Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 21:57:46 (7853)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Alltaf heyrir maður nú eitthvað nýtt, að biðja um andsvar við gæslu þingskapa. En ég vil, virðulegi forseti, beina þeirri ósk formlega til forseta undir liðnum þingsköp að umræðu um þetta mál verði nú þegar frestað, að félmn. verði kvödd saman hið fyrsta til þess að kanna og fara yfir þær alvarlegu ásakanir sem hæstv. ráðherra bar hér fram til embættismanna Húsnæðisstofnunar ríkisins. Á þann fund verði þeir kvaddir ásamt formanni húsnæðismálastjórnar til þess að gefa þeim kost á að koma fram með skýringar af sinni hálfu við þessum ásökunum ráðherra sem ráðherra lætur hér falla í ræðustól á Alþingi, þar sem þeir koma ekki við vörnum. Og það væri alveg fráleitt, virðulegi forseti, að mínu mati eftir þessa sprengju sem hæstv. ráðherra hefur varpað inn í umræðuna gagnvart embættismönnum ríkisstofnunar að halda áfram þessari umræðu. Ég teldi slíkt vera þvílíka móðgun við þessa embættismenn að það næði ekki nokkurri mátt. Og ég tel að ef það væri einhver dugur í hæstv. félmrh., þá eigi hann að koma upp á eftir. Ég veit að hann hefur beðið um orðið og ætlar að biðjast afsökunar á þessum ummælum sínum. Að öðrum kosti er ekki um annað að ræða en ítreka þá kröfu sem ég hef þegar sett fram.