Skaðabótalög

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 17:55:56 (7761)

     Frsm. minni hluta allshn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í þessu andsvari held ég að hafi kristallast kannski sú eina verulega áherslubreyting sem er á milli mín og líklega flestra í meiri hluta allshn. að ég er ekki tilbúin að fallast á að þetta sé ekki hægt, en vissulega tek ég undir það að það er erfitt. Ég hef hins vegar svo oft mætt því viðhorfi að þetta og hitt sé ekki hægt í tilverunni að ég er ekkert reiðubúin að taka undir það svona að öðru jöfnu. Og ég held að ef vilji er fyrir hendi, þá sé hægt að komast býsna langt.
    Ég ætla nú ekki að fara að leggja upp enn einu sinni með þá góðkunnu tilvitnun í ljóð þjóðskáldsins sem margoft hefur komið hér fram að vilji er allt sem þarf. Ég veit að það þarf töluvert meira hér til. Það þarf flóknar, tæknilegar útfærslur en það byrjar auðvitað á því að taka þá ákvörðun að það þurfi að gera ákveðna leiðréttingu jafnvel þótt það sé erfitt og jafnvel þó að öðrum hafi ekki tekist það.