Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 21:06:13 (7777)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Eldhúsdagur á Alþingi er dagur uppgjörs og reikningskila á þjóðarbúinu. Þá er spurt: Hvar stöndum við, hvert stefnum við? Fyrir réttum tveimur árum var skipt um ráðsmenn á búinu. Þá hafði nýi húsbóndinn, sá sem talaði hér seinast, ófögur orð um ástand efnahagsmála og lofaði að kippa því snarlega í liðinn sem aflaga hafði farið. Nú er helmingur kjörtímabilsins liðinn. Ráðherrar hafa búið við öruggan meiri hluta á þingi, ágætt næði til athafna, algjöran frið á vinnumarkaði. Þótt stjórnarandstaðan hafi að sjálfsögðu nýtt sér málfrelsið svo að ráðherrum hefur stundum þótt nóg um, þá verður ekki með nokkurri sanngirni sagt að nokkur hafi lagt stein í götu þeirra hvorki innan þings né utan. Hvað hefur gerst? Er einhver í þessum sal, er einhver finnanlegur innan þings eða utan, sem heldur því fram í fullri hreinskilni að ástand mála sé nú betra að loknum tveggja ára ferli núv. ríkisstjórnar? Látum staðreyndirnar tala. Fleiri staðreyndir en hæstv. forsrh. treysti sér til að nefna hér áðan.
    Á seinasta heila ári fyrri stjórnar, árinu 1990, var tekjuhalli ríkissjóðs tæp 5% af greiðslugrunni. Á sl. ári, tveimur árum seinna, er tekjuhallinn kominn í tæp 7%. Á seinasta heila ári fyrri stjórnar var hallinn á viðskiptum landsmanna við útlönd 2% en er kominn í tæp 4% tveimur árum seinna. Þegar stjórnarskipti urðu var skráð atvinnuleysi um 1,3% en er nú komið yfir 5%. Það hefur fjórfaldast á tveimur árum. Þetta eru lærdómsríkar tölur um ljótan feril og hljóta að vekja margar spurningar. Hvað er hér að gerast? Hvað veldur þessum hraklega árangri?
    Talsmenn stjórnarinnar segja gjarnan að ört vaxandi atvinnuleysi sé ekki þeim að kenna. Það hefur verið nefnt, og ég ætla að rifja það enn upp, að formaður stjórnar Seðlabankans, fulltrúi Alþfl. þar á bæ, sagði nýlega í ræðu á ársfundi bankans orðrétt, samkvæmt Morgunblaðinu, ,,að ekkert bendi til að atvinnuleysi eigi að vera minna hér á landi en í nálægum löndum þar sem það sé víða 10%.``
    Í Biblíunni stendur: ,,Vindurinn blæs þar sem hann vill, þú heyrir þyt hans, samt veistu ekki hvaðan hann kemur eða hvert hann fer.`` Er það svo í raun og sannleika að hraðvaxandi atvinnuleysi sé eins og einhver óáran í náttúrunni sem enginn fær spornað við? Að sjálfsögðu er það mikil blekking. Að sjálfsögðu má stinga við fótum og stöðva þessa ískyggilegu öfugþróun ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Með þessu er ekki sagt að ríkisstjórnin eigi ein sök á ört versnandi efnahag landsmanna. Viðskiptakjör hafa rýrnað en þau hafa reyndar oft verið verri. Aflatakmarkanir valda einnig nokkru en þó er það staðreynd að heildarafli landsmanna var alls ekki rýr á liðnu ári heldur öllu meiri en seinustu þrjú árin þar á undan. Á móti minnkuðum botnfiskafla kom nú meiri veiði í öðrum verðminni tegundum. Kjarni málsins er sá að vaxandi samdráttur á flestum sviðum, síversnandi afkomu heimilanna, ríkissjóðs og þjóðarbús er ekki unnt að skýra með utanaðkomandi áföllum nema að litlu leyti. Ört vaxandi atvinnuleysi er ekki örlög sem þjóðin kemst ekki undan. Vandinn er fyrst og fremst heimatilbúinn. Það er alröng stjórnarstefna sem veldur þeim háskalega vítahring sem efnahagslífið er lent í með æ fleiri gjaldþrotum, sífellt meiri samdrætti, atvinnuleysi og neyð.
    Í hverju er þá sök ríkisstjórnarinnar fólgin? Meginsök hennar felst í aðgerðaleysi. Þið heyrðuð í forsrh. hér áðan. Hann hafði ekki margt til málanna að leggja í atvinnumálum og það er einmitt vandinn í hnotskurn. Hann og ríkisstjórnin fást ekki til nokkurra aðgerða sem duga til að auka atvinnu. Það litla sem ríkisstjórnin býðst til að gera reynir hún að selja aðilum vinnumarkaðarins rétt eins og aðgerðir gegn atvinnuleysi sé eitthvert góss á uppsprengdu verði í Kolaportinu. Og þegar ekki gengur saman vegna þess að ekki vilja allir kaupa, dregur ríkisstjórnin tilboð sitt til baka og ekkert er frekar að gert. Verst er þó að ríkisstjórnin lætur það viðgangast ár eftir ár að allt of háir raunvextir liggi eins og mara á atvinnulífinu og sjúgi úr því lífsþróttinn, dragi úr fjárfestingum og fæli menn frá að hætta fé sínu í atvinnuaukandi starfsemi.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum hamrað á því árum saman eða allt síðan forustumenn Sjálfstfl. sprengdu upp vaxtastigið og þrefölduðu raunvaxtastigið um miðjan seinasta áratug að ríkisvaldið verði að knýja raunvextina niður í það sem þeir voru fyrir áratug síðan, 3--4%. Í seinustu ríkisstjórn náðist merkur árangur til lækkunar raunvaxta og þeirri stefnu átti og þurfti að halda áfram. En það var einmitt fyrsta verk núv. stjórnar að hækka vaxtastigið stórlega.
    Á þessum vetri hafa menn hlustað á síendurteknar yfirlýsingar ráðherra um væntanlega vaxtalækkun og loks í febrúar kom stóra stundin. Raunvextir áttu að lækka um allt að 2% sem að vísu var allt of lítið en samt sem áður góð byrjun. En hver varð útkoman? Útkoman varð liðlega 0,5%. Áfram eru raunvextir miklu hærri en þegar ríkisstjórnin kom til valda. Áfram eru Íslendingar með langhæstu raunvexti sem þekkjast á byggðu bóli.
    Jafnhliða verulegri lækkun vaxta verður að hefja mikla sókn í efnahagslífi með því að skapa a.m.k. 1.500 ný störf með beinum aðgerðum ríkisvaldsins eins og við alþýðubandalagsmenn útlistuðum rækilega í tillögum okkar fyrr í vetur. Reikna má með því að hvert nýtt starf kosti á einu ári um 2 millj. kr. og því erum við að tala um kostnaðarauka upp á 3 milljarða fyrir ríkissjóð. Þetta fé viljum við ekki taka að láni erlendis heldur ná því inn með raunverulegum hátekjuskatti og sköttum á fjármagnstekjur eins og alls staðar þykir sjálfsagt í öllum nálægum löndum. Við erum t.d. að tala um viðhalds- og byggingarstörf hjá ríki og sveitarfélögum, úrbætur í samgöngumálum, framkvæmdir við frárennsli og sorpeyðingu, úrbætur á ferðamannastöðum, störf við landgræðslu, skógrækt og aðrar umhverfisbætur, störf í ferðaiðnaði og störf í velferðarþjónustu vegna aukinnar umönnunar aldraðra auk margs annars. Atvinnuleysi 7.000 manna kostar samfélagið 3 milljarða á hverju ári. Það er óverjandi sóun. Þá eru ótaldir allir þeir sem ekki hafa vinnu en eru þó réttlausir til bóta og fá engar greiðslur vegna þess að þeir uppfylla ekki ákvæði núgildandi laga, t.d. fyrrum atvinnurekendur, bændur, námsmenn og aðrir sem nýkomnir eru á vinnumarkað. Þess vegna hafa þingmenn Alþb. undir forustu Svavars Gestssonar beitt sér fyrir gagngerri endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar þar sem gengið er út frá því að allir þegnar þjóðfélagsins eigi rétt til atvinnuleysisbóta án tillits til fyrri starfa og tekið sé stóraukið tillit til barna á framfæri atvinnulausra. Það er hagræn meginregla í efnahagslífi að eitt starf kallar á annað. Hver króna gengur frá manni til manns. Séu þúsund störf lögð niður minnka umsvif og velta um allt þjóðfélagið og enn fleiri störf leggjast niður. Séu hins vegar sköpuð 1.500 ný störf má samkvæmt margfeldisáhrifum hagfræðinnar reikna með að innan nokkurra mánaða hafi aukin velta og umsvif kallað minnst 1.500 aðra til starfa.
    Góðir hlustendur. Þetta er það sem við þurfum. Við verðum að hindra að íslenskt atvinnulíf sökkvi dýpra en orðið er. Ríkisvaldið þarf að vera sú eimreið sem dregur atvinnulífið út úr vítahringnum, út úr niðursveiflunni. Við þurfum auknar fjárfestingar, aukna framleiðslu. Við þurfum bjartsýni í stað svartsýni. Stjórnarár Davíðs Oddssonar, glötuðu árin, verða þjóðinni því dýrari því fleiri sem þau verða. Við þurfum nýja ríkisstjórn sem getur og vill, ekki menn með hendur í skauti sem virðast bíða eftir því einu að vera felldir í næstu kosningum. Við þurfum nýja stjórnarstefnu, nýja þróttmikla atvinnustefnu.