Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 22:50:38 (7790)

     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar er lögð höfuðáhersla á að ná tökum á ríkisfjármálunum enda voru þau í miklum ólestri. Fyrri ríkisstjórnir höfðu bundið ríkissjóði svo þunga bagga að fyrirséð var þá þegar að ekki yrði við ráðið nema með hörðum og erfiðum aðgerðum. Alþfl. var þátttakandi í síðustu ríkisstjórn. Vissulega var margt vel gert þar. En á sviði ríkisfjármála var ríkisstjórnin veik. Þá blöstu mörg sömu vandamálin við og nú en þó ekki í eins miklum mæli. Fyrri ríkisstjórn setti sér það markmið að draga úr lyfjakostnaði um 500 millj. kr. Samkvæmt fullyrðingum og mælikvarða stjórnarandstöðunnar í dag hefur sú ákvörðun áreiðanlega verið tekin vegna einstakrar illgirni og ótuktarskapar Guðmundar Bjarnasonar heilbrrh. í samráði við Ólaf Ragnar Grímsson. Ef við beitum sama mælikvarða og þessir menn nota gagnvart núv. ríkisstjórn þá hafa þeir Guðmundur og Ólafur Ragnar ætlað að kvelja og hrella sjúklinga bara ánægjunnar vegna. En málin eru ekki svona einföld. Þeir sáu vandann sem fylgt hefur sjálfvirkum og sívaxandi útgjöldum ríkissjóðs. Þeir hafa auðvitað ætlað að bregðast við honum en því miður höfðu þeir ekki burði til þess, þeir gáfust upp. Í stað þess að taka á vandanum jókst hann undir þeirra stjórn. Í stað þess að draga úr þessum útgjöldum jukust þau um hundruð milljóna króna. Svona dæmi eru fjölmörg. Þau eru öll eins að því leyti að áformin voru góð, menn sáu vandann oftast og ætluðu að bregðast við honum en niðurstaðan varð í öllum tilfellum eins: Þeir gáfust upp. Þeir þorðu ekki að taka á vandanum. Hvers vegna? Jú, þessar aðgerðir voru ekki til vinsælda fallnar og því var þeim frestað.
    Það er m.a. þess vegna sem núv. ríkisstjórn hefur átt við erfiðari verkefni að stríða en nokkur önnur ríkisstjórn frá stríðslokum. Hvarvetna blikka rauð aðvörunarljós. Aldrei fyrr í sögu íslenska lýðveldisins hefur stöðnun í efnahagsmálum varað eins lengi og nú. Aldrei fyrr hefur ástandið verið svo alvarlegt. Aldrei fyrr höfum við haft eins mikla ástæðu til að óttast um efnahagslegt sjálfstæði okkar og einmitt nú. Hefði fyrr verið tekið á vandanum væri umhverfið miklu betra. En það vantaði stjórnendur sem létu ekki stundarvinsældir villa sér sýn.
    Stjórnarandstaðan lætur öllum illum látum er minnst er á ástandið í Færeyjum. Færeyingar eru okkar næstu nágrannar. Ógæfa þeirra nú er sú að þar viðurkenndu menn ekki vandann, þeir trúðu því ekki að illa færi. Þess vegna hafa þeir vaknað upp við vondan draum, þeir hafa tapað efnahagslegu sjálfstæði sínu. Þeir trúðu því að erlendar lántökur og óbilandi bjartsýni mundi leysa málin. Um áramótin verður annar hver maður atvinnulaus í Færeyjum, atvinnulífið er í rúst og fólksflótti til annarra landa hefur hafist fyrir alvöru. Það sem þó er átakanlegast eru þær fréttir sem berast frá Færeyjum um að fólk hafi í vetur ekki haft hita á húsunum. Þar hírðust margar barnafjölskyldur í nístandi kulda, klæðalitlar og við matarskort. Og hvers vegna er verið að rifja þetta upp hér? Það er vegna þess að við getum lært af mistökum frænda okkar. Okkur er reyndar meiri þörf á að kunna fótum okkar forráð. Færeyingar hafa þó danska ríkið sér til aðstoðar. Við höfum engan til að leita til ef okkur tekst ekki að leysa þennan vanda.
    Hér á Alþingi og víðs vegar um þjóðfélagið heyrum við þann söng að svartsýni og bölmóður ríki í huga ríkisstjórnar. Því fer fjarri. Menn hafa hins vegar gætt þess að segja satt, ekki ýkja, ekki draga úr, heldur segja fólki umbúðalaust sannleikann. Stjórnarandstaðan hefur engar tillögur til lausnar á efnahagsvanda þjóðarinnar. Þeir samþykkja ályktanir um að eitthvað þurfi að gera, það þurfi að taka á málunum, það þurfi að bregðast við vandamálunum. Það er hins vegar aldrei sagt hvernig.
    Nú í síðustu viku var rætt um tillögu Alþb. um sjávarútvegsmál. Um hvað fjallaði sú tillaga? Um að fela nýrri nefnd að gera tillögur um sjávarútvegsmál. Þeir hafa engar aðrar lausnir en að taka erlend lán. Fresta óhjákvæmilegum efnahagsaðgerðum. Þeir vilja bara gera eitthvað, gera átak, taka á málunum, þarf ekki að vera stefna. Hvernig? Jú, skipa nefnd, að semja tillögur, gera eitthvað. Þetta minnir því miður á stjórnmálamenn sem leiddu Færeyinga fram af hengifluginu. Það var einmitt í síðustu viku sem best kom í ljós hve úrræðaleysið er mikið. Hve málefnaskorturinn er mikill. Allt er þetta falið með orðskrúði og

málalengingum og ómerkilegum skömmum hér á Alþingi.
    Ríkisstjórnin hefur náð árangri. Það hefur tekist að stöðva sjálfvirk útgjöld ríkissjóðs. Það hefur víða tekist að skera fitulagið af stofnunum og fyrirtækjum ríkisins. Það eru vissulega fleiri verkefni fram undan í þeim efnum en viðurkennum það að engri ríkisstjórn hefur betur til tekist í þeim efnum. Ljósasta dæmið er í heilbrigðismálum. Því var haldið fram að allar aðhaldsaðgerðir væru af því illa. Það hefur tekist að spara hundruð milljóna króna án þess að skerða þjónustuna. Það er og eftirtektarvert að samhliða þessu hafa biðlistar þeirra sem óska lækninga styst í flestum tilfellum. Það er líka ánægjulegt að við áramót var rekstrarafgangur hjá flestum sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum þrátt fyrir sparnaðinn. Það sýnir að starfsfólk og stjórnendur hafa lagt hart að sér og náð árangri.
    Alvarlegasta vandamálið í þjóðfélaginu er atvinnuleysið. Efnahagskreppan hefur vakið atvinnuleysisvofuna upp og hún sveimar um flest byggðarlög landsins. Þeir sem enn hafa atvinnu hafa mátt þola hvers konar skerðingu í formi minnkandi yfirvinnu og hlunninda. Mörg heimilin eru komin á vonarvöl. Það er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að koma því fólki til hjálpar á allan þann hátt sem mögulegt er. Vandi sjávarútvegsins sem felst í gífurlegri skuldasöfnun, minnkandi veiðiheimildum og lækkandi verði á mörkuðum er orsök atvinnuleysisins. Því miður er ekkert sem bendir til þess að fiskgengd aukist eða að verð á erlendum mörkuðum hækki. Þar að auki er ástæða til að óttast að breytt heimsmynd hafi í för með sér samdrátt hjá þeim sem hafa starfað hjá þeim sem sjá um varnir landsins. Það hlakkar sjálfsagt í þeim sem hafa varið lífshlaupi sínu í Keflavíkurgöngur og mótmæli gegn vörnum landsins en fólkið sem sér lífsbjörgina hverfa lítur öðruvísi á málin. Það hlakkaði í mörgum þegar efnahagskreppan í Bandaríkjunum varð til þess að bygging álvers á Keilisnesi var frestað. Já, það var mikið ánægjuefni margra fjandmanna stóriðju en fólkið, sem eygði von um betri framtíð og atvinnuöryggi, lítur öðruvísi á málin. Það verður að vera forgangsmál að treysta atvinnuöryggið og forða því að þjóðin skiptist enn meir í ríka og fátæka. Það verður að koma þeim sem verst eru settir fyrir fátæktar sakir til aðstoðar. Í þeim efnum verður verkalýðshreyfingin að vera samstarfsaðili. Brýnasta verkefnið er að taka þátt í að byggja upp atvinnuvegina með öllum tiltækum ráðum. Það kemur launþegum og atvinnuörygginu best við þessar aðstæður.
    Alþfl., flokkur jafnaðarmanna, var frumkvæðisaðili við byggingu þess velferðarkerfis sem við búum nú við. Almannatryggingakerfinu var komið á fyrir tilstilli jafnaðarmanna. Alþfl. hefur krafist þess að allir landsmenn frá vöggu til grafar nytu öryggisnets sem samfélagið greiddi. Allur ferill Alþfl. sýnir að baráttan fyrir jafnrétti, fyrir betri lífskjörum, fyrir atvinnuöryggi, fyrir umönnun sjúkra, fatlaðra og aldraðra hefur skipað öndvegi. Við höfum náð árangri og notið til þess styrks annarra stjórnmálaflokka. Okkur eru þessar hugsjónir mjög kærar. Við viljum ekki hugsa þá hugsun til enda að þetta kerfi hrynji. Það eru því miður váboðar á ferðinni. Ef við sökkvum landinu í erlendar skuldir, ef við kollsiglum ríkissjóði með óraunhæfum kröfum þá hrynur þetta kerfi. Við jafnaðarmenn munum með kjafti og klóm verja það velferðarkerfi sem við höfum skapað. Aðhald, sparnaður og fyrirhyggja eru þáttur í þeirri varnarbaráttu. Við þær aðstæður þarf að fórna ýmsu en öryggisnetið má ekki rifna. Um þessi meginatriði eru stjórnarflokkarnir sammála.
    Þegar stjórnmálasagan verður skrifuð mun sá dómur falla að núverandi ríkisstjórn hafi róið lífróður til að forða þjóðinni frá áföllum og verja þá sem minnst mega sín. Þar mun líka tilgreint að hér hafi verið óábyrg stjórnarandstaða sem gerði allt sem hún gat til að sökkva þjóðarskútunni í þeirri von að ná í ráðherrastóla. Afkomendur okkar, sem munu lesa þessa sögu, spyrja auðvitað: Hvernig stóð á þessu? Hvers konar skemmdarverkamenn voru að verki? Var svona mikið afturhald á þingi í lok tuttugustu aldar? Þeir munu rifja það upp að helstu tillögur stjórnarandstöðunnar voru að taka erlend lán sem afkomendurnir áttu að borga. Þeir munu rifja það upp að stjórnarandstaðan lagðist gegn björgunaraðgerðum til verndar fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og þeir munu líka velta því fyrir sér hvers vegna stjórnarandstaðan lagðist gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem var svo augljóst að færði okkur betri tækifæri, meiri möguleika, betri lífskjör, tryggara sjálfstæði.
    Virðulegi forseti. Þessi tveggja ára ríkisstjórn er sterk stjórn. Hún þorir að taka á vandanum. Hún er samtaka við þann lífróður sem nú á sér stað til verndar efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Við munum sigla áfram. Við munum sigla þjóðarskútunni heilli í höfn.