Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 18:11:04 (7767)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Þetta hefur verið rætt á fundum með formönnum þingflokka og einnig á fundi í forsætisnefnd þar sem lagður var fram forgangslisti ríkisstjórnarinnar sem var fyrsta plaggið sem fram kemur í þeim efnum. Ekki hefur verið haldinn formlegur fundur með formönnum þingflokka um þann forgangslista vegna þess að verið er að sjá til hvort hægt er að standa við starfsáætlun eins og gert er ráð fyrir á þessari stundu að verði, þ.e. að þingi ljúki um næstu helgi. Og með tilliti til þess er forseti að reyna að nýta tímann til fundarhalda hér eftir því sem hægt er og reynir jafnframt að sýna skilning og sanngirni og vera ekki með kvöldfundi nema nauðsyn krefji. Hér var kvöldfundur í gær. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir fundi í kvöld. Hins vegar var gert ráð fyrir því að vera hér fram eftir degi en alls ekki fram yfir kvöldmat. Forseti hefur ekki upplýsingar um það hvort það mál sem hér var nefnt, sjávarútvegsmálið, komi á dagskrá þingsins eða verði lagt fram og meðan það liggur ekki fyrir er ekki hægt að taka afstöðu til þess hvenær hægt er að ljúka þessu þingi. Þannig standa þessi mál og formenn þingflokka vita að málið er í biðstöðu og væntanlega mun það liggja fyrir strax eða í síðasta lagi eftir helgina hvað verður í þeim efnum.