Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 22:01:26 (7784)

     Sigríður Jóhannesdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Ekki skal hér neitt dregið úr því að þjóðarbúið hafi orðið fyrir áföllum. Afli hefur minnkað, verð á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum hefur lækkað. Afleiðingin er versnandi efnahagsástand, atvinnuleysi og margvíslegir erifðleikar. Á þvílíkum tímum reynir á forustumenn. Þá kikna litlir karlar. Þá eflast þeir sem einhver kengur er í. Hvernig er þessu nú varið með forsrh. og einkavini hans innan og utan ríkisstjórnar? Hvernig hefur verið brugðist við versnandi ástandi þar á bæ? Því er fljótsvarað. Ríkisstjórnin hefur skilið þá eftir úti á gaddinum sem minna mega sín en lagt sig fram um að treysta hag þeirra sem besta hafa aðstöðuna.
    Nú kann vel að vera að það sé hvorki efnahags- né náttúrulögmál að alltaf skuli allir vinnandi menn í sérhverju þjóðfélagi hafa a.m.k. 8 stunda vinnu hvern virkan dag við þau störf sem þeim henta. E.t.v. verðum við að gera ráð fyrir einhverju atvinnuleysi. En hvernig ætlum við þá að bregðast við því? Ætlum við því fólki sem við getum ekki veitt atvinnu það hlutskipti að draga fram lífið á rúmlega 40 þús. kr. á mánuði og lifa síðan 16 vikur á ári á munnvatni sínu og guðsblessun? Eða ætlumst við til þess að þeir sem betur mega láti eitthvað af hendi rakna til hinna sem samfélagið hefur ekki getað tryggt þau mannréttindi að fá að vinna fyrir brauði sínu?
    En það eru fleiri en atvinnuleysingjar einir sem mega drekka úr hóffarinu að mati ríkisstjórnarinnar. Nú er það svo að margar fjölskyldur réðust í húsnæðiskaup á árunum þegar næg atvinna og eftirspurn eftir vinnuafli vakti mönnum bjartsýni um að þeir mundu komast í gegnum erfiðustu greiðsluárin með mikilli aukavinnu. Minnkandi atvinna ásamt því að kaupmáttur hefur minnkað og raunvextir farið hækkandi hefur leitt til mikils greiðsluvanda fjölmargra heimila. Líklegt er að minnkandi atvinna muni á næstunni valda æ fleiri fjölskyldum sem ráðist hafa í húsnæðiskaup verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Á árunum 1981--1992 hafa heildarskuldir heimilanna í landinu aukist úr rúmum 60 milljörðum kr. í ríflega 226 milljarða. Við vanda þessa fólks hefur ríkisstjórnin brugðist með því að lækka vaxtabætur. Því var lýst yfir að með minnkandi verðbólgu sköpuðust skilyrði fyrir lækkun vaxta. Raunin varð sú að á þeim tíma sem verðbólgustigið lækkaði úr 27% niður í um það bil 2% hækkuðu vextir. Í stuttu máli eru því viðbrögð ríkisstjórnarinnar við versnandi efnahagsástandi nýjar skattálögur á almenning upp á rúma 8 milljarða kr. Allar þær skattálögur eru með varanlegu sniði nema svokallaður hátekjuskattur. Hann er til bráðabirgða í aðeins tvö ár. Aðeins þegar kemur að skattheimtu á þá sem hafa háar tekjur er eins og hæstv. ríkisstjórn hiki ögn við og setji upp silkihanskana. Við sjáum þessa hnjáliðamýkt gagnvart þeim sem hafa peningavöldin í þjóðfélaginu á fleiri sviðum. Sjúklingar, námsmenn, barnafólk skulu leggja sitt af mörkum á erfiðum tímum en aðstöðugjöld fyrirtækja skulu afnumin og þá er nú ekki verið að velta vöngum yfir góðri eða slæmri afkomu heldur skulu öll fyrirtæki hvort sem þau skila gróða eða ekki sleppa við þetta gjald.
    Góðir áheyrendur. Ef við ætlum nú í tilefni tveggja ára afmælis ríkisstjórnarinnar að skilgreina hvað sé slæm og hvað sé góð stjórn og lítum svo á að sú stjórn sé góð sem kemur nokkru áleiðis af flestum sínum stefnumálum, þá verðum við sjálfsagt að sitja uppi með það að við höfum yfir okkur nokkuð góða ríkisstjórn. Fyrir hennar tilverknað hafa völd og áhrif stórfyrirtækja og fjármagnseigenda stórlega vaxið og bilið milli ríkra og fátækra aukist að sama skapi. Hún hefur uppi tilburði til að festa í sessi kvótakerfið með þeirri misskiptingu og byggðaröskun sem ekki verður séð fyrir endann á. Hún hefur lagt sig fram um að draga okkur áleiðis inn í Evrópska efnahagssvæðið. Hún hefur gert sitt ýtrasta til að draga úr áhrifum launþegahreyfingarinnar og hefur komið fram gagnvart almenningi í landinu af meiri hroka og lítilsvirðingu en áður hefur þekkst. Viljum við hins vegar skilgreina góða ríkisstjórn á þann veg að hún stuðli að jöfnuði í þjóðfélaginu og rétti hlut þeirra sem minna mega sín, að hún hvetji fólk til átaka við erfiðleika og fylki þjóðinni að baki sér, þá búum við nú við einhverja þá verstu ríkisstjórn sem yfir þetta land hefur valist.
    Virðulegi forseti. Það er mitt mat að ríkisstjórnin hafi brugðist við þeim vanda sem að okkur steðjar með þeim hætti að hún sé á góðri leið með að skipta þjóðinni í minni hluta sem fer með allt efnahagslegt vald og meiri hluta sem á sæti að því hlutskipti að hafa tæpast fyrir brýnustu nauðþurftum þó unnið sé myrkranna á milli. Ég álít því að það sé brýnasta hagmunamál launamanna í þessu landi að ríkisstjórnin fari frá. --- Takk fyrir.