Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:37:06 (7806)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf. kom sér hjá því að láta koma fram í ræðu sinni hvaða afstöðu hann hefði til brtt. frá minni hluta félmn. en þar er að finna tillögur sem óskað var eftir, af samanlagðri húsnæðismálastjórn, að yrðu fluttar á þessu frv. Þar með talið voru fulltrúar hans og hans flokks í húsnæðismálastjórn sem óskuðu sérstaklega eftir því að þessar tillögur yrðu fluttar þar sem þær snertu brýn vandamál sem þyrftu úrlausnar við. Meiri hluti félmn. hundsaði þetta vegna þess, að mínu mati, að brýn úrlausnarefni á sviði húsnæðismála eru ekki viðfangsefni þessa frv. né þessa stjórnarmeirihluta. Þeir einblína eingöngu á það að breyta stjórnskipulegri stöðu stofnunarinnar og færa hana úr stöðu sjálfstæðrar stofnunar yfir í það að vera undirstofnun ráðuneytisins. Á tímum þegar vandamálin hrannast upp vegna atvinnuleysis og greiðsluerfiðleika fólks, þá ræðir meiri hluti félmn. ekki þetta mál, hefur ekki áhuga á því heldur einungis áhuga á því hver það er sem á að ráða úthlutun fjárins. Ég vil spyrja hv. 3. þm. Vestf. sem sér ekki nein rök fyrir því að stærstu samtök landsins, Alþýðusamband Íslands, hafi fulltrúa í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, hvernig í ósköpunum hann gat þá réttlætt fyrir sjálfum sér, fyrir tæpu ári, að samþykkja að hagsmunasamtök ættu fulltrúa í Framkvæmdasjóði fatlaðra.