Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 21:35:46 (7780)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsrh. fagnaði hér áðan tveggja ára afmæli sinnar ríkisstjórnar. Hann er málsnjall maður og það segir dálítið um ræðuna alla að þegar hann var að bera saman það sem fyrri ríkisstjórn hafði gert og núverandi, þá beitti hann taktískum blekkingum. Hann sagði ekki hver verðbólgan var þegar hann tók við, nei, hann sagði hver hún hefði verið árið á undan. Hann sagði ekki að Alþingi Íslendinga hefði samþykkt heimild til fjmrh. til að greiða 1.200 millj. til Byggðastofnunar. Nei, það gerði hann ekki. Öll ræðan var byggð upp af þessari snilld. Hitt er svo annað mál að miklu hærra en sú rödd getur hljómað sem hér talar úr þessum ræðustól hljómar rödd íslensku þjóðarinnar. Með hverri skoðanakönnuninni eftir aðra úrskurðar þjóðin að hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn séu á rangri braut. Forsrh. og ríkisstjórn tala um misskilning.
    Ég minnist þess að ég las það í Biblíunni að þegar frelsarinn hélt innreið sína í Jerúsalem, þá stendur í þeirri frásögn að fólkið breiddi pálmaviðargreinar á götuna til þess að hylla frelsarann. En á öðrum stað í þýðingum Magnúsar Ásgeirssonar kemur það fram að asninn sem flutti frelsarann trúði því að greinarnar væru breiddar á götuna honum til dýrðar og í endurminningum sínum lifði hann sæll þennan eina dag sem fólkið hafði hyllt hann. Og það er eins og hver skoðanakönnunin sem kemur annarri verri og erfiðari fyrir ríkisstjórnina sé túlkuð á þann veg að nú sé þjóðin að lofsyngja hæstvirta ráðherra.
    En jafnvel ég verð alvarlega hissa þegar ég sé niðurstöður í skoðanakönnuninni, ekki á því fylgisleysi sem stjórnin býr við heldur hinni furðulegu staðreynd að það er meiri ánægja með störf hæstv. utanrrh. en hæstv. forsrh. Ég þurfti að lesa þetta margsinnis áður en ég trúði þessu. Hvað hefði Ólafur Thors sagt hefðu þau tíðindi borist honum til eyrna að sjálfstæðismenn teldu Hannibal Valdimarsson hæfari? Ég er viss um að sá málsnjalli foringi sjálfstæðismanna hefði ekki verið í vandræðum með að koma með athugasemdir. En hann var meira en málsnjall og þar skilur á milli.
    Það er nú einu sinni svo að við Íslendingar erum vissulega ánægðir yfir mörgu og við megum vera það. Ég játa það að þegar íslenskir íþróttamenn vinna hvert afrekið eftir annað erlendis eða íslenskir listamenn, þá er ég montinn liggjandi á bakinu uppi í sófa og hef ekkert unnið til frægðar í þeim efnum. Íslenskir afreksmenn hafa verið að efla sjálfstraust þessarar þjóðar. Íslendingar vinna sigra. Hæstv. forsrh. virðist aftur á móti vera að reyna að telja þjóðinni trú um það að íslenskir stjórnmálamenn á undanförnum árum hafi verið óhæfir og íslenskir athafnamenn hafi ekki staðið sig sem skyldi. Það voru íslenskir athafnamenn sem lögðu 10 milljarða í fiskeldi. Ég ætla að segja það eitt um þetta: Sá mælikvarði hvernig við höfum staðið okkur hefur birst í því hverjar hafa verið þjóðartekjur á mann í þessu landi. Við höfum náð þeim árangri að komast hæst í annað sæti í heiminum. Hæstv. forsrh. talar um það að síðasta ríkisstjórn hafi verið að lækka launin. Hafa menn orðið varir við launahækkunina hjá þessari? Hvernig fær það staðist ef hann trúir því í alvöru að þá hafi launin verið orðin of lág að hann hækkar þau ekki núna?
    Nei. Það eru aðeins tveir sökudólgar í ræðunni sem hann dregur upp. Það er hv. þm. Steingrímur Hermannsson og þorskurinn. Aftur á móti er greinilegt að hann hefur misjafnar skoðanir hvað eigi að gera við sökudólgana. En hitt er svo umhugsunarefni: Hvers vegna hefur þá störfunum fækkað í iðnaði? Hvers vegna hefur störfunum í iðnaði verið að fækka um þúsund og aftur um þúsund og enn stefnir í fækkun með þennan stóra snilling, hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson? Er það þorskinum að kenna? Er það hv. þm. Steingrími Hermannssyni að kenna? Eða er ástæðan e.t.v. sú að þeir sem fara með völdin núna trúa hvorki á fólkið né landið og gera sér ekki grein fyrir því að aðalauðlind hvers lands eru íbúarnir sem byggja það.
    Góðir Íslendingar. Ég vona að ykkar rödd hljómi áfram og það komi að því að þeir átti sig á því hvað þeir eru að gera.