Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 22:04:00 (7856)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það var gagnrýnt um daginn í ákveðnu máli sem hefur verið kallað ,,Hrafnsmál`` að ýmsir talsmenn stjórnarandstöðunnar hefðu að honum fjarstöddum gagnrýnt hann úr þessum ræðustól. Svo gerist það hér í kvöld að hæstv. félmrh. ber heiftarlegar ásakanir upp á forustumenn, trúnaðarmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þeir svara ekki bréfum, þeir upplýsa ekki hvað það kostar að taka upp nýja lánaflokka og þeir jafnvel losa sig við eignir án þess að hafa heimild til þess og ég veit ekki hvað og hvað. Þá gerist það að einn þingmaður leyfir sér að nefna það hér að það væri rétt að kalla félmn. saman þannig að þar gefist þessum mönnum kostur á að gera grein fyrir máli sínu. Og hvert er svarið við því? Svarið við því er nei. Þetta er alveg óheyrilegt, virðulegi forseti, alveg óheyrileg framkoma. En auðvitað verðum við í stjórnarandstöðunni að beygja okkur undir þetta, en við verðum þá að segja um leið við fulltrúa stjórnarliðsins að þeir skuli spara sér umvandanir okkar og mannasiðapredikanir yfir stjórnarandstöðunni framvegis út af fjarstöddu fólki.
    Loks vil ég segja það, virðulegi forseti, að ég tel að þær yfirlýsingar sem hafa komið fram á hendur forstjóra Húsnæðisstofnunar jafngildi engu minna en því að hæstv. félmrh. ætli á morgun að reka manninn, annars eru yfirlýsingar hæstv. félmrh. markleysa. Ímyndum okkur, virðulegi forseti, að það hefði komið fram hjá viðskrh. að seðlabankastjóri hefði neitað svara bréfum, neitað að gefa upplýsingar um hvað þetta og hitt kostaði í bankanum. Ætli það hefðu ekki heyrst kröfur um það að maðurinn yrði rekinn? Ímyndum okkur að menntmrh. hefði lýst því yfir að útvarpsstjóri hefði neitað að veita upplýsingar, neitað að koma á framfæri upplýsingum um það hvað þetta og hitt kostaði í útvarpinu. Hvað hefði slík yfirlýsing þýtt frá hæstv. ráðherra? Ég vona að hæstv. félmrh. líti ekki þannig á sjálfa sig að hún telji að hennar orð séu ómagaorð. Hún er ráðherra húsnæðismála og hún er yfirmaður forstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þess vegna hlýt ég að endurtaka kröfu sem hér var borin fram og verði henni neitað þá hljótum við að skoða meðferð málsins í ljósi þess.