Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:39:11 (7807)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vestf. er auðvitað að reyna að blekkja með því að segja sem svo að meiri hluti félmn. hafi ekki áhuga á því að taka á þeim málum sem hann nefndi hér í ræðu sinni sem lúta bæði að ýmsum þáttum sem snúa að hinu félagslega íbúðakerfi og eins greiðsluerfiðleikum og fleira í þeim dúr. Ég vil þvert á móti benda á að það kemur einmitt fram í umsögn í áliti meiri hluta nefndarinnar að á okkar fund kom Ingi Valur Jóhannsson, húsnæðisfulltrúi og deildarstjóri í félmrn., sem hefur forustu um það að fara ofan í þessi mál alveg sérstaklega. Það var okkar niðurstaða að ekki væri eðlilegt að félmn. Alþingis tæki frumkvæði í þessum efnum, eða tæki fram fyrir hendurnar réttara sagt, á starfshópi sem er að vinna að þessum málum. Hér er auðvitað um að ræða bæði flókin mál, vandmeðfarin og hugsanlega kostnaðarsöm og ekkert óeðlilegt við það að þau mál væru undirbúin sem allra best. Við töldum að á þessu stigi væri óskynsamlegt að félmn. Alþingis gripi inn í verk sem þegar er verið að vinna og við leggjum til í okkar nál. að það sé æskilegt, eins og hér segir, að niðurstaða þessa starfshóps varðandi breytingar á félagslega húsnæðiskerfinu liggi fyrir áður en gerðar eru tillögur um breytingar hvað þessi atriði varðar.
    Hv. þm. spurði mig líka að því hvers vegna ég væri að leggja til að stór hagsmunasamtök ættu ekki aðild að húsnæðismálastjórn en hefði haft, að því er mátti skilja á hans máli, aðra afstöðu fyrir ári síðan. Mér sýnist þá að þar höfum við haft kannski stólaskipti að þessu leytinu nema að hér er um að ræða mjög óskyld mál og allt öðruvísi. Ég held að það sem átti við í þeim efnum eigi ekki við varðandi Húsnæðisstofnun og ég er út af fyrir sig alveg sammála öðrum stórum hagsmunasamtökum sem eru Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna að auðvitað er eðlilegast að Alþingi kjósi að öllu leyti húsnæðismálastjórn.