Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 13:36:21 (7793)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Við meðferð þessa máls í hv. menntmn. fyrir alllöngu skiluðum við, ég og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, minnihlutaáliti þar sem við lýstum þeirri skoðun okkar að við teldum að það væri réttast miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Við teljum ekki ástæðu til þess að við séum að bera ábyrgð á framkvæmd EES-samningsins með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um þó að ýmislegt jákvætt megi í frv. finna út af fyrir sig. Þess vegna varð það niðurstaða okkar eins og ég sagði að sitja hjá við afgreiðslu málsins og sú niðurstaða okkar er óbreytt.