Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 21:53:46 (7783)


     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Í kvöld minnumst við tveggja ára afmælis ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Sagt er að hvert afkvæmi hljóti að erfðum helming gena frá hvoru foreldri þannig að í upphafi hefur afmælisbarnið fengið að hálfu jafnaðarmennskugen og að hálfu gen frjálshyggju frá foreldrum. Fljótlega eftir fæðingu kom þó í ljós að gen jafnaðarmennskunnar voru greinilega víkjandi en frjálshyggjugenin ríkjandi. Þetta höfum við séð skýrt og greinilega í öllum ákvörðunum og athöfnum þessa frekar ódæla afkvæmis.
    Það er venja á tímamótum sem þessum að rekja í stuttu máli helstu atburði í ævi afmælisbarnsins og í þessu tilviki er það alveg með ólíkindum hversu margs er að minnast þó ævi ríkisstjórnarinnar spanni aðeins tvö ár og þrjá daga. Hún er þó komin á miðjan aldur og nú fer að síga á seinni hlutann, sem betur fer. Því miður er fátt ánægjulegt í minningunni og alveg ljóst að barnsárin, gelgjuskeiðið og sá hluti fullorðinsáranna sem liðinn er hafa verið ríkisstjórninni óskaplega erfið. Markmiðin sem afmælisbarninu voru sett í upphafi voru fá en skýr eins og formaður íslenskra jafnaðarmanna, annað foreldrið, sagði í viðtali við fjölmiðil í gærmorgun.
    Í fyrsta lagi átti afmælisbarnið að draga úr ríkisútgjöldum, stöðva sjálfvirkan vöxt í ríkisfjármálum. Hitt foreldrið, hæstv. forsrh., hafði áður sagt að eitt meginmarkmiðið væri að lækka skattana. Hvernig hefur til tekist með þetta markmið? Þá raunasögu þekkja allir. Horfur í ríkisfjármálum hafa varla verið dekkri en þær eru nú. Afkoma heimilanna hefur sjaldan verið erfiðari en nú. Skattálögur á almenning hafa ekki verið þyngri en þær eru nú. Þjónustugjöldin hafa ekki verið meiri en þau eru nú. Atvinnuleysið hefur sjaldan eða aldrei verið meira en nú. Og það sem ríkisstjórnin lætur sér helst detta í hug í atvinnumálum er að senda frá sér frumvörp, hvert öðru vitlausara, um einkavæðingu ríkisstofnana. Þar er frv. um einkavæðingu Þvottahúss Ríkisspítalanna e.t.v. besta dæmið um fáránleika þess hugmyndaflugs, sem afmælisbarnið býr yfir í svo ríkum mæli, og þess sem einkennt hefur þessa stuttu starfsævi, fljótfærnin verður skynseminni einlægt yfirsterkari. Kapp er best með forsjá. Þau sannindi vona ég svo sannarlega að afmælisbarnið læri á síðari hluta ævi sinnar.
    Annað markmiðið að sögn foreldra var að ná tímamótaákvörðun í samskiptum við erlend ríki. Tímamótaákvörðun þýðir líklega í þessu tilviki samningur um Evrópska efnahagssvæðið, EES, að afhenda erlendum aðilum svo og svo mikið af sjálfsákvörðunarrétti þessarar litlu þjóðar, að hleypa erlendum aðilum inn á vinnumarkaðinn, að afnema eða draga úr þeim takmörkunum sem verið hafa á innflutta vöru sem er í samkeppni við innlenda framleiðslu eins og garðyrkjubændur hafa áþreifanlega orðið varir við undanfarið. Varla verður þessi tímamótaákvörðun til að efla íslenskt atvinnulíf sem þó er augljós þörf fyrir. Túnið er ekki alltarf grænna hinum megin við girðinguna. Við eigum dugmikið athafnafólk sem þarf á erfiðum tímum á stuðningi að halda og hvatningu til áframhaldandi verka. Það fólk sem vinnur við undirstöðuatvinnuvegi þessa lands skilur á hverju samfélagið byggir tilveru sína og hefur ævinlega verið reiðubúið til að leggja sitt af mörkum þegar erfiðleikar steðja að. Samskipti og samvinna við erlendar þjóðir er

nauðsynleg. Í þeim samskiptum verðum við þó að halda haus og standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar og þá atvinnuvegi sem þjóðin byggir afkomu sína á.
    Þriðja og síðasta markmiðið sem formaður Jafnaðarmannaflokks Íslands nefndi, var að fá erlent fjármagn til landsins. Þar, góðir áheyrendur, hefur líklega verið efst í huga hans draumsýnin um álverið sem er svo margrædd að það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara fleiri orðum um hana. Þetta voru markmiðin sem sett voru við tilurð þessa tveggja ára afmælisbarns, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Tvö af þremur þessara markmiða tengjast erlendu samstarfi og erlendu fjármagni. Ekkert um nauðsyn þess að efla innlenda atvinnustarfsemi eða jafna þau kjör sem landsmenn búa við.
    Vissulega er fyrsta markmiðið gott, það að draga úr ríkisútgjöldum og stöðva sjálfvirkan vöxt í ríkisfjármálum. Þær aðgerðir sem gripið er til í þeim tilgangi mega þó ekki bitna á þeim sem minnst mega sín eins og leiðir t.d. af hækkuðu lyfjaverði til sjúklinga og auknum þjónustugjöldum. Þessar ráðstafanir bitna harkalega á mörgum þeim sem eiga við langvarandi sjúkdóma að stríða og þessu verður ekki neitað. Dæmi því til sönnunar eru mýmörg.
    Það er ótrúlega margt sem hægt er að gera til að spara í ríkisrekstri en til þess að slíkar aðgerðir skili varanlegum árangri verður að endurskoða ríkisreksturinn í heild sinni á skipulegan hátt. Það er einnig nauðsynlegt að viðurkenna rangar ákvarðanir sem ekki hafa náð að uppfylla sett markmið. Stefnan í sjávarútvegsmálum er besta dæmið um það. Stefnan hefur að vísu verið endurskoðuð en er ekki eitthvað bogið við endurskoðun sem leiðir til þess að festa ber í sessi ríkjandi kerfi, kerfi sem hefur orðið til þess að sjávarútvegurinn er meira og minna í rúst og auðæfi hafsins umhverfis landið eru að verða eign örfárra manna? Alþb. lagði til að sjútvn. Alþingis færi í þessa endurskoðun því að auðvitað er það á ábyrgð okkar alþingismanna hvernig staðið er að málum. Þessari sjálfsögðu tillögu var tekið með útúrsnúningum og rangfærslum sem einkennir yfirleitt málflutning manna sem eru rökþrota og ráðþrota.
    Annað dæmi þess hve fljótfærnislega er staðið að málum eru þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu ríkisstofnana og fyrirtækja sem eiga ekkert skylt við skynsama hugsun. Það er eðlilegt þegar horft er til erfiðleika fyrirtækja í einkaeign að menn velti því fyrir sér hvort ekki megi flytja verkefni frá ríki til þeirra fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum, enda er í mínum huga eðlilegt að ríkisstofnanir og fyrirtæki sveitarfélaga hafi frumkvæðið að því að koma ýmsum verkefnum af stað en síðan taki aðrir við. Þetta á ekki síst við þegar ríkið hefur með aðgerðum sínum og ákvörðunum staðið að niðurskurði á möguleikum heillar stéttar til atvinnu, t.d. bænda. Þá er eðlilegt að unnið sé skipulega að því að gefa kost á öðrum verkefnum í staðinn sem unnið er að á ríkisstofnunum, t.d. í landgræðslu og skógrækt. Þó eru ákveðin verkefni sem ávallt hljóta að verða unnin á vegum ríkisins, t.d. ýmis rannsókna-, eftirlits- og þróunarverkefni. Sameiginleg verkefni okkar allra, svo sem heilbrigðis- og skólamál hljóta einnig að vera á höndum ríkis eða sveitarfélaga. Færsla verkefna eða stofnana frá ríki til einkaaðila má ekki koma niður á þeirri þjónustu sem veitt er og má ekki gera hana dýrari.
    Góðir áheyrendur. Kjaramálin eru mér eðlilega ofarlega í huga. Ekki hefur tekist að ganga frá samningum sem tryggja þeim sem lægst hafa launin betri afkomu. Mér finnst á stundum að foreldrar afmælisbarnsins ódæla séu svo uppteknir af dyntum þess að þeir sjái ekki hvernig ástandið er í landinu og geri sér enga grein fyrir þeim kjörum sem stór hluti landsmanna býr við eða hvað misskiptingin er orðin mikil. Alla vega er ekki hægt að túlka orð þeirra og athafnir með öðrum hætti. Og nú stendur jafnvel til að Alþingi taki sér hlé frá störfum um næstu helgi. Er það ekki alveg makalaust að mönnum skuli detta það í hug á sama tíma og mörg stórmál eru óleyst, kjaramálin í hnút og sjávarútvegsmálin óafgreidd. Hér eiga menn að staldra við, vinna sína vinnu og beita sér fyrir víðtækri samstöðu allra flokka á Alþingi til lausnar á þessum stóru málum, ná samstöðu um eflingu atvinnulífs og jöfnun lífskjara í landinu. Um það ætti að ríkja víðtæk samstaða. --- Góðar stundir.