Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 23:00:29 (7791)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Góðir áheyrendur. Hér á Alþingi er vorhreingerningu þessa kvölds að ljúka og komið að vertíðarlokum. Hér gengur ríkisstjórnin til samræmds prófs í eldhúsi þjóðarinnar en rökstuddur grunur er um að ástundun og hegðun sé með þeim hætti að nemandinn sé þegar fallinn á prófinu. Þrátt fyrir það ber að líta inn í alla skápa, ofan í koppa og kirnur og út í öll skúmaskot, að ekki sé minnst á að skoða heimilisbókhaldið. Við spyrjum: Hvernig hefur verið aflað og hvernig eytt? Er ríkisstjórnin að færa björg í bú eða hefur hún fiskað sig skulduga á þessum vetri? Hvernig býr hún að heimilisfólkinu hér á óðali feðranna? Hvernig vinnur hún fyrir húsbændur sína, fólkið í landinu? Hvernig fer hún með þau lyklavöld sem henni hafa verið falin?
    Í aldanna rás hefur mörgum stjórnendum og stjórnmálamönnum orðið hált á valdasvellinu. Valdið til að stjórna sem ráðamenn fara með í umboði þjóðarinnar er vandmeðfarið og það er sagt að valdið

spilli. Sjaldan hefur spilling stjórnvalda rist eins djúpt og við hirð Alexanders páfa VI. um aldamótin 1500. Hann varð páfi fyrir tilstilli frænda síns sem hafði áhrif á stöðuveitingar í páfagarði og eftir að hann komst til valda hlóð hann undir sig og sína og beitti öllum meðulum í taumlausri valdabaráttu sinni. Þessi illræmdi páfi traðkaði á öllu því sem kirkjunni var heilagt, jafnt hugsjónum sem boðskap og reglum og iðkaði holdsins lystisemdir í ríkari mæli en flestir aðrir á hans tíð. Þrátt fyrir mikið veldi gróf hann undan þeim stoðum sem kirkjan hvíldi á. Fjórtán árum eftir dauða Alexanders páfa VI. hófst andleg uppreisn innan kirkjunnar sem varð til að kljúfa hana og breytti loks ásýnd Evrópu.
    Já, valdið er vandmeðfarið. Og þeir eru víða smápáfarnir sem lifa fyrir líðandi stund, traðka á öllum reglum, skráðum og óskráðum og virðast treysta á fyrirgefningu syndanna og gleymsku almennings.
    Undanfarin tvö ár hefur setið hér við völd ríkisstjórn sem umgengist hefur valdið af þvílíku virðingarleysi og hroka að ég hygg að annað eins hafi ekki sést hér á landi síðan um 1930. Ríkisstjórnin hefur í algjöru umboðsleysi tekið sér það vald að gjörbreyta velferðarkerfinu, selja eigur ríkisins, leggja niður ríkisstofnanir eins og Menningarsjóð án lagaheimilda, skera miskunnarlaust en þó handahófskennt af alla vaxtarbrodda með sínum frjálshyggjustíl um leið og hún skirrist við að taka á vandamálum samfélagsins og því að móta framtíðarstefnu jafnt í atvinnumálum sem félagsmálum. Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kórónað verk sín með makalausum stöðuveitingum og sýnt þvílíkt fádæma siðleysi og valdhroka gagnvart einni helstu menningarstofnun þjóðarinnar og þar með Alþingi að í hvaða lýðræðisríki sem er hefði slík stjórn orðið að segja af sér. En ekki á Íslandi. Hér hafa ráðherrar um árabil komist upp með að hampa vinum sínum og flokksgæðingum hvað sem líður hagsmunum þjóðarinnar þótt keyrt hafi um þverbak í tíð núverandi stjórnar.
    Sjálfstfl. er í fararbroddi spillingaraflanna þessa stundina. En þögn alþýðuflokksráðherranna vekur athygli. Ástæðan er einföld. Fram undan er mikið sjónarspil í stöðuveitingum hjá ríkinu þar sem Alþfl. ætlar sér stóran hlut. Tvær stöður seðlabankastjóra, sendiherraembætti í París og forstjórastóll Tryggingastofnunar eru að losna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hverjir fá að verma þá stóla og hve hátt siðferðisstyrkur Alþfl. rís þegar þar að kemur.
    Ríkisstjórnin hélt upp á tveggja ára afmæli sitt með rjómatertu nú fyrir helgina en það er sannast að segja fátt sem hægt er að óska henni til hamingju með. Atvinnuleysi er nú meira en mælst hefur frá því á kreppuárunum og fer því miður vaxandi á meðan lítt bólar á aðgerðum til að draga úr því enda trú ríkisstjórnarinnar að hin ósýnilega hönd markaðarins lækni þau sár eins og önnur. Kjarasamningar eru í uppnámi og ráðherrarnir lýsa því yfir að ekki sé um neitt að semja. Þar tala fulltrúar hins óbreytta ástands því það er hægt að semja um kjarajöfnun og tilfærslu á skattbyrði yfir á þá sem meira bera úr býtum. Sjávarútvegurinn er rekinn með bullandi tapi, rótgróin fyrirtæki eru gjaldþrota vegna skulda og aflasamdráttar enda of margir að bítast um of lítinn afla. En hvar eru aðgerðirnar til að bæta stöðu sjávarútvegsins sem allt okkar líf byggist á?
    Allt logar í illdeilum innan ríkisstjórnarflokkanna vegna tillagna tvíhöfða nefndarinnar í sjávarútvegsmálum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til aðstoðar fyrirtækjum í landinu sem ráðherrarnir telja sumir hverjir afar stórtækar, þar með talið afnám aðstöðugjalds, hefur hvorki skilað sér í lægra vöruverði né meiri vinnu. Hallinn á ríkissjóði sem átti að verða 6,2 milljarðar stefnir í 10,5 milljarða þannig að allt er að fara úr böndunum svo sem vænta mátti.
    Einkavæðingaráformin hafa meira og minna runnið út í sandinn, sem betur fer, enda óraunhæf og sett fram í algjöru umboðsleysi.
    Menntakerfið, einkum á háskólastigi, er komið með hörgulsjúkdóma vegna langvarandi fjársveltis sem rýrir framtíðarmöguleika ungs fólks og möguleika okkar til að vinna okkur út úr þeim vanda sem við vissulega stöndum frammi fyrir. Fjöldi nemenda, einkum ungar konur, hafa orðið að hverfa frá námi vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á Lánasjóði ísl. námsmanna sl. vor.
    Handahófskenndur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hefur skapað mikið óöryggi og er að hlaða upp nýjum vanda á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Þá má nefna að stjórnarhættir hafa verið með eindæmum og hafa einkennst af því að ráðherrarnir sumir hverjir fá alla upp á móti sér með brussugangi og stórum yfirlýsingum sem þeir neyðast svo til að draga til baka.
    Þá er ónefnt mál málanna á liðnum vetri, samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sem á að mati ríkisstjórnarinnar að verða hið nýja hjálpræði til handa íslenskri þjóð í stað álversins sem enn lætur á sér standa. Rétt í þann mund sem Alþingi er endanlega að afgreiða samninginn um EES er allt á huldu um það hvort þessi draumur stórfyrirtækjanna og miðstýringaraflanna í Brussel verður nokkurn tímann að veruleika. Staðreyndin er sú að lífskjör og framtíð þjóðarinnar eru fyrst og fremst í höndum okkar sjálfra en þar mun aukin samkeppni og valdaafsal til stofnana EES ekki auðvelda okkur leikinn.
    Góðir áheyrendur. Það er komið í ljós sem við svo sem vissum að á óðali feðranna eru öll skúmaskot full af ryki, drasl í öllum skápum, skán í öllum koppum og heimilisbókhaldið í ólestri. Þótt ekki verði sagt að búsældarlegt sé um að litast á þjóðarheimilinu þessa stundina, ójafnt skammtað, illa farið með lyklavöld, siðferði ráðamanna í lágmarki og stöðugur barlómur og kvein það eina sem frá ráðherrunum heyrist, er engin ástæða til að örvænta. Ríkisstjórnin er fallin á prófinu enda vill meiri hluti þjóðarinnar segja henni upp vistinni samkvæmt skoðanakönnunum.
    Við búum í landi mikilla möguleika sem við þurfum að nýta enn betur en við gerum. Við þurfum að bretta upp ermar og spýta í lófa, ryðja nýjar brautir, bæta og endurskapa. Við þurfum að svara mörgum spurningum varðandi skipan samfélagsins, jöfnuð, bætta stöðu kvenna og barna og framtíðarsýn sem byggist á jafnvægi manns og náttúru. Líkt og veröldin þarf á nýrri pólitík og nýjum áherslum að halda til að tryggja áframhaldandi líf á jörðinni þurfum við Íslendingar að stokka upp spilin, siðbæta stjórnkerfið og móta okkar framtíð í ljósi þeirrar stöðu sem við okkur blasir.
    Stjórnvöldum, sem leiða hugann að einhverju mesta spillingarskeiði sögunnar í páfagarði fyrir 500 árum, er hvorki treystandi til að taka á vandamálum nútíðar né framtíðar hvað þá að byggja upp trú og von. Líkt og siðspilling Alexanders páfa VI. átti sinn þátt í umbrotaskeiði í Evrópu kann framferði ríkisstjórnarinnar sömu ættar í bland við aðgerðir og úrræðaleysi að boða mikil tíðindi í íslenskum stjórnmálum. Til þess að þau megi verða þarf þjóðin að veita nýtt umboð til nýrra stjórnenda. Megi það verða sem fyrst. --- Góða nótt.