Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 15:02:07 (7819)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka upplýsingar forseta um þinghald næstu daga. Forseti hefur upplýst að áformað er að þingstörfum ljúki eftir tvo daga. Ég vil í mestu vinsemd segja það, virðulegi forseti, að það er mér mikið undrunarefni að það skuli ekki vera fyrirfinnanlegt á dagskrá þingsins þessa tvo daga sem eftir eru að ræða stærsta vandamál íslensku þjóðarinnar sem er staðan í íslenskum sjávarútvegi. Það hefur verið upplýst að þar er um að ræða milljarðatugi sem atvinnugreinin ræður ekki við, eða allt að 40 þús. millj. kr. Hæstv. forsrh. sagði í eldhúsdagsumræðum í gær að ríkisstjórnin mundi líta á þessi mál á næstu vikum eða næstu mánuðum. Ég segi, virðulegi forseti, að menn geta gert samkomulag um að afgreiða þingmál og er það ekki mikið verk að ganga frá slíku samkomulagi en menn verða að fá upplýsingar um það hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera í málefnum sjávarútvegsins áður en þingið fer heim. Það er ekki nóg að flytja ræður um Seðlabanka Íslands á meðan eldurinn brennur vestur á fjörðum. Hvað ætlar þessi ríkisstjórn að gera í þessu brýna og stærsta vandamáli í íslenskum þjóðarbúskap?
    Ég fer fram á það, virðulegi forseti, að forseti kanni það hvort það sé í alvöru þannig að hæstv. ríkisstjórn hugsi sér að ræða ekkert sjávarútvegsmálin þessa tvo starfsdaga sem eftir eru.
    Ég get fullvissað forseta um það að ef það eru áformin þá mun ríkisstjórnin ekki fá frið til þess að komast upp með það að ræða ekki sjávarútvegsmálin þessa tvo daga. Það verður enginn friður um það, virðulegi forseti. Og hæstv. félmrh. getur hér lagt áherslu á það að leggja undir sig fleiri stofnanir með nýjum lögum en það er ekki aðalatriði málsins í íslenskum þjóðarbúskap í dag. Það er ekki það sem ríkisstjórnin á að vera að glíma við um þessar mundir.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, út af þeirri umræðu sem nú stendur yfir af því ég heyrði það að hæstv. forseti ætlar að gefa hv. 2. þm. Austurl. orðið sem næsta ræðumanni --- hefur ekki hæstv. félmrh. kveðið sér hljóðs? Hér hafa verið fluttar margar ræður og eðlilegt að hæstv. ráðherra svari þeim áður en menn halda áfram ræðuhöldum sínum eða meta það hvort ástæða sé til þess.