Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 15:53:59 (7829)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Vissulega ætlaði ég mér að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint í þessari umræðu og gildir mig einu hvort ég geri það nú eða eftir að hv. síðasti ræðumaður hefur talað í annað sinn.
    Ég held að það sé ástæða til þess að rifja upp í nokkrum orðum forsögu þessa frv. vegna þess að það hefur átt sér nokkurn aðdraganda. En eins og fram hefur komið í þessari umræðu þá sætir þetta frv. nokkurri gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Það var fyrst undirbúið 1988, ef ég man rétt, og þá var það fyrir ábendingar Ríkisendurskoðunar að félmrn. fór í að skoða þetta mál og stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins en það var 3. nóv. 1988 sem ráðuneytið fékk bréf frá Ríkisendurskoðun þar sem m.a. kom fram eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Það er skoðun Ríkisendurskoðunar að sú skipan sem nú gildir [þ.e. um Húsnæðisstofnun] er óæskileg þar sem ekki er í framkvæmd nógu tryggt að saman fari á einni hendi vald og ábyrgð sem er skilyrði fyrir árangursríkri og skilvirkri stjórnun. Því telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að settar séu skýrar reglur sem eyða þeim vafaatriðum sem upp koma varðandi yfirstjórn þessa málaflokks.``
    Enn fremur sagði í bréfi Ríkisendurskoðunar: ,,Með vísað til þess sem að framan greinir er ekki séð að mikilvægir framkvæmdaþættir í störfum Húsnæðisstofnunar ríkisins séu þess eðlis að stjórnskipan stofnunarinnar geti ekki fallið beint undir framkvæmdarvaldið og telur Ríkisendurskoðun þá skipan ákjósanlega. Með þeirri skipan yrði ábyrgð á einni hendi, áhrif Alþingis mundu ekki í reynd skerðast frá því sem verið hefur nema hvað varðar íhlutun á framkvæmdaþáttinn.``
    Þetta er forsaga þess að þetta frv. er flutt og reyndar er það svo að það var lagt fram í tíð síðustu ríkisstjórnar, þ.e. stjórnsýsluþátturinn, eins og hann var lagður fram á vorþingi 1991 í tíð síðustu ríkisstjórnar er nánast óbreyttur núna þegar hann er lagður fram á þessu þingi. Því kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir sú gagnrýni sem fram kemur á þetta frv., þ.e. stjórnsýslulegan þátt þess af hálfu Alþb. og Framsfl.
    Þær fullyrðingar sem hér eru settar fram um að nánast sé verið að leggja Húsnæðisstofnun niður og flytja hana inn sem deild í félmrn. og að ráðherra fari eftirleiðis með allar úthlutanir í húsnæðismálum eru auðvitað fráleitar og vart svara verðar vegna þess að ef frv. er lesið og farið yfir hlutverk húsnæðismálastjórnar í því efni frá því sem er í gildandi lögum þá eru það ekki miklar breytingar sem þar eru gerðar. Þar er tekinn út að vísu fyrsti þátturinn varðandi það að það sé hlutverk húsnæðismálastjórnar að marka meginstefnu í húsnæðismálum sem ég tel að eigi ekki að vera í höndum Húsnæðisstofnunar heldur í höndum viðkomandi stjórnvalda hverju sinni.
    Það sem er gert með þeirri breytingu sem hér liggur fyrir á hlutverk húsnæðismálastjórnar er að það er skýrar kveðið á um það með hvaða hætti húsnæðismálastjórn eigi að leggja fram sínar fjárhagsáætlanir. Þar er kveðið á um í þessu frv. sem er miklu fyllra heldur en í gildandi lögum að það skuli leggja fram til félmrh. fjárhagsáætlun þar sem fram komi sundurliðaður áætlaður rekstrarkostnaður og er það auðvitað mjög brýnt vegna þess að það hefur á það skort að það hafi verið gert af hálfu stofnunarinnar.
    Þetta eru kannski veigamestu breytingarnar sem eru á hlutverki húsnæðismálastjórnar en auðvitað er það ljóst eins og margítrekað hefur komið í umræðunum að ákvæðið um að Húsnæðisstofnun sé sjálfstæð stofnun er felld brott.
    Það hefur mikið verið um það rætt hér af þeim sem hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar að hönnunardeildin hafi verið lögð niður áður en frv. þetta hafi hlotið samþykki á Alþingi.
    Ég held það sé mjög mikilvægt að líta á þá lagagrein sem gildir um tækni- og þjónustudeild Húsnæðisstofnunar í gildandi lögum. Þar er ekki kveðið á um það að starfrækt skuli sérstök hönnunardeild. Það er ekki kveðið á um það í lögum og þess vegna hefur sérstök hönnunardeild sem slík ekki lagastoð. Samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins þá skal stofnsetja tækni- og þjónustudeild við Húsnæðisstofnun. Hlutverk hennar er að vera húsnæðismálastjórn til ráðuneytis um tæknileg atriði hins vegar og veita húsbyggjendum þjónustu um ráðgjöf um byggingarmál og sölu íbúðarteikninga. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að hönnun nýs íbúðarhúsnæðis fari fram inni í stofnuninni og stofnunin geti út af fyrir sig haldið áfram að selja teikningar úr teiknisafni þótt allri hönnun væri hætt inni á stofnuninni þannig að það var mjög nákvæmlega farið yfir þetta af hálfu lögfræðinga ráðuneytisins að hönnunardeildin sem slík hefur ekki lagastoð.
    Ég vil líka í þessu sambandi benda á að það var kveðið á um það í fjárlögum og í frv. til fjárlaga strax í október að að því væri stefnt leggja niður hönnunardeildina og spara í rekstri stofnunarinnar sem næmi að því er mig minnir um 130 millj. kr. Þannig að það lá þegar fyrir októbermánuði að að þessu yrði stefnt. Og af því að það hefur verið mikið gert úr því að starfsmönnum hönnunardeildar hafi verið sagt upp þá lá það einnig ljóst fyrir og reyndar var það svo að starfsmönnum hönnunardeildar voru kynnt þessi áform áður en þau birtust í fjárlagafrv. og áður en það var lagt fyrir þingið.
    Nokkuð hefur verið gert úr því hér að Húsnæðisstofnun er líkt við lánastofnanir svo sem bankastofnanir. Ég tel að hér sé ekki saman að jafna Húsnæðisstofnun við banka eða aðrar lánastofnanir. Það

kemur reyndar fram í grg. að ef Húsnæðisstofnun ríkisins er borin saman við aðrar lánastofnanir, t.d. við ríkisbankana, þá hafa þeir mjög sjálfstæða stöðu gagnvart ríkisvaldinu. Bankarnir ákveða sjálfir vexti og mun á innláns- og útlánsvöxtum og er ætlað að standa alfarið undir eigin lánastarfsemi. Slíkt gildir að sjálfsögðu ekki um Húsnæðisstofnun ríkisins. Samkvæmt 30. gr. og 68. gr. laganna tekur ríkisstjórn Íslands ákvörðun um vexti á lánum stofnunarinnar og það sem er kannski mikilvægast sem hér kemur fram, að Húsnæðisstofnun er aflað fjár til lánveitinga með beinum fjárveitingum samkvæmt ákvörðun Alþingis í fjárlögum, en að auki eru gerðir samningar við lífeyrissjóðina um kaup á skuldabréfum á grundvelli lagaákvæða. Þannig að ég tel að það sé ekki saman að jafna eins og mikið er gert hér og reyndar kom fram í umsögn húsnæðismálastjórnar að þar er borin saman Húsnæðisstofnun sem sambærileg stofnun við t.d. bankastofnanir.
    Ég vil nokkuð víkja að þeim brtt. sem fram koma frá stjórnarandstöðunni þar sem lagðar eru til þær breytingar efnislega að það sé opnað fyrir því að veita lán til viðhaldsframkvæmda við félagslega íbúðakerfið og að lánakjörin til almennra kaupleiguíbúða verði rýmri.
    Ég veit ekki hvort að þingmönnum finnst það eðlileg málsmeðferð af hálfu húsnæðismálastjórnar varðandi þann þátt sem snýr að því að opna lánaflokk til viðhalds á félagslegum íbúðum þegar forsaga málsins er sú að ráðuneytinu er ljóst að það þarf að skoða það mjög nákvæmlega hvort ekki sé rétt að opna fyrir slíkan lánaflokk og beindi því til húsnæðismálastjórnar að það yrði skoðað mjög gaumgæfilega hvað kostaði að opna fyrir slíka lagaheimild. Ráðuneytinu barst ekkert svar frá húsnæðismálastjórn þess efnis heldur sendi Húsnæðisstofnun sjálfsagt í skjóli þess hvað hún er sjálfstæð erindi sitt beint til viðkomandi þingnefndar þar sem óskað er að það sé opnað fyrir lagaheimild um slíkan lánaflokk án þess að ráðuneytinu, sem væntanlega á að skaffa peninga í það, væri gerð grein fyrir því hvað mikið slíkt mundi kosta.
    Reyndar er það líka með almennu kaupleiguíbúðirnar að ef rýmkað er fyrir lánskjörum þá mun það kosta töluvert fjármagn. Ég veit ekki hvort félmn. eða fulltrúar í félmn., stjórnarandstaðan, sem flytur þessar tillögur hafi gert sér grein fyrir þessum kostnaði.
    Það er lagt til af hálfu stjórnarandstöðunnar að þar séu sömu lánskjör varðandi almennar kaupleiguíbúðir og félagslegar íbúðir, að vísu eru þar mismunandi vaxtakjör og spurning er hvort það sé eðlilegt vegna þess að það eru ekki nein tekjumörk hjá þeim sem fá almennar kaupleiguíbúðir. Það er talað um að það sé mikil greiðslubyrði varðandi almennar kaupleiguíbúðir. Ég hygg að að nokkru megi um kenna að framkvæmdin er ekki sem skyldi varðandi almennu kaupleiguíbúðirnar. Í fyrsta lagi hafa framkvæmdaraðilarnir í miklum mæli, þ.e. sveitarfélögin, farið út í það að byggja almennar kaupleiguíbúðir þó það séu til staðar notaðar íbúðir á viðkomandi stöðum, margfalt ódýrari, sem hentuðu undir almennar kaupleiguíbúðir. Þetta er fyrsta atriðið.
    Annað atriðið er að ég hef orðið vör við það að fólki sem kemur í mitt ráðuneyti og kvartar yfir mikilli greiðslubyrði á almennum kaupleiguíbúðum hefur ekki verið gert það ljóst af hálfu húsnæðisnefndanna oft og tíðum að eftir fimm ár þegar skammtímalán er að fullu greitt, þetta 20% lán, þá lækkar greiðslubyrðin verulega. Útreikningar sem við gerðum sýndu að greiðslubyrði á íbúð sem var um 50 þús. kr. á mánuði, lækkaði niður í 30 þús. eftir fimm ár. Þessu hafði fólk ekki áttað sig á og ekki verið gerð grein fyrir af hálfu húsnæðisnefndar. Það má auðvitað segja það að fólk sem ekki hefur aðgang að félagslega kerfinu og fær ekki greiðslumat vegna lágra tekna eða lítils sparnaðar í húsbréfakerfinu að það hafi þennan kost, almennar kaupleiguíbúðir eða leiguíbúðir og ég hygg að leiguíbúðir séu í mörgum tilfellum um 30 til 50 þús. kr.
    Ég ætla út af fyrir sig ekkert að útiloka að það eigi að skoða það hvort eigi að fá að lengja lánstímann á þessu styttra láni, þessu 20% láni og ég tel einnig að það eigi að skoða það af mikilli alvöru að opna fyrir viðhald varðandi félagslegar íbúðir, viðhaldsframkvæmdir. Í því sambandi vil ég nefna og það hefur reyndar komið fram í mínu máli áður, að það er nefnd að störfum með aðild Húsnæðisstofnunar sem hefur verið að yfirfara reynsluna af félagslega kerfinu og lagt sig mjög fram um það að hafa samband við sem flestar húsnæðisnefndir á landinu og heimsótt þær til þess að fara yfir reynsluna af félagslega kerfinu. Þessi nefnd mun skila mér skýrslu væntanlega innan tíðar og ég tel rétt að fá þá skýrslu í hendur áður en farið verður út í þær breytingar sem lagðar eru til af hálfu stjórnarandstöðunnar og ekki síður að menn geri sér grein fyrir því hvernig eigi að standa fjárhagslega undir þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Það er alveg ljóst að það þarf þá að auka fjármagnið inn í félagslega kerfið og ég heyrði nefnda töluna 200 millj. sem kostaði að opna fyrir viðhaldsframkvæmdir. Ég sé þá peninga ekki á borðinu í þeim efnahagslegu þrengingum sem við erum í. Og varðandi það að rýmka lánskjörin þá er mér ekki kunnugt nákvæmlega um hvað það getur kostað.
    Ég vona að þetta svari fyrirspurn sem kom fram hjá Steingrími J. Sigfússyni. Hann óskaði eftir svari mínu við því hvort ég væri tilbúin að setja af stað nefnd sem eigi að fara yfir húsnæðismálin í heild sinni að mér skildist á honum með aðild allra stjórnmálaflokka og verkalýðshreyfingar. Það er nefnd að störfum varðandi félagslega íbúðakerfið. Það er einnig nefnd að störfum til þess að skoða kosti og galla ríkisábyrgðar á húsbréfum og ég tel ekki ástæðu til þess að setja slíka nefnd af stað sem hv. þm. nefndi, a.m.k. ekki að sinni.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi svarað flestum þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint.