Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 23:08:52 (7868)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég bið hæstv. félmrh. afsökunar á því að ég hélt að hún hefði tekið vel í mál mitt. Það gerði hún greinilega ekki, hún tók illa í það og það þykir mér verra. En málið er það að hér eru gerðar tillögur um það að heimilt verði að jafna niður gjöldum vegna í fyrsta lagi lántökugjalda, gjalda fyrir tæknilega þjónustu og gjalda vegna innheimtu á lánum stofnunarinnar sem eru í vanskilum. Og fjárlagatala í þessum efnum uppfyllir ekki kröfur um nauðsynlegan lagagrundvöll til innheimtu á tekjum í þessu skyni eins og skattlagningarvaldið er skilgreint í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þess vegna segi ég við hæstv. ráðherra: Það verður að skoða þessa grein á milli umræðna. Ég tel það ekki vandaða lagasetningu að opna fyrir það að ráðherra geti í raun og veru notað þessa grein til þess að innheimta fjármuni, kannski upp á tugi, kannski upp á hundrað millj. kr. eftir því hversu mikil vanskilin eru. Ef þau væru gríðarlega mikil og stofnunin ætti að sleppa skaðlaus, þá er hér um að ræða hundruð millj. kr. en það viljum við ekki, það vill ekki hæstv. ráðherra. Þess vegna á að setja takmörkun í greinina. En ég bið ráðherrann aftur afsökunar á því að ég skyldi halda að hún tæki vel í mál mitt. Hún tók því greinilega illa og það þykir mér mikið, mikið verra.