verði eigi fallist á þær athugasemdir sem Tryggingaeftirlitið setti fram á fyrri stigum máls þessa og ekki hefur verið tekið tillit til, leggur Tryggingaeftirlitið áherslu á nauðsyn þess að frv. verði samþykkt

í þeirri mynd sem það hér liggur fyrir.
    Það er mikilvægt samanber síðari umfjöllun að eigi dragist að samþykkt verði skaðabótalög hér á landi.``
    Í svipaðan streng taka raunar fleiri að jafnvel þótt menn hafi mismunandi ábendingar og áherslur og þær eru ekki allar í sömu átt, það er nú rétt að geta þess, þá eru flestir, sem gagnrýna kannski einhverja einstaka þætti þessa frv., á því að það sé nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. jafnvel þótt þeirra athugasemdir verði ekki teknar til greina.
    Ég hef vissulega ekki farið yfir allt það sem máli skiptir í þessu viðamikla frv. en ég held þó að reynslan muni verða besti dómarinn varðandi þetta frv. og hvernig það mun virka ef að lögum verður og ég geri ráð fyrir að flestir muni greiða fyrir því að þetta frv. verði að lögum. Við höfum möguleika á því að taka upp einstaka þætti, en í meginatriðum held ég að það sé hægt bæði ef dæma á eftir reynslu nágrannalandanna og eftir þeirri umfjöllun sem hefur verið innan nefndarinnar að ætla að að þessu frv. verði mikil réttarbót.