Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 22:18:02 (7786)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Að undanförnu hafa bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar minnst þess í þessum ræðustól að nú eru tvö ár nákvæmlega síðan þessi ríkisstjórn var mynduð. Ríkisstjórn sem setti sér það markmið í hvítri bók að hefja nýja framfarasókn í íslensku samfélagi. Hún boðaði hvorki meira né minna en nýja framtíðarsýn. Nú er kjörtímabilið hálfnað og því tímabært að skoða markmið ríkisstjórnarinnar í ljósi reynslunnar, bera saman orð og efndir.
    Í hvítbókinni eru gefin margvísleg fyrirheit. Í henni brýna stjórnarliðar sig til dáða. Þeir segja: Nú verður að brjóta í blað. Þeir segja: Velferð Íslendinga verður að byggja á varanlegum gruni. Og þeir segja: Nú skulu verða þáttaskil. Vissulega hafa orðið þáttaskil en nær öll til hins verra.
    Í hvítbókinni lýsa stjórnarliðar og ríkisstjórnin því yfir að hún ætli að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu og stuðla að því að sættir takist um sanngjörn kjör. Hún ætlar að beita sér fyrir aðgerðum í skatta- og félagsmálum sem koma hinum tekjulægstu til góða. Hún ætlaði líka að létta undir með þeim sem stæðu höllum fæti í lífsbaráttunni. Og það segir í hvítbókinni, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin mun hlúa að fjölskyldunni sem grunneiningu í nútímasamfélagi, m.a. með markvissum umbótum í húsnæðismálum og skóla- og heilbrigðismálum.``
    Hverjar eru efndirnar á þessu? Hið gagnstæða við allt þetta hefur gerst. Þetta hljómar eins og öfugmæli. Það er engin sátt í kjaramálum og það sérkennilega ástand er nú uppi að ríkisstjórnin situr öðrum megin samningaborðsins og aðilar vinnumarkaðarins sameinaðir hinum megin. Það eru engar tillögur uppi um kjarajöfnun, þær hafa ekki litið dagsins ljós. Og ég verð að játa það hér, virðulegur forseti, að ég er orðin dálítið þreytt á þulu hæstv. félmrh. um tekjujöfnun. Hæstv. félmrh. kom með tölur hér áðan sem sýndu fram á að það hafði fjölgað um 6.000 manns í hópi þeirra sem hafa undir 75.000 kr. á mánuði. Og á hvaða tímabili hafði þetta gerst, hæstv. félmrh.? Það hefur gerst á því tímabili sem Jóhanna Sigurðardóttir var félmrh., þ.e. frá árinu 1987. Með allri virðingu fyrir félmrh. sem vill auðvitað standa vel að málum þá getur hún ekki spilað frítt. Hver er ábyrgð félmrh. á þeirri þróun mála sem átt hefur sér stað frá árinu 1987? Hver er ábyrgð félmrh. sem ráðherra jafnréttismála á auknu launabili sem orðið hefur milli karla og kvenna á þessu sama tímabili? Hvernig var grundvallarsjónarmiðunum til haga haldið?
    Sé afrekaskrá ríkisstjórnarinnar í skattamálum skoðuð, þá hefur ríkisstjórnin lækkað skattlagningu fyrirtækjanna um rúma 4 milljarða. Hæstv. forsrh. stóð sig vel í reikningskúnstum hér áðan og nefndi 17.000 millj. kr. á kjörtímabilinu sem skattalækkun fyrirtækjanna næmi. En hvernig hafa skattálögurnar verið á almenning á þessum tíma? Skattálögur á almenning hafa hækkað, m.a. með því að skattleysismörk hafa verið færð niður og skattprósentan hækkuð og barnabætur lækkaðar. Þannig hafa skattálögur á almenning verið hækkaðar um 4,7 milljarða kr. Ríkisstjórnin seildist þannig bæði í vasa þeirra sem lægst hafa launin og hinna sem þyngsta hafa framfærsluna.
    Í heilbrigðismálum hefur ríkisstjórnin staðið fyrir linnulausum hækkunum á útgjöldum fjölskyldnanna.
    Í skólamálum hefur ríkisstjórnin þrengt kost grunnskólabarna og hún hefur breytt lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna í þá veru að ungt fólk á mun minni möguleika til náms heldur en áður, ekki síst konur.
    Í húsnæðismálum verður helst vart stefnu ríkisstjórnarinnar í því að vextir á húsnæðislánum hafa hækkað bæði í félagslega kerfinu og almenna húsbréfakerfinu. Og vaxtabætur hafa lækkað. Á þeim tíma sem ríkisstjórnin hefur setið hefur álag á fjölskyldurnar aukist verulega og fátækt er nú meiri en verið hefur um langt árabil. Þess má geta í þessu sambandi að útgjöld Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar vegna fjárhagsaðstoðar voru 60% hærri nú í mars sl. heldur en í mars fyrir ári síðan.
    Ríkisstjórnin ætlaði að tryggja afkomu og atvinnuöryggi launafólks, hún ætlaði að búa fyrirtækjum og einstaklingum slík skilyrði að áræði og frumkvæði fengi notið sín. Hún ætlaði að endurskoða stjórn fiskveiða, hún ætlaði að byggja upp iðnað og þjónustu á vaxtarsvæðum og hún ætlaði að hlúa að vexti og viðgangi smáfyrirtækja. En hverjar hafa efndirnar orðið í þessum málum?
    Í sjávarútvegsmálum er hver höndin uppi á móti annarri í ríkisstjórninni og enn hefur engin stefna litið dagsins ljós. Það eina sem stjórnarflokkarnir eru nú sammála um er að damla áfram í gamla farinu.
    Í málefnum iðnaðarins hefur ríkisstjórnin dagað uppi eins og nátttröll í eftirsókn sinni eftir álveri. Ekkert fannst þessum ágætu mönnum jafnfáfengilegt og hugmyndir ,,einhverra kerlinga`` --- og þá segi ég kerlinga af báðum kynjum --- um smáiðnað. Þeir vildu hugsa stórt en eltast ekki við einhvern hallærislegan heimaalningshátt í þessum málum. Þeir vildu eina stóra lausn á fjölþættum vanda og þeir fengu enga. Nú standa þeir hugmyndalausir á berum bökkum, álverslausir. Og nú í dag var álverið afskrifað endanlega í þjóðhagsspám Þjóðhagsstofnunar.
    Í nágrannalöndum okkar hafa flest ný störf orðið til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Slík fyrirtæki hafa verið mjög drjúg á heimamarkaði og fljót að aðlagast breyttum aðstæðum. Í Bandaríkjunum lögðu smáfyrirtæki til átta af hverjum tíu störfum sem til urðu á síðasta áratug. Og 85% þessara starfa urðu til hjá fyrirtækjum með færri en 20 starfsmenn. Þetta er hægt ef sjálfstæðisviðleitnin og þörfin fyrir að sýna frumkvæði fær að njóta sín.
    Um allt land hafa konur verið að prófa sig áfram. Þær hafa verið að skapa sér vinnu sjálfar, fyrir eigin dugnað, bæði í framleiðslu og þjónustu. Þessar konur þurfa síst á því að halda að sjálfsbjargarviðleitni þeirra verði kæfð í fæðingu af stjórnvöldum sem hafa hvorki rænu né nennu til að sinna frumkvöðlum og nýbreytni.
    Í orði kveðnu er nú aukið frjálsræði á sviði efnahags- og atvinnumála. Ríkisstjórnin boðar m.a. afnám hafta og einokunar. Aldrei hafa samt verið sett meiri höft á atvinnufrelsi manna í landbúnaði og sjávarútvegi og einmitt nú. Það má hvorki yrkja jörðina né sækja sér bein úr sjó nema hafa til þess tilskilin leyfi réttra stjórnvalda. Þetta kemur auðvitað ekki til af góðu. En við þessar aðstæður eru gamlar kreddur frjálshyggjunnar um óheftan markaðsbúskap eins og hver önnur tímaskekkja.
    Hér á landi hefur frjálshyggjan í framkvæmd leitt til aukinnar hringamyndunar og samruna, hinir stóru hafa orðið stærri, á sama tíma og smáfyrirtækin hafa blómstrað í löndunum í kringum okkur. Völd og áhrif í atvinnulífi og stjórnkerfi hafa safnast á æ færri hendur rétt eins og kvótinn. Og ég leyfi mér að fullyrða að það eru ekki kvenmannshendur.
    Virðulegur forseti. Það er við margháttaðan vanda að eiga í íslensku samfélagi í dag og það væri mikil einföldun að segja að núverandi ríkisstjórn hafi skapað hann upp á sitt eindæmi. Þarna hafa margir komið að verki og vandinn er bæði utanaðkomandi og heimatilbúinn. Það eiga margir sök á ofveiði þorskstofnsins og það eiga margir sök á röngum fjárfestingum fyrri ára. En ábyrgð ríkisstjórnarinnar er tvímælalaust mest. Hún tók að sér að ráða för. Hún tók að sér að benda á leiðir út úr vandanum, að verkstýra vinnunni. Hún tók að sér að viðhalda trú hjá þjóðinni á eigin getu, hún boðaði nýja framfarasókn. Eftir tveggja ára setu situr hún hér rúin fylgi og koðnuð í eigin ráðleysi og geðvonsku. Hún hefur hingað til aðeins haft tvennt að bjóða þjóðinni: Hræðsluáróður um Færeyjar og skammir um eyðslu um efni fram --- þótt hún hafi reyndar slegið örlítið á jákvæðari strengi nú í kvöld. Sjónvarpið hefur svo séð til þess að þessi hryggðarmynd er daglega inni á heimilum allra landsmanna.
    Ríkisstjórnin er á góðri leið með að ræna þjóðina trú á eigin getu, kæfa það sjálfstraust og bjartsýni sem hefur fleytt okkur mun lengra en efni standa kannski til. Og hún hefur dregið atvinnurekendur og forustu verkalýðshreyfingarinnar niður í geðlægðina með sér. Menn láta eins og þeim séu allar bjargir bannaðar, hér búi hnípin þjóð í vanda. Þeir hafa miðlað þeirri mynd til þjóðarinnar að aldrei hafi aðrir eins erfiðleikar yfir hana dunið. Þetta er einfaldlega rangt. Fólk á öllum tímum hefur þurft að takast á við tilvistarkreppu, bæði persónulega, pólitíska og efnahagslega, það er ekkert nýtt við það. Og okkur sem leggjum hönd á plóginn í dag er síst meiri vandi á höndum en fyrri kynslóðum. Þvert á móti, við höfum fengið meiri meðgjöf.
    Við stöndum á tímamótum, við lifum á ögrandi tímum og við eigum að nýta okkur þann sköpunarkraft sem í þeim býr. Það molnar núna utan af stöðluðum hugmyndakerfum kalda stríðsins. Við höfum í dag frelsi til að skapa, við höfum frelsi til að finna nýjar lausnir, við höfum frelsi sem ekki hefur verið til staðar um langt árabil. Þetta eru forréttindi sem okkur ber skylda til að nýta í þágu samtíðar og framtíðar. Tímarnir krefjast nýrra hugmynda, nýrra lausna, nýrra þátttakenda, og síðast en ekki síst: nýrra ráðamanna. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.