Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 21:48:36 (7847)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja það varðandi lífeyrissjóðina, ef þeir standa ekki við þá samninga sem þeir hafa gert vegna þess eins og að var látið liggja af hv. þm. að fulltrúar þeirra ættu ekki lengur sæti í stjórn Húsnæðisstofnunar, þá er ég nú hætt að skilja málið vegna þess að það mundi fyrst og fremst bitna á þeirra félögum ef lífeyrissjóðirnir ætla að halda að sér höndum varðandi skuldabréfakaup.
    Varðandi það sem hv. þm. nefndi um sölu á eigum stofnunarinnar, þá hefur verið talið nauðsynlegt að setja inn í frv. að það þyrfti lagaheimild til þess og það var að bestu manna yfirsýn lögfræðingar sem fóru yfir málið að slíka lagaheimild þyrfti. Þess vegna var hún sett í ákvæði til bráðabirgða og kemur skýring fram á því í frv.
    Varðandi hönnunardeildina sem slíka, þá er ekki kveðið sérstaklega á um hana í lögum um Húsnæðisstofnun, en varðandi sölu á eigum Húsnæðisstofnunar, þá var það talið nauðsynlegt.
    Varðandi það sem ég upplýsti að það hefði gengið erfiðlega að fá upplýsingar frá Húsnæðisstofnun um ýmis atriði, þá hef ég áður nefnt það hér í umræðunni og ég minnist þess að þessi sami hv. þm. sem nú kallar eftir fundi í félmn. út af því taldi það mjög miður þegar hann svaraði mér þá að ég fengi ekki þær upplýsingar sem um væri beðið í Húsnæðisstofnun. En ég sagði að það hefði gengið mjög treglega og við fengum t.d. ekki upplýsingar um kostnaðinn við það að opna þennan lánaflokk varðandi viðhaldið í félagslega íbúðakerfinu. Það liggur alveg ljóst fyrir. En ég sé enga ástæðu til þess að halda einhvern sérstakan fund í félmn. út af því sem hér hefur fram komið.