Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 22:38:39 (7788)


     Árni M. Mathiesen :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Það fór fyrir hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni eins og asnanum á pálmasunnudag. Hann misskildi skoðanakönnunina. Könnunin sem átti að verða sérstakur áfellisdómur um ríkisstjórnina reyndist enn þá harðari dómur um frammistöðu stjórnarandstöðunnar. Og að heyra hv. þm. Steingrím Hermannsson tala um samskipti Suðurnesjamanna og Byggðastofnunar er með ólíkindum. Það er þó alla vega ekki verið að fjármagna kaup fyrirtækja í öðrum landshlutum á kvóta Suðurnesjamanna eins og gert var þegar hv. þm. Steingrímur Hermannsson réð þar á bæ. Og hv. þm. Halldór Ásgrímsson situr ekki nú í sjútvrn. til þess að breyta reglum til að auðvelda flutning á kvóta frá Suðurnesjum austur á land.
    Virðulegi forseti. Mig langar að fara hér nokkrum orðum um atvinnuleysið en minnkandi atvinnuleysi, stöðugleiki og lág verðbólga eru helstu markmið hagstjórnar á Íslandi í dag. Hvers vegna hefur atvinnutækifærum á Íslandi farið fækkandi eða þau staðið í stað sl. sex ár? Hvers vegna er atvinnuleysi á Íslandi, og reyndar um allan hinn vestræna heim, á þeim tímum þegar tæknin, framleiðsugetan og neyslan hefur aldrei verið meiri? Ég held að svarið sé að við fjárfestum ekki nægjanlega mikið. Við fjárfestum ekki í atvinnu. Og hvers vegna fjárfestum við ekki? Við fjárfestum ekki vegna þess að annars vegar spörum við ekki nóg og eyðum of miklu í neyslu og hins vegar eru vextir svo háir að ný fyrirtæki ráða ekki við þá. En hvers vegna spörum við ekki? Vegna þess að velferðarkerfið hefur tekið frá okkur þörfina til að spara. Sá hvati til sparnaðar, sem felst í því öryggi sem því fylgir að eiga eitthvað í handraðanum til þess að mæta óvæntum útgjöldum, erfiðleikum eða elliárum, er frá okkur tekinn vegna þess að við treystum því að velferðarkerfið sjái fyrir öllum okkar þörfum. Hagnaðarvonin sem felst í háum vöxtum vegur þessa þörf ekki upp. Þvert á móti erum við tilbúin til að greiða háa vexti til þess að fresta greiðslum á neyslu dagsins í dag. Þessi of litli sparnaður í samanburði við eftirspurn leiðir einn og sér til hærri vaxta. En það er velferðarkefið sem að stórum hluta til er fjármagnað með opinberum lántökum sem ýtir vöxtunum mest upp á við. Það er því hið opinbera með lántökum sínum og með því að veita þegnunum of mikið öryggi sem dregur úr fjárfestingum og skapar þannig atvinnuleysið í hinum vestræna heimi, þar með talið hér á Íslandi.

    Einhver spyr væntanlega: Hvað er maðurinn að tala um? Er ekki alltaf verið að tala um offjárfestingu hér á landi? Það er rétt. Við höfum fjárfest fyrir tugi milljarða á undanförnum árum en þessi fjárfesting var að stærstum hluta erlent lánsfé og stór hluti fjárfestingarinnar, allt of stór hluti, skilar ekki neinum arði í dag. Fjárfestingin var því lítið annað en fjármögnun á neyslu með erlendum lánum. Ríkissjóður er því eins og skuldsett heimili eða skuldsett fyrirtæki sem á óhægt um vik að stofna til nýrra skuldbindinga vegna greiðslubyrðar lána sinna. Þetta er það sem kallað hefur verið fortíðarvandinn, að stórum hluta kominn til af of miklum pólitískum áhrifum á fjárfestinga- og bankakerfið á Íslandi. Það var fjárfest í atkvæðum en ekki atvinnutækifærum. Þessu verður að breyta og þessu er verið að breyta en tregðulögmálið dulbúið sem varfærni er ótrúlega sterkt.
    Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að við eigum við erfiðleika að etja um þessar mundir. Þessir erfiðleikar koma ekki jafnt niður á öllum og þeim sem betur koma út úr vandanum ber að rétta hinum hjálparhönd. En vandinn er yfirstíganlegur því að við sem þjóð eigum mikla og margvíslega ónýtta möguleika. Hvernig okkur tekst til er mest undir sjálfum okkur komið, hverju og einu. Hlutverk Sjálfstfl., hlutverk ríkisstjórnarinnar er að veita forustu, skapa stöðugleika og forsendur fyrir því að við hvert og eitt leggjum okkar litla lóð á vogarskálarnar til lausnar vandanum. Þetta gerum við sum með því að spara og önnur með því að framkvæma. Ekki með því að halda að okkur höndum heldur með því að taka skynsamlegar ákvarðanir í samræmi við hagsmuni okkar og heildarinnar. Grundvallarforsendan er sú að við tökumst sjálf á við vandann og leysum hann. Erlendir bankastjórar eða opinberar stofnanir leysa ekki vanda þjóðarinnar. Við gerum það sjálf. Hvort höfum við meiri trú á fyrirtækjum sem verða til við stjórnarborð opinberra stofnana eða við eldhúsborð í Mosfellsbæ?
     Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.