Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 22:06:45 (7857)

     Guðmundur Bjarnason (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir stuðningi mínum við þá ósk hv. 5. þm. Vestf. að umræðunni verði frestað um sinn og tel að þær yfirlýsingar sem hér komu fram frá hæstv. félmrh. séu þess eðlis að eðlilegt sé að félmn. taki þær til umræðu og athugunar enda eru þær þá líka skýring á að nokkru leyti þeim tóni sem er í grg. með því frv. sem hér var til umræðu um Húsnæðisstofnun sem ekkert er í raun annað en nokkurs konar dylgjur og aðdróttanir að starfsfólki þessarar stofnunar.
    En það sem ég vildi einkum tala um, hæstv. forseti, var sú meðferð áðan á umræðum um andsvör þegar ræðutími þingmanna er skorinn niður svo sem gert var. Hæstv. ráðherra svarar síðan ekki spurningum sem komu t.d. frá hv. þm. Jóni Kristjánssyni um viðskipti lífeyrissjóðanna við Húsnæðisstofnun eða Húsnæðisstofnunar við lífeyrissjóðina og um sölu eigna þannig að hv. þm. er síðan meinað að gera frekari grein fyrir máli sínu af því ráðherrann svarar ekki. Hæstv. ráðherra notar síðan tækifærið til að svara þessum spurningum í andsvari við hv. þm. Kristinn Gunnarsson. Þá fjallar ráðherrann um sölu eigna, um viðskipti Húsnæðisstofnunar við lífeyrissjóðina og fleira, en þá er búið að taka orðið af hv. þm. Jóni Kristjánssyni sem bar þó þessar spurningar fram. Þetta hlýtur að vera mjög undarlegt, hæstv. forseti, ég veit ekki hvort hægt er að ásaka hæstv. forseta fyrir þetta vegna þess að þetta skapast af því hvernig hæstv. ráðherra leyfir sér að haga máli sínu, en þá tel ég líka að hæstv. forseti verði líka að grípa svo inn í að hann geti gefið hv. þm. aftur kost á því síðar að svara andsvari ráðherra eða beita nýju andsvari við svari ráðherra þegar hann kýs það að svara mörgum þingmönnum í einu eins og hér gerðist áðan. Þetta er það sem

ég vildi nefna sérstaklega, hæstv. forseti, og gera athugasemd við varðandi stjórn þingsins.