Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 18:02:55 (7763)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er nú farið að vora á ný eftir langan og erfiðan vetur og 1. maí er fram undan innan fárra tíma og því ekki óeðlilegt að þingmenn vilji fara að koma sér til síns heima til að geta haldið upp á baráttudag verkalýðsins sem er svo nauðsynlegt um þessar mundir undir ríkisstjórn Alþfl.
    Ég vildi, virðulegi forseti, láta það koma fram að frá því var greint í þingflokki Alþb. að ákveðið hefði verið á þingfundi í dag lyki kl. 18. Nú er sá tími útrunninn og ríflega það og ég vil segja það við virðulegan forseta að að sjálfsögðu tel ég rétt og skylt af okkur þingmönnum, sem hér sitjum enn í þinghúsi að sinna þingskyldum, að standa við það samkomulag. En ég vil jafnframt láta það koma fram að ég tel afar erfitt fyrir okkur að fallast á að ganga lengra í þinghaldi en um var samið. Ég vil því, virðulegur forseti, inna forseta eftir því hvort ekki sé rétt að þinghaldi eigi að ljúka núna kl. 18 eins og okkur hefur verið frá greint þannig að kostur gefist á því að snúa sér að öðum störfum og sinna heimilum okkar á baráttudegi verkalýðsins. Ég sé það á þingsölum hér og mætingu þingmanna í dag, einkum af hálfu Alþfl. og Sjálfstfl., að þeir eru býsna margir sem þegar hafa tekið forskot á þá sælu. Ég bíð með óþreyju eftir því að hæstv. forseti hleypi okkur hinum sem teljum það nú eiga að ganga fyrir að sinna þingstörfum að komast til okkar heima svo fljótt sem kostur er.
    Ég vil því, virðulegi forseti, endurtaka spurningu mína til forseta hvort ekki standi til að ljúka þingstörfum í dag kl. 18.